Toyota Rav4 2013

Toyota Rav4 hafnaði í öðru sæti í flokki jeppa og jepplinga í vali á Bíl ársins á Íslandi 2014. Nýjasta kynslóðin er sú fjórða í röðinni, en Rav4 er mestseldi jepplingurinn frá upphafi. Með nýjustu útfærslunni var lögð frekari áhersla á sportlega aksturseiginleika fremur en utanvegagetu og vekur það talsverðar efasemdir í fyrstu.

Að utan er nýji bíllinn talsvert breyttur frá síðustu kynslóð, en hönnuðir Toyota hafa greinilega verið með puttann á púlsinum og fylgt þeirri stefnu sem flestir jepplingar stefna í dag. Kúptar og sveigðar línur víkja fyrir skörpum hornum og stæðilegum áherslulínum. Útkoman er að mestu góð; að framan er bíllinn myndarlegur og í góðum hlutföllum, en að aftan er að finna einkennilegan stall undir afturrúðunni sem á líklega að undirstrika kröftugt útlit og öryggi. Sá hluti þótti hins vegar missa marks og líta skringilega út. Innrarýmið er fallega hannað og er efnisval hið ágætasta. Ennfremur er bíllinn vel smíðaður eins og Toyota er þekkt fyrir og gefur traustvekjandi tilfinningu. Búnaður er rausnarlegur í meira lagi, en sem staðalbúnað má nefna Toyota Touch snertiskjá (í lit) með bakkmyndavél, handfrjáls Bluetooth búnaður, rafstýrður afturhleri og margt fleira. Rými er gott fyrir alla farþega og farangursrýmið stærra en nokkru sinni fyrr.

Segja má að Toyota hafi tekist ætlunarverk sitt hvað akstur varðar, en á götunni hegðar bíllinn sér eins og fólksbíll fremur en jepplingur. Bíllinn liggur svotil flatur í beygjum og ökumaður situr lægra en áður og fær því meiri tilfinningu fyrir veginum. Á móti kemur að eiginleikar hans utan malbikaðra borgar- og þjóðvega eru öllu grófari en áður. Stífari fjöðrun lætur ökumann vita af hverjum einasta smástein sem keyrt er yfir sem kann að vera þreytandi til lengri tíma. Þó er vitað mál að flestir kaupendur munu nær eingöngu nota bílinn á malbikuðum vegum. Bíllinn var útbúinn 2.0 lítra bensínvél með CVT sjálfskiptingu og skiptiflipum aftan á stýri. Hún þótti heldur kraftlaus og var eyðslan, líkt og hjá Ford Kuga, nokkuð yfir uppgefnum tölum frá framleiðanda, eða um 8.5 lítrar á hundraðið. Undirritaður mælir frekar með dísilvélinni vegna samblands aukins togs og minni eldsneytiseyðslu.

Toyota Rv4 er mjög heilsteyptur pakki og öruggur kostur þegar kemur að jepplingakaupum. Í ofanálag er bilanatíðni nær engin og þjónustan hjá Toyota á Íslandi góð.

Helstu upplýsingar:

Verð: Frá 5.985.000 kr – 7.400.000 kr (án aukabúnaðar)

Afl: 150 hestöfl (2.0 bensín) / 151 hestafl (2.2 dísil)

Hröðun 0-100 km/klst: 9.9 sekúndur (bensín) / 9.6 sekúndur (dísil)

Eldsneytiseyðsla í blönduðum akstri: 7.3 l/100 km (bensín) / 5.6 l/100 km (dísil)

Losun CO2: 169 g/km (bensín) / 147 g/km (dísil)

 

Kostir:

Ríkulegur staðalbúnaður

Akstur innanbæjar

Gallar:

Eldsneytiseyðsla (bensín)

Utanvegaakstur