Jeep Compass 2018

Jeep Compass

Jeep Compass

Jeep, eða Jeppinn (með stórum staf) hefur frá því fyrir miðja 20. öldina verið með vinsælustu fjórhjóladrifsbifreiðum á Ísland og það þótt áratugum saman hafi enginn formlegur innflytjandi/þjónustuaðili verið til staðar. Öðru máli hefur gegnt um meginland Evrópu. Þar hafa Jeep-bílar verið fremur sjaldséðir þar til á allra síðustu árum eftir að Fiat eignaðist Jeep (og Chrysler). Þá tóku að birtast nýjar gerðir sem féllu Evrópumönnum betur í geð. Sú fyrsta þessara evrópugerða var Jeep Renegade og nú er það Jeep Compass sem hér er til umfjöllunar.

Jeep Compass (4,4 m langur) er aðeins stærri en Jeep Renegade (4,2 metrar) en minni um sig en hinir ,,amerísku” Cherokee (4,6 metrar) og Grand Cherokee (4,8 m) enda beinlínis hannaður fyrir Evrópubúa. Í ytra og innra útliti hans má sjá mörg merki skyldleikans við Fiat sem er sannarlega ekki slæmt þar sem ítölsk bílahönnun er og hefur lengi verið einstök og frumleg. Compass kemur þannig vel sterkur inn í samkeppnina um hylli evrópskra kaupenda jeppa og jepplinga af þessari stærð. Fyrir í þeim hópi eru m.a. Kia Sportage, Nissan Qashqai, VW Tiguan og Ford Kuga.

Hinn nýi Compass (sama nafn og á skammlífum eldri jeppa úr samstarfi Jeep og Daimler) ber ekki bara keim af Fiat í útliti og innréttingu heldur eru drifbúnaður og vélar einnig að miklu leyti ættað frá Fiat. Í reynsluakstursbílnum var 170 ha. tveggja lítra túrbínudísilvél frá Fiat og við hana níu hraðastiga sjálfskipting frá evrópska gírkassaframleiðandanum ZF.

Jeep Compass er þægilegur bíll í akstri og meir en nógu öflugur. Fyrir reynsluökumann nýkominn undan stýri á Fiat 500L, sem fjallað verður í næsta tölublaði, fannst fljótt hversu aksturseiginleikarnir voru fínir og reyndar merkilega keimlíkir hjá þessum tveimur annars ólíku bílum. Án vafa var það Fiat-frændsemin sem þarna skilaði sér en Fiat hefur alla tíð haft sérstakt lag á fallegri og praktískri hönnun og góðum aksturseiginleikum. Sú hæfni er að skila sér inn í Ameríkudeildina.

Jeep Compass er ekki bara jepplingur – slyddujeppi - heldur líka jeppi sem bjóða má sitt af hverju. Við kaup á Compass er (verður) hægt að velja milli tveggja afbrigða fjórhjóladrifskerfa. Það drifkerfi sem í reynslubílnum var heitir Selec-Terrain System. Það er mjög svipað og þekkist í mörgum jepplingum eins og t.d. Nissan X-Trail og er stýrt af tölvu. Með sérstökum snúningshnappi er hægt að velja í milli 12 forritaðra kerfa eftir hverskonar akstursaðstæðum – auðum vegir, snjó, hálku, lausamöl eða ef ekið er í hverskonar torfærum, o.s.frv.

Hitt kerfið heitir Jeep Active Drive eða Trailhawk og er hreint jeppadrifkerfi með háu og lágu drifi, skiptingu milli fjórhjóla- og tveggja hjóla drifs og driflæsingum sem má læsa á ýmsan hátt á bæði þver- og langveginn, hvort heldur er saman eða í sínu hvoru lagi. En hvor drifgerðin sem valin verður þá ber að taka það fram að Compass er hreint ekki viðkvæmur í torfærum. Þar ræður nokkru að fremur hátt er undir botn bílsins og skögun að framan og aftan er ekki mikil, fjöðrun bæði fram- og afturhjóla er ennfremur mjög slaglöng þannig að mikið þarf til að hjól sleppi ,,jarðtengingu” sinni í torfærum.

Hvað varðar búnað hið innra er úr talsverðu að velja. Reynsluakstursbíllinn hafði 8,4 tommu snertiskjá þar sem auðvelt var að stjórna GPS leiðsögukerfinu sem og flestu öðru, eins og útvarpi/hljómtækjum, síma, hita og loftræstingu. Ennfremur voru stjórntakkar á sjálfu stýrishjólinu þar sem líka má stjórna þessu öllu saman og fleiru, eins og skriðstillinum, og kalla fram upplýsingar um flest viðkomandi bílnum sjálfum. Þetta kerfi er fremur auðvelt í notkun og afar líkt því sem er í Fiat, enda nefist kerfið Fiat-Chrysler’s Infotainment System.

Jeep Compass innra rými Jeep Compass innra rými

Jeep Compass er vissulega enginn risajeppi en vel hannaður og innanrýmið vel nýtt. Að þessu leyti ber hann umtalsverðan svip af Fiat sem alla tíð hefur haft á að skipa frábærum bílahönnuðum, sem voru jafnvígir á fegurð og notagildi yst sem innst. Rúmt er um farþega og farangur og bíllinn hentar fjölskyldum því ágætlega. Innréttingin er að segja má ,,evrópsk” því sætin eru stinn og falla vel að skrokkum þeirra sem í þeim sitja og eru laus við hina ,,amerísku mýkt” sem á lítt upp á pallborð evrópskra bílkaupenda yfirleitt. Vel fer um fólk í framsætunum og þokkalega vel um tvo til þrjá fullvaxna í aftursætinu líka. Í aftursætisbakinu miðju er púði sem fella má niður og er þá kominn góður armpúði þar, sem í gamla daga var af sumum nefndur ,,hjónadjöfull.” Aftast er svo farangursrýmið sem er vel breitt og rúmgott. Undir gólfi þess er svo mikið pláss þar sem rúm er fyrir varadekk í fullri stærð (sem þar er) eða þá dekkjaviðgerðasett, loftdælu og nauðsynlegustu verkfæri eins og nú tíðkast með flesta nýja bíla.  

Reynsluakstursbíllinn var með tveggja lítra 170 ha. túrbínudísilvél og við hana níu hraðastiga sjálfskipting. Vélin er þýðgeng og hljóðlát og krafturinn sannarlega nægur. Venjulegur akstur innan- og utanbæjar er mjög afslappaður og níu hraða sjálfskiptingin sér til þess að vélin er alltaf á heppilegasta snúningshraðanum miðað við álag sem þýðir m.a. að eyðslan er mjög hófleg. Þessi vél og drifbúnaður er efalítið það sem flestir kaupendur munu kjósa, en það er vissulega fleira í boði frá framleiðandanum. Hann býður nefnilega líka upp á 1,4 l túrbínubensínvél. Sú er 170 hö. Einnig er hægt að fá tveggja lítra dísilvélina í 140 hestafla útgáfu.

Verðið á Jeep Compass Limited hlýtur að teljast nokkuð hagstætt fyrir vandaðan bíl af þessu tagi, en umboðið auglýsir það á heimasíðu sinni frá rétt tæpum 5,5 millj. kr. en þar er um að ræða eintak með 1,4 l bensínvélinni. Reynsluakstursbíllinn með 170 ha. dísilvélinni og listaverðið á honum er 300 þús. kr. hærra. Munurinn er ekki meiri en svo. Í reynsluakstursútgáfunni er uppgefin meðal-eldsneytiseyðsla 5,7 á hundraðið og CO2 útblástur er uppgefinn 148 g pr. kílómetra. Miðað við hina opinberu meðaleyðslutölu má reikna með 6,5-7,5 l eyðslu á hundraðið í venjulegri notkun bílsins sem sannarlega er ekki mikið miðað við afl og afköst.

Staðalbúnaður bílsins er mjög vel útilátinn. Fyrir utan allan öryggisbúnað eins og skrikvörn, sex loftpúða, spólvörn og brekkuhaldara (kemur í veg fyrir að bíllinn renni afturábak þegar stöðvað er í brekku) má nefna akreinalesara og viðvörunarbúnað, veltivörn, sveifludempun á aftanívagni, dekkjaloftsskynjara, árekstursvara, hita í sætum og stýrishjóli. Staðalbúnaður hjá umboðinu er reyndar miklu meiri og fjölbreyttari en hér hefur verið talið upp en auk hans er margrkonar viðbótarbúnaður í boði. Um það má fræðast nánar á heimasíðu umboðsins www.isband.is. 

Jeep Compass

Helstu staðreyndir 

Lengd/breidd/hæð (mm)

4394/1819/1629 

Vél

Euro 6

Rúmtak: 1956 rúmsm

Afl: 170 hö/3750 sn.mín.

Uppgefin meðaleyðsla pr. 100 km: 5,7 lítrar

Viðbragð 0-100: 9,5 sek.

Hámarkshraði 196 km/klst.

Drifbúnaður

Níu hraða sjálfskipting

Active Drive 4x4 fjórhjóladrif.

Verð:

Ca. 5,5 millj. kr.