Volkswagen Golf GTE 2015

Sjöunda kynslóð Volkswagen Golf hefur verið ansi farsæl síðan hún kom til landsins árið 2013. Fyrsta árið sigraði hún flokk smærri fólksbíla í vali á bíl ársins og í fyrra komst hún í úrslit í sama flokki, nema þá í sport-útfærslunni GTD. Nú, hins vegar, kemur fram á sjónarsviðið önnur sport-týpa, þó öllu vistvænni. GTE er nefnilega tengiltvinnbíll (e. Plug-in Hybrid) og gengur þá fyrir bensíni og rafmagni. Útfærsla VW við hönnun drifrásarinnar er einkar athyglisverð þar sem rafmótornum er komið fyrir milli 1,4 lítra TSI bensínvélarinnar og 6 gíra DSG gírkassans. Þetta þýðir að þegar keyrt er á rafmagninu einu og sér keyrir bíllinn í gegnum alla 6 gírana, ólíkt „hefðbundnum“ rafbílum sem hafa bara eitt fast gírhlutfall. Bíllinn er byggður á hinum víðþekkta MQB undirvagni (Audi A3 og TT, Skoda Octavia og Superb og VW Passat og Tiguan o.fl.) og deilir sömu drifrás og Audi A3 e-Tron. Sá bíll er þó þyngri og talsvert dýrari. Þar sem þessi bíll ber stafina GT í nafninu sínu þýðir það að hann kemur úr sömu fjölskyldu og GTI (bensín) og GTD (dísil) sport-Golfarnir. Eitt smáatriði sem pirraði mig lítillega var að þeir skyldu ekki nefna bílinn GTH (Hybrid) og skilja GTE (Electric) nafnið eftir fyrir hreinan rafbíl í sportútfærslu, en það verður bara að hafa það... Samanlagt afl GTE er svipað og það í GTD á meðan hámarkstog er svipað og í GTI. En þar sem bíllinn ber tvo aflgjafa um borð hefur það í för með sér talsverða aukna þyngd. 8,8 kW-stunda batterýpakkinn undir aftursætunum vegur 120 kg og þegar allur búnaður sem honum tengist er tekinn saman vegur bíllinn heilum 300 kg meira en GTI. Heildarþyngdin er þá komin upp í 1.599 kg. Snerpan er því í samræmi við þessar breytur; 0 – 100 km/klst tekur 7,6 sekúndur samanborið við 7,5 sekúndur hjá GTD og 6,5 sekúndur hjá GTI. Á móti kemur þó að GTI tapar þegar kemur að eyðslutölum, eins og við var að búast. Uppgefnar eyðslutölur fyrir GTI með sama gírkassa eru 6,3 l/100 km og 4,5 l/100 km fyrir GTD. Uppgefnar eyðslutölur GTE eru vart trúanlegar, eða aðeins 1,5 l/100 km, en þær koma til vegna þess að uppgefin drægni á rafmagni einu og sér er um 50 km.

Innréttingin tekur að sér gamla góða GT-þemað með köflótt tausæti sem faðma ökumann vel og innilega að sér. Í raun er ekkert í innra rými bílsins sem gefur til kynna að hann sé tvinnbíll, heldur er hann nánast gjörsamlega áþekkur flestum öðrum Golfum. Gæðatilfinning er ríkjandi og skilvirkni í fyrirrúmi þegar kemur að upplýsinga- og afþreyingarkerfinu.  Farangursrýmið er ögn minna en í öðrum Golfum sökum batterýpakka, en þó er plássið nýtt vel.

Í akstri er bíllinn hljóðlátur þegar bensínvélin er í gangi og nánast hljóðlaus þegar keyrt er á rafmagninu, enda vel smíðaður og vel hljóðeinangraður. Viðstöðulaust tog rafmótorsins slengir bílnum snöggt af stað og heldur nokkuð línulegri hröðum hátt í annað hundraðið. En sökum aukinnar þyngdar og viðnámslitlum, umhverfisvænum dekkjum var grip ekki eins og best var á kosið. Bíllinn tók nokkuð fljótt að undirstýra við mikil átök og var veltingur ívið meiri en í hinum GT bræðrunum.

Hægt er að túlka Golf GTE á tvo vegu; ánægjulegur en þó ekki eins næmur og skemmtilegur akstursbíll og GTI eða GTD annars vegar, eða hins vegar umhverfisvænn fjölskyldu-tvinnbíll með mun skemmtilegri aksturseiginleika en aðrir keppinautar. Og vegna þess að VW Golf sigraði flokk umhverfisvænna bíla í vali á bíl ársins 2016 kjósum við að líta þannig á hann.

Helstu upplýsingar:

Verð: Frá 4.690.000 kr

Afköst vélar: 204 hestöfl / 350 Nm (Samspil benín- og rafmótors)

Eldsneytiseyðsla: 1,5 l/100 km (uppgefin) / 4,2 l/100 km (rauneyðsla)

Losun CO2: 35 g/km

Kostir:

  • Sportlegur og umhverfisvænn
  • Drægni á rafmagni nægir fyrir flestan innanbæjarakstur
  • Gæðatilfinning í innra rými

Ókostir:

  • Skertir aksturseiginleikar sökum þyngdar og dekkja