Chevrolet Volt 2012


FÍB-blaðið hefur fyrst allra fjölmiðla prófað tímamótabílinn Chevrolet Volt á Íslandi og er ekki laust við að bíllinn hafi vakið ánægju starfsmanna á blaðinu. Fyrir það fyrsta er hann gullfallegur á að líta og svo langan veg frá því kubbslega og oft spartanska útliti sem þjakar svo marga bíla af þessu tagi. Að innan er hann eins og nýr heimur með klárri skírskotun til tölvukynslóðar og fagurkera í efnisvali og frágangi. En það er fyrst og fremst tæknin í þessum bíl sem vekur áhuga enda er Volt, og systurbíll hans, Opel Ampera, einu bílarnir sem takast á með sannfærandi hætti við helsta annmarka rafbílanna sem er takmarkað ökudrægi.

Hreinræktaðir rafbílar eru oftast með drægi frá 60-100 km. Þeir reiða sig á hleðsluna í rafgeyminum einvörðungu og hún er yfirleitt fljót að klárast, og gerir það fyrr ef aksturinn fer fram í hæðóttu landslagi og köldu veðurfari. Volt er með lausnina á þessu því um borð í bílnum er auk tveggja rafmótora, og rafals sem einnig getur gegnt hlutverki rafmótors, 1,4 lítra bensínvél sem hefur þann eina tilgang að vera rafstöð fyrir bílinn. Bensíntankurinn tekur um 40 lítra og þegar rafgeymirinn er tómur fer bensínvélin í gang og framleiðir inn á hann rafmagn.

Laglega hannaður

Bílabúð Benna er sem kunnugt er, umboðsaðili Chevrolet á Íslandi. Fyrirtækið hefur fengið fyrsta Volt bílinn til landsins en hann verður eingöngu notaður til að kynna starfsmönnum fyrirtækisins tæknina í bílnum. Innan tíðar fær fyrirtækið svo fyrstu bílana til sölu en undirbúningur að markaðssetningunni hefur staðið yfir í langan tíma og hefur teymi starfsmanna verið á námskeiðum ytra til að standa sem best að þjónustunni þegar hún hefst. Fram að því verður Volt því geymdur á vísum stað í höfuðstöðvum Bílabúðar Benna, en FÍB-blaðinu gafst tækifæri til að prófa hann á dögunum í dæmigerðum íslenskum útsynningi.

Fyrstu hughrifin eru einmitt þessi: Volt er laglega hannaður bíll að utan með sportlegar tilvísanir með stóru vindskeiðinni að aftan, stórum xenon framljósum sem teygja sig langt aftur á brettin, hárri hliðarlínu með fremur lágum hliðargluggum, hágljáandi skreytilistum á hliðum og þaki með lituðu gleri. 

Að innan er Volt ævintýri líkastur. Sætin í prófunarbílnum klædd svörtu leðri með ljósum skrautsaumum og miðjustokkurinn úr hágljáandi hvítu efni eins og stór hluti hurðaspjaldanna og hluti af mælaborðinu. Þegar sest er inn í Volt verður manni því fyrst hugsað til hvítrar iPad tölvu eða altént eitthvað í líkingu við Apple hönnun. Frískleikinn svífur yfir vötnunum og notagildið líka. Í miðjustokknum eru stýringar fyrir margmiðlunarkerfið, miðstöð og loftfrískun en líka þann akstursham sem ökumaður vill velja. Þetta er ekkert venjulegt stjórnborð því aðgerðarhnapparnir eru með snertistýringu - það nægir rétt að strjúka fingurgóm á rofana. Fyrir ofan miðjustokkinn er 7 tommu snertiskjár þar sem fást upplýsingar meðal annars um orkustýrikerfi bílsins eða aðrar þær upplýsingar sem sóst er eftir, svo sem í tengslum við margmiðlunar- og upplýsingakerfið eða aksturstölvu bílsins. Bíllinn kemur með voldugu Bose hljómkerfi. Nútímalegt, þægilegt og umfram allt mjög flott innanrými.

Sætin eru sportlega hönnuð. Ökumannssætið reyndar fullstíft en það umlykur líkamann og er með fínan hliðarstuðning. Volt er skráður fjögurra manna bíll og þess vegna eru tvö sjálfstæð sæti í afturrýminu. Eftir bílnum innanverðum miðjum gengur langur stokkur en það er ekki drifstokkurinn heldur sjálft hjartað í bílnum - rafgeymirinn stóri. Það er kannski einn af ókostum Volt að vera einungis fjögurra manna reið en þegar rifjaðar eru upp daglegar ferðir til og frá vinnustað að morgni dags og kvöldlagi þá minnist ég þess ekki að hafa flutt fjóra farþega með mér á þeirri leið áratugum saman. Það kom á óvart hve farangursrýmið er mikið. Að sönnu er ekki varadekk undir farangursgólfinu, frekar en í flestum nýjum bílum, heldur viðgerðarsett og þar er líka almenni rafgeymirinn sem sér bílnum fyrir öllum venjulegum straumi fyrir ljósabúnað og önnur tæki.

Ökudrægi sem dugar

Og það er kannski kjarninn í Volt - borgarbíll í daglega snattið til og frá vinnu, en með möguleika á langferðum út á land án þess að verða strand. Líklega hentar hann betur íslenskum aðstæðum en bandarískum, þar sem hann hefur satt best að segja ekki selst í því magni sem Chevrolet áætlaði í upphafi. En hann hefur sennilega gert betur með því að bæta ímynd fyrirtækisins í sviði tækni og hönnunar. Í flestum löndum eru ferðir á milli staða allnokkru lengri í „daglegu snatti“ en hér á landi og ekki óalgengt að menn „kommúti“ til vinnu í eina eða jafnvel tvær klukkustundir og annað eins úr vinnu. Það segir sig sjálft að hagkvæmnin minnkar við þetta en samkvæmt opinberum tölum á Íslandi er meðaltalsaksturslengd í Reykjavík innan við 40 km á dag.  Drægi Volt dugar því vel til og það tekur ekki nema um fjórar klukkustundir að hlaða hann, ef marka má upplýsingar frá framleiðanda, og það með venjulegu heimilisrafmagni. 

Stóri munurinn á Chevrolet Volt og hreinræktuðum rafbílum annars vegar og hefðbundnum tvinnbílum hins vegar er sá að Volt er með fyrirbæri sem á ensku kallast „range extender“, sem í þýðingu gæti útlagst sem ökudrægisauki. En þetta er náttúrulega bara litla bensínvélin, fjögurra strokka, 1,4 lítra, sem er ættuð úr litla Chevrolet Aveo. Hún heldur sig yfirleitt til hlés og er hógvær með eindæmum. En hún eykur ökudrægið upp í heila samtals 600 km á fullri rafhleðslu og fullum bensíntanki, (fylling á 40 lítra tank kostar 10.320 miðað við lítraverð á 258 kr.). Það er ekki fyrr en rafhleðslan á stóra rafgeyminum er farin sem kemur til hennar kasta - nema menn sýni fyrirhyggju og hlaða hann áður. Það geta þeir nefnilega gert með einni af fjórum mismunandi akstursstillinga sem valdar eru með snertirofa í miðjustokknum. Normal er stillingin sem yfirleitt er notuð í öllum venjulegum akstri en Sport stilling býður upp á snarpari og kraftmeiri akstursstíl. Talsverður munur er þarna á og í síðarnefndu stillingunni er bíllinn furðu frísklegur og hið gríðarmikla tog vélarinnar nýtir sín til fulls. Mountain stilling er notuð þegar ekið er um bratta slóða og Hold stillingin er sérstaklega hönnuð fyrir akstursaðstæður í Evrópu. Með henni er hægt að aka eingöngu fyrir þeirri orku sem bensínvélin og rafall bílsins framleiða. Fyrir vikið viðhelst hleðsla rafgeymisins. Ökumaðurinn getur þess vegna ákveðið hvenær og hvar hann nýtir sér þann kost að aka bílnum fullkomlega mengunarlausum, eins og t.d. inni í þéttum íbúðarhverfum eða í þéttri umferð borgarinnar.

Volt er með hemlakerfi með orkuheimt. Þessi búnaður gerir bílnum kleift að endurheimta orku sem tapast annars við hemlun, hleður henni inn á rafgeyminn og eykur þar með hleðslutíma hans og þar með ökudrægi bílsins.

Kerfið í Volt minnir um margt á tvinnbíla eins og við þekkjum þá en hann hefur þann kost umfram að vera ávallt rafknúinn með tilheyrandi umhverfismildi og peningasparnaði. Hinn kosturinn er sá að hann er í akstri eins og venjulegur bensín- eða fremur dísilknúinn bíll með miklu togi og snerpu til að taka fram úr hægari umferð. Hann líður ekki mikið fyrir þyngdina og tekur beygjur af miklu öryggi og án áberandi yfirstýringar. Það er bara gaman að keyra að keyra Volt.

Systurbíllinn Ampera kostar 7.890.000 krónur en ekki er komið verð enn á Volt. Í Evrópu hefur hann verið boðinn á lægra verði en Ampera.

 

Í HNOTSKURN

Chevrolet Volt

Lengd/breidd/hæð í mm: 4498/1787/1439.

Rafgeymasamstæða: 16 kW liþíum-jóna, vökvakæld, endurhlaðanleg frá heimilisinnstungu og/eða innbyggðri bensínrafstöð.

Bensíngeymir: 35 l.

Aflvél: Rafmótor 150 hö/5000 sn. mín.

Vinnsla 370 Nm/-frá 1 sn. mín.

Hámarkshraði: 160 km. klst.

Viðbragð 0-100: 9 sek.

Orkuneysla (fyrstu 100 km reynsluaksturs ADAC): 12,2 kWst og 1,4 l af bensíni.

Bensíneyðsla (rafgeymar orðnir tómir): 5,5 l pr 100 km

CO2 útbl: 27 g pr. Km. (með tóma rafgeyma 102 g pr. km.)

Farangursrými: 270/595 l.

Ökudrægi á rafgeymi: 40-80 km, háð vegyfirborði, hitastigi og aksturslagi.

Heildardrægi (fullir rafgeymar og bensíngeymir) ca 710 km

 

+ Tæknileg fullkomnun

- Hátt kaupverð