Audi Q7 e-tron 2016

Eftir að hafa lent í öðru sæti í flokki jeppa í vali á bíl ársins 2015 mætti Audi Q7 tvíefldur til leiks 2016 í tengil-tvinnútfærslunni e-tron. Dugði það til þess að konungur (lúxus)jeppanna 2016 er Audi Q7 e-tron. Bíllinn er knúinn áfram af þriggja lítra V6 dísilvél og rafmótor sem skila samanlagt gjörsamlega mögnuðum 373 hestöflum og 700 Newton metrum! Þessi 2,5 tonna skriðdreki nýtir sér samspil fótfestu quatttro fjórhjóladrifsins, viðstöðulauss vægis rafmótora og sprækrar dísilvélarinnar til fleygja sér af stað úr kyrrstöðu í 100 km/klst á aðeins 6,2 sekúndum. 8 gíra Tip-Tronic gírkassinn sér um línulega og þétta hröðun og hik milli skiptinga er hverfandi. Þetta er einkar skemmtileg lausn hjá Audi á meðan tengil-tvinn-keppinautar á borð við BMW X5 PHEV og Volvo XC90 T8 PHEV notast báðir við tveggja lítra, fjögurra strokka bensínvélar og Mercedes Benz GLE500e PHEV þriggja lítra V6 bensínvél. „Jeppafílingurinn“ og vinnslan er meira viðeigandi í þessari gerð lúxusjeppa þegar stóra dísilvélin fær að koma með. Á meðan Volvo XC90 marði sigur á Audi Q7 með dísilvélarnar einar undir húddinu í valinu í fyrra (og hlaut einmitt titilinn Bíll ársins) þá tók Audi leikinn upp á annað plan með sinni tengil-tvinntækni í ár.Uppgefin drægni á rafmagninu einu og sér er um 56 km, sem er heldur meiri en hjá keppinautunum. Raunhæf drægni á Íslandi er um 30 – 50 km, með tilliti til veðurs og hitastigs, og ætti því að duga hinum meðal Íslendingi til daglegra erindagjörða innanbæjar. Með uppgefnar eyðslutölur dísils upp á heldur fáránlega 1,9 lítra á hverja ekna 100 kílómetra er uppgefin heildardrægni á rafmagni og dísil samanlagt rúmir 1.400 kílómetrar. Rauneyðslan reyndist þó allt önnur, eða um 5-7 lítrar á hundraðið  í blönduðum akstri. Þó langt frá opinberum tölum eru þetta samt viðunandi tölur fyrir svo þungan bíl.Búast má við að á venjulegu 10 A heimilisrafmagni taki allt upp í 8 klst. að hlaða rafhlöðurnar til fulls, en sú tala lækkar vitaskuld með stærra öryggi og hvers kyns hraðhleðslustöð sem bíllinn er tengdur í.

Bíllinn er mjög sportlegur í akstri þrátt fyrir sína gígantísku vigt, en loftpúðafjöðrunin stendur sína plikt og heldur bílnum stinnum og stöðugum í hvers kyns áreynslu. Með loftpúðafjöðrun koma líka ýmsir möguleikar fyrir mismunandi aksturslag í ljós. Hægt er að blása upp púðana og lyfta bílnum þannig að takast megi á við torfærur sem lúxusjeppar sem þessir munu sjaldan sjá. Á hinn bóginn má svo gott sem tæma loftið úr púðunum í „Dynamic“-stillingu. Bíllinn sígur niður í malbikið og lítur þá helst út eins og ofvaxinn skutbíll. Aflið er skrúfað upp í topp og stýrið stífnar. Þyngdarpunkturinn lækkar talsvert og fer e-troninn þá fimlega um hlykkjótta vegi án viðbætts vaggs og veltu. Sökum þess hve ógurlega hljóðeinangraður bíllinn er gerir hraðablinda þó fljótt vart við sig. Þar á milli eru „Normal“ og „Comfort“ stillingar fyrir fjöðrun, stýri og inngjöf. Þá má einnig velja hvernig gengið er á aflrásina: akstur á rafmagni einu og sér, blöndu af rafmagni og dísil eða einungis á dísil og batterýin þannig hlaðin með aukinni „regenerative“-hemlun (hreyfiorkan vistuð í rafhlöðum í stað þess að sóa henni í hita í bremsudiskum).

Eins og við er að búast er bíllinn hlaðinn búnaði og auðvelt er að eyða helmingi af grunnverði bílsins í aukahluti líkt og stærra hljóðfkerfi, stærri felgur, fínna lakk, fínna leður og rafdrifið og sjálfvirkt hitt og þetta. Mælist undirritaður til þess að lesandi finni allar upplýsingar um staðal- og aukabúnað á heimasíðu Audi þar sem ekki er pláss fyrir allan þann búnað í einni grein. Þó ber helst að nefna „Audi virtual cockpit“, sem er í raun sama stafræna mælaborð og er t.d. að finna í hinum nýja Volkswagen Tiguan. 12,3“ skjár með Íslandskorti og ýmsum öðrum upplýsingum er að finna í mælaborðinu fyrir aftan stýrið. Þó vissulega glæsileg nýjung, er upplýsingaflæðið helst til of mikið og jafnvel truflandi fyrir meðalökumann. Það venst vissulega með tímanum og verður ef til vill ómissandi eftir að hafa átt bílinn í nokkurn tíma.

Öll fimm sæti bílsins eru þægileg og veita góðan stuðning. Nóg pláss er fyrir fimm fullorðna og aftursætin þrjú á sleðum sem færa má fram og aftur og halla aftur á bak. Helsti munur milli tengil-tvinnbílsins og „venjulega“ dísilbílsins að innanverðu er sá að ekki er hægt að bæta þriðju sætaröð við tengil-tvinnbílinn þar sem rafhlöður eru í gólfinu á farangursrýminu, ólíkt t.a.m. Volvo XC90 T8 sem heldur sínum sjö-sæta möguleika.

Á heildina litið er Audi Q7 e-tron frábær lúxusjeppi og gerði allt sem búist var við af honum og rúmlega það. Meðan vörugjöld eru raf- og tvinnbílum enn í vil á Íslandi er verðið einnig hagstætt þegar tekið er mið af afli, tækni og búnaði. Sést það best á þeirri staðreynd að þegar greinin er skrifuð höfðu um 30 bílar verið pantaðir hjá Heklu óséðir á meðan aðeins eitt eintak var til á landinu.

Helstu upplýsingar – Audi Q7 e-tron Quattro:

Verð: Frá 11.390.000 kr

Afköst aflrásar (samalagt): 373 hestöfl / 700 Nm

Eldsneytisnotkun: 1,9 l/100 km (uppgefin) / 5,5 l/100 km (rauneyðsla)

Losun CO2: 48 g/km

 

Kostir:

  • Afl og viðbragð
  • Drægni á rafmagni
  • Fagurfræði og þægindi innrabyrðis

Ókostir:

  • Skortur á þriðju sætaröð
  • Lítil hraðatilfinning
  • Yfirflæði upplýsinga í mælaborði

Róbert Már Runólfsson