Volkswagen Golf GTD 2014

Hinn nýji VW Golf GTD er byggður á 6. kynslóð Golfsins sem var tilnefndur í valinu í fyrra, en er hér í sportútfærslu. GTI bíllinn var kominn til landsins, en ekki reyndist hægt að fá hann lánaðan í reynsluakstur.

GTD er í stuttu máli dísilútfærsla GTI bílsins. Sá munur sést skýrast í afköstum vélanna, en dísilbíllinn skilar meira togi en minna afli en bensínbíllinn. Hafandi reynsluekið báðum útfærslum verður að segja að báðir séu svo gott sem jafn fýsilegir kostir. Sem fólksbíll er lítið sem ekkert hægt að setja út á Golfinn, eins og kom fram í greininni um grunnútfærslu hans í fyrra. Pláss er nægilegt, vind- og veghljóð í algjöru lágmarki og mikil gæðatilfinning ríkjandi í innra rými bílsins. Eldsneytiseyðsla er einnig hlægilega lág fyrir svo aflmikinn bíl, sé akstri haldið innan skynsemismarka, að sjálfsögðu. Í akstri sést munurinn best; Viðbragð stýris og bensíngjafar er snöggt og nákvæmt og afl nægilegt til að fara of hratt á of stuttum tíma. Bíllinn steinliggur í beygjum, dekkin grípa fast í malbikið og sportsætin halda manni í skefjum á meðan ekið er of hratt í téðar beygjur, líkt og gert var í lokaprófunum á Kvartmílubrautinni. Ennfremur er Golfinn heilum 300.000 kr ódýrari en Kia Cee‘d GT – fyrsta „hot hatch“ bílsins frá Kia. Sá bíll lofaði góðu, en vantaði þó nokkuð upp á fágun og aksturseiginleika til að verðskulda sæti í úrslitum.

Að lokum er VW Golf GTD stórskemmtilegur bíll og líður (lítið sem) ekkert fyrir að vera knúinn áfram af dísilhreyfli. Nú er það bara að vona að fólk taki upp veskin og kaupi bíla sem þessa svo úrvalið fari að aukast hér á götum landsins!

Helstu upplýsingar:

Verð: 5.490.000 kr (með DSG gírkassa)

Afl: 184 hestöfl

Tog: 379 NM

Eldsneytiseyðsla: 4,5 l/100 km (uppgefin) / 5,7 l/100 km (rauneyðsla)

Losun CO2: 122 g/km