Tesla Model Y

Á aðeins fáeinum árum hefur Tesla orðið eitt af þekktari bifreiðamerkjum í heimi með milljarðamæringinn og frumkvöðulinn Elon Musk í fararbroddi. Í dag býður Tesla upp á fjórar undirtegundir sem eru Model S, 3, X og síðan Y sem kom nýverið á markað hér á landi. Að auki er forsala hafin á framúrstefnulega rafpallbílnum Cybertruck.  

FÍB-blaðið fékk Model 3 í reynsluakstur sumarið 2020 og fékk bílinn mjög jákvæðar undirtektir frá blaðamanni. Þegar þetta er skrifað hafa tæplega 1300 Model 3 bílar verið skráðir á götuna á rúmlega 18 mánaða tímabili og Y virðist ætla að taka sömu stefnu þar sem um 300 bílar hafa verið skráðir á seinustu tveimur mánuðum.  

Útlit 

Hönnuðir halda fast í fyrri hönnun og einkenni frá Model 3 og við fyrstu sýn er ekki ósennilegt að margur haldi Y vera 3 og öfugt. Það ætti í sjálfum sér ekki að koma á óvart þar sem 70% af íhlutum eru þeir sömu á milli tegunda. Við nánari skoðun kemur hins vegar í ljós að Y er umtalsvert stærri á alla kanta eða 5,6 cm lengri, 7 cm breiðari og heilum 18,2 cm hærri. Að auki hefur bíllinn fengið 2,8 cm aukalega í veghæð og endar því í 16,8 cm. Þessi stærðarþensla og aukning á veghæð hefur gert það að verkum bílinn missir snaggaralega útlitið sem Model 3 hafði og færist hann nær útliti fjölnotabíls (e. multivan). 

 

Tesla Y Útlit

 

Hægt er að velja um sömu fimm litina eins og á Model 3 þar sem hvítur er grunnlitur og borga þarf aukalega vilji viðkomandi fá hann í svörtum, bláum, gráum eða rauðum. Grunnútgáfan kemur á 19“ felgum sem eru stækkanlegar upp í 21“. 

 

Tesla Y bak

 

Ein af stærri útlitsbreytingum, sem hafa orðið hjá Tesla bæði á 3 og Y, var að öllu krómi var eytt út (e. chrome delete) og í stað þess kom mött svört áferð og hefur uppfærslan almennt fengið jákvæð viðbrögð. 

Innra rými 

Eins og með marga aðra þætti er innréttingin mjög svipuð með þristinum: einföld og lágstemmd þar sem fimmtán tommu snertiskjár er miðpunktur bílsins. Enga mæla eða aðrir upplýsingaskjái er að finna í bílnum og sama má segja um hnappa, fyrir utan þá sem eru í stýri, ásamt stefnuljósa- og skiptiörmum í stýri. 

 

Tesla Y innrétting

 

Allar útgáfur koma með stóru glerþaki sem nær frá framrúðu og nær alla leið yfir bílinn. Hægt er að velja um svart eða hvítt áklæði á sætum sem er eins og leður í viðkomu og eru allar innréttingar nú eingöngu framleiddar úr gerviefnum án aðkomu dýra. Eins og á öðrum Tesla bifreiðum eru sætin einstaklega þægileg og halda vel að ökumanni og farþegum.  

Einn af stærri kostum við aukna veghæð og hærra þak er að umgengni um bílinn verður auðveldari. Hægt er að setjast beint inn í hann og er ásetan mun hærri en t.d. í Model 3 og gefur það um leið afslappaðri akstur.  

Vel fer um farþega í aftursætum og eru sætisbökin stillanleg, hvort verið sé að hugsa til þæginda fyrir farþega eða hámarka skottpláss, án þess að þurfa að leggja niður sæti. 

Skottið er einstaklega rúmgott eða 854 lítrar og opnast afturrúða með hlera og því er auðvelt að hlaða bílinn. Hægt er að leggja niður aftursæti með rafdrifnum hnappi innan í skotti og leggjast sætin flöt niður sem gerir skottið nær alveg flatt en það skilar 2158 lítrum í rými. Undir botnplötu leynast síðan tvö geymslurými, annað er fremur djúpt eins og bali en hitt er grynnra. Einnig er pláss í húddinu fyrir kapla og annað smálegt.

 

Tesla Y skott

 

Erlendis er Model Y nú þegar í boði með þriðju sætaröð sem gerir bílinn sjö manna og munu Íslendingar fá kost á að kaupa þá útgáfu á vormánuðum 2022. Miðað við prófanir á þriðju sætaröð, sem má finna á veraldarvefnum, er plássið fremur lítið og ætti að henta best fyrir yngri farþega. 

 

Tesla Y Hlið

 

Athyglisvert er að ekki kemur hilla eða hlíf yfir skottinu og mætti búast við auknum veggný frá afturdekkjum. Stóru farþega- og farangursrými ásamt glerþaki fylgja ekki aðeins kostir því að eins er með Model 3 að hljóðvistin í bílnum mætti vera betri þar sem bergmál gerir vart við sig þegar bíllinn er tómur.  

 

Tesla Y skott

 

Búnaður 

Nær öll stýring fer í gegnum miðlægan skjá á mælaborðinu. Skjárinn sjálfur og hugbúnaður hans er framúrskarandi hvað varðar skerpu, snerpu og notendaviðmót. Tesla hefur ávallt verið virkt við að uppfæra hugbúnað þráðlaust (e. over the air) í leit sinni við að eyða út vandamálum eða göllum ásamt því að bæta við nýjum eiginleikum. Hægt er að finna allar stillingar fyrir ótrúlegustu hluti í kerfum bílsins og má velta upp spurningum um hvort of mikið af stillingum séu af því góða fyrir almennan notenda? 

Hljóð- og upplýsingakerfi (e. infotainment) bílsins eru mjög góð þar sem nettenging býður upp á notkun á ýmsum hljóðveitum eins og Spotify og TuneIn Radio. Þá er einnig hægt að horfa á streymisveitur eins og Netflix og Youtube þegar bíllinn er ekki í akstri.  

Hljóðkerfi bílsins er með því betra sem undirritaður hefur prófað. Það verður varla vart við bjögun sama hversu mikið er hækkað þó svo að einhverjir gætu kosið aukinn bassa. Kerfið er byggt upp af 14 hátölurum þar sem þrír eru staðsettir fremst á mælaborði undir framrúðu og er þeim svo deilt út jafnt yfir bílinn sem endar á einum bassahátalara í skotti.  

Hvað varðar öryggi hefur Y skorað fullt hús í árekstrarprófunum og hefur sérstaklega góðar niðurstöður hvað varðar veltuhættu. Með auknum öryggisbúnaði geta komið ófyrirséð vandamál og eitt af þeim er viðvörun um öryggisbelti sem birtist á ökumannsskjá ásamt gaumhljóði. Þetta er vissulega þarfur búnaður en hann virðist ávallt vera virkur og því koma meldingar upp í tíma og ótíma t.d. ef aftursætisfarþegi hallar sér á miðjusætið þrátt fyrir að bíllinn sé kominn á ferð en ólíklegt þykir að nýir farþegar séu að stíga um borð á 60 kílómetra hraða.  

Akstur 

Prufubíllinn var Long Range-útgáfa sem er fjórhóladrifin með 507 km wltp uppgefið drægi og 5 sekúndur í hundraðið. Einnig er hægt að fá Performance-útgáfu fyrir rúmlega milljón í viðbót og fellur þá drægni niður um 27 kílómetra og hröðun verður umtalsvert betri eða 3,7 sekúndur í hundraðið. Í samanburði við Longe Range Model 3 er drægni og hröðun ekki jafn góð en uppgefin drægni er aukalega 107 km og 0,6 sekúndum snarpari í hundraðið. 

Aksturinn er flæðandi, átakalaus og hljóðlátur. Upptakið er mjög gott í bílnum, sama á hvaða hraða bíllinn er á. Stýrið er nákvæmt og fær ökumaður ágæta tilfinningu fyrir veginum.  

Stærsti ókosturinn við viðkomandi bifreið er hversu gjarn hann var að leita í hjólför og þarf bílstjóri að leiðrétta bílinn oftar en góðu hófi gegnir. Gildir þetta jafnt fyrir akstur innan- og utanbæjar. Hugsanleg skýring gæti falist í að reynsluaksturbíll er á 20“ álfelgum sem eru einni tommu stærri en upprunalegu 19“ felgurnar. Þá eru dekkin á bílnum full breið fyrir fjölskyldubíl á íslenskum vegum eða 255/40 R20. Bíllinn lét ágætlega að stjórn undir álagi og lá vel í beygjum en Model 3 skilar ívið betri upplifun og gripi þegar á reynir.  

Þyngd bílsins er töluverð eins og með svo marga rafbíla með sambærilega drægni. Model Y er uppgefin með 2059 kg. en mældist á vigt slétt tvo tonn. Undirrituðum þótti ástæða til að sannreyna þyngdina því að tilfinningin fyrir bílnum benti til að hann væri enn þyngri. Sölumaður Tesla var inntur eftir svörum varðandi burðargetu en hún er einungis uppgefin 312 kíló í skráningargögnum Samgöngustofu. Að sögn er það mál í ferli þar sem þetta eru rangar tölur og benti sölumaður á upplýsingar innan í hurðarstaf bílsins máli sínu til stuðnings þar sem fram kemur að burðargeta sé 416 kíló. Gott er að vekja athygli á því að þrátt fyrir leiðréttingu er burðagetan fremur lág og í því samhengi má nefna að burðargetan á nýjum Yaris er 490 kg. Af þessum sökum er fremur auðvelt fyrir fjögurra manna fjölskyldu á ferðalagi að fara yfir leyfða heildarþyngd þrátt fyrir að stærðin á bílnum gefur til kynna að burðurinn gæti verið meiri. 

Dráttargeta bílsins er 1600 kíló sem er þó nokkuð gott miðað við aðra rafbíla á markaðnum. Núna er ekki hægt að fá dráttarbeisli afhent með nýjum bílum en möguleiki er að setja það undir eftir afhendingu.  

Niðurstaða 

Skiljanlegt er hvers vegna Tesla er einn af mest seldu rafbílum á Íslandi þar sem gæði, hönnun og verð koma saman. Það getur fælt einhverja kaupendur frá hversu einsleitt framboð er af litum og útliti og kemur varla á óvart að sjá nokkrar Teslur samankomnar á umferðaljósum, jafnvel í sama lit.  

Einnig er vert að benda á að Tesla er fremur ungt merki hér heima og á heimsmælikvarða. Ábyrgðin á bílnum er í styttra lagi eða fjögur ár og því er enn ekki komin reynsla á Model 3 og Y til lengri tíma við íslenskar aðstæður.  

Framboð á rafmagnsbílum eykst gríðarlega hratt um þessar mundir og samkeppnin er mikil. Ekki virðist skipta máli frá hvaða heimsálfu eða framleiðanda bílar koma í dag en allir virðist þeir  auka áherslu á gæði og munað ásamt hærra þjónustustigi og ábyrgð.  

Sért þú kauphugleiðingum fyrir rafmagnsbíl mæli ég sterklega með því að prófa sem flesta bíla og þar á meðal Teslu. Einnig vill undirritaður benda á sterka innviðauppbyggingu sem hefur átt sér stað á vegum Tesla en fjöldi ofurhleðslustöðva eru komnar umhverfis landið. 

Í þessum skrifum var ekki farið inn sjálfstýringartækni sem Tesla hefur verið að þróa undanfarin ár og er það út af fyrir sig efni í heila grein til viðbótar.  

Björn Kristjánsson, okt 2021

Kostir: Drægni, notendaviðmót og verð 
Gallar: Beltaskynjari í aftursætum, ábyrgð og burðargeta. 

Grunnverð: 7.905.000 kr.
Afl: 346 hestöfl
Tog: 527 nm
Rafhlaða: 75 kWh.
Drægni WLTP: 507 km
Blönduð eyðsla: 15 kWh/100 km
Farangursrými: 854 lítrar
L/B/H: 4.750/2.129/1.623 mm
Hjólhaf: 2.891 mm
Eigin þyngd: 2003kg
Dráttargeta: 750/1600 kg.