VW e-up 2014


Rafmagnaður smábíll

VW e-up er fyrsti fjöldaframleiddi rafbíll Volkswagen og um margt mjög vel heppnaður, sérstaklega þó sem borgarbíll. Hann er snöggur í upptakinu og afbragðsgóður í akstri, ekki síður en hinn hefðbundni bensínknúni. Hann hefur þó fram yfir hinn bensínknúna að vera hljóðlátari í akstri þar sem vélarhljóð er nánast ekki neitt. Úti á vegum á þjóðvegahraða er hann sömuleiðis hljóðlátur þótt auðvitað heyrist hjólahvinur eins og í öllum bílum. En það er nokkurnveginn allt og sumt og bíllinn er mun hljóðlátari en gengur og gerist um bíla af þessari stærð.

Rýmd rafgeymanna í e-up er 18,7 kílóWattstundir sem segja má að sé full lítið því að samkvæmt mælingu ADAC í Þýskalandi er orkueyðsla í akstri 13,8 kílóWattstundir á hverja 100 km. (Uppgefin eyðsla 11,7 kWst.). Niðurstaða ADAC þýðir að drægið á fullhlöðnum geymum sé ekki meira en 165 kílómetrar en það er vel að merkja við bestu aðstæður og með sparaksturslagi. Þannig má gera ráð fyrir því að í venjulegum borgarakstri sé drægið þetta 110-130 km. Sé notkunin eingöngu innan þéttbýlis er það auðvitað fyllilega nóg því að fæstir aka meir en 50 kílómetra í hinu daglega amstri og meðalakstur Íslendinga á dag er um 33 kílómetrar. En af því hversu bíllinn er skemmtilegur í akstri þá er það dálítil synd að geta ekki skotist á honum til Akureyrar eða á Egilsstaði fyrirvaralaust.

VW e-up verður fáanlegur á Íslandi snemma á næsta ári samkvæmt upplýsingum frá Heklu hf. Áætlað verð miðað við verðlag og gengi dagsins í dag verður í kring um 3,7 millj. kr.

Kostir:

Hljóðlátur og laus við vélartitring. Góður hámarkshraði (130 km á klst.) Ágætur í akstri.

Gallar:

Ónógt drægi