Nissan Navara 2016
Það var á árinu 2016 sem í fyrsta sinn var sérstakur flokkur fyrir pallbíla í vali á bíl ársins. Þörfin fyrir flokkinn þótti næg þar sem bæði væri ósanngjarnt að bera saman pallbílana, sem í grunninn eru sterkbyggðir og grófir, við lúxusdrekana í jeppaflokknum og einnig vegna þess að þrír nýjir og mikilvægir pallbílar voru komnir til landsins. Þeir eru Toyota Hilux og Mitsubishi L200 og sigurvegarinn í ár; Nissan Navara.
Þessi þriðja kynslóð Navara er algjör hástökkvari þegar kemur að framförum og fágun fyrir bíl sem er almennt álitinn vinnutæki. Prufubíllinn kom í fallegum appelsínugul-brúnum lit með stóra krómgrind á pallinum og tveimur ljóskösturum. Þá var skóbúnaðurinn uppfærður úr 31“ upp í 32“ dekk á 18“ álfelgum. Helsti sölupunktur Navara í dag er að samhliða erfiðisvinnunni sem hann á að geta tekist á við er hann þægilegur, siðmenntaður og innréttaður eins og fólksbíll. 7“ snertiskjár með Nissan Connect kerfið sem við þekkjum úr Qashqai og X-Trail var til staðar með Íslandskorti, bakkmyndavél, akstursupplýsingum og fleira. 5“ skjár var svo í mælaborði með ýmsar upplýsingar, svo sem eyðslutölur, drægni og áttavita. Ennfremur kom bíllinn útbúinn tvískiptri loftkælingu, lyklalausu aðgengi og skriðstilli. Þegar hér er komið sögu gefur auga leið að ný kynslóð Navara er ekki einungis iðnaðartæki, heldur einnig eigulegur fjölskyldubíll. Það sem toppar hins vegar alla framangreinda hluti er ný afturfjöðrun bílsins. Í stað blaðfjaðra (e. Leaf springs) sem sáust fyrst á hestakerrum fyrir hundruðum ára skartar bíllinn nú glænýrri „multilink“ fjöðrun með fimm-arma spyrnum auk gorma. Hvers vegna er þetta svo mikilvægt? Þegar pallbíll á blaðfjöðrum með tóman pall ekur yfir ójöfnur á borð við hraðahindranir gefa fjaðrirnar lítið eftir og bíllinn verður hastur. Ekki fyrr en sæmilegt hlass er komið á pallinn byrja þær raunverulega að fjaðra með tilætluðum hætti og vill maður því oftast vera með pallinn hlaðinn sem hefur að sjálfsögðu með sér í för aukið slit og eldsneytiseyðslu. Nýja fimm-arma fjöðrunin tryggir mjúka og örugga dempun óháð hversu mikið/lítið bíllinn er hlaðinn. Burðargeta bílsins er 1.062 kg og uppgefin dráttargeta 3.500 kg, þ.e. mesta leyfilega þyngd fyrir bíl af þessu tagi (örugglega heldur meiri láti menn reyna á það).
Bílnum var reynsluekið um Verslunarmannahelgina 2016 þar sem ferðinni var heitið á mýrarboltann á Ísafirði. Ferðalangarnir voru þrír talsins. Öllum ferðatöskum og öðrum farangri var komið fyrir í lokuðum plastpokum til að verjast veðri og ryki og allt klabbið bundið niður á opinn pallinn með hjálp færanlegra festinga á rennum á pallinum. Þó hefðu mátt vera festingar á botninum. Ekið var beint til Ísafjarðar frá Reykjavík á föstudegi og þaðan ferðast um Vestfirðina næstu daga. Skemmst er frá því að segja að vel fór um alla farþega, jafnvel í aftursætinu þrátt fyrir að eins og í flestum pallbílum séu þau helst til bein. Til að gera aftursætin ívið skárri hefði auðveldlega mátt bæta við armpúða í miðjusætið og glasahaldara eða tveimur. Bíllinn var merkilega hljóðlátur en lét hins vegar vel í sér heyra við mikla inngjöf þegar forþjappa og millikælir sungu sinn söng. Reyndar tók hann á sig talsverðan vind með opinn pallinn og lóðrétta kastarana á þakinu, sem mætti auðveldlega laga með loki á pallinum. Sökum þessa og þar sem stærri dekk voru undir bílnum en ella reyndist meðaleyðsla bílsins, sem fór að mestu fram á þjóðvegum, rúmir 10 lítrar á hundraðið. Nýja fjöðrunin stóð sig með miklum sóma, var mjúk og fyrirgefandi og naut sín vel á bungum og ójöfnum Vestfjarðarvega. Það er þó ekki að segja að hann hafi ekið alveg eins og skutbíll eða jepplingur, en enginn pallbíll (sem ég hef a.m.k. ekið) hefur komist jafn nærri því. Leiðsögukerfið virkaði að mestu leyti vel en átti þó erfitt með að reikna út hversu langan tíma tæki að aka vissar vegalengdir þótt auðvelt væri að finna áfangastað. Þá reyndist þrjóska kerfisins oft mikil og vildi, þegar stefnan var sett heim til Reykjavíkur, umfram allt senda okkur beinustu leið í ferjuna Baldur í Brjánslæk og sigla yfir á Stykkishólm. Með talsverðu umróti tókst okkur þó að velja landleiðina og komumst blessunarlega heil heim.
Það eina sem mér þótti vanta í þetta Verslunarmannahelgarævintýri voru raunverulegar torfærur þar sem reyndi almennilega á driflæsingar og 223 mm veghæðina. Það gerðist ekki fyrr en úrslitabílarnir í pallbílaflokknum voru teknir til kostanna á „Þúsundvatnaleið“ á Hellisheiði en eftir sem áður fór Navara létt með það. Nóg er að láta meðfylgjandi myndir tala sínu máli. Hafi einhver verið ákveðinn í að kaupa sér Toyota Hilux eða Mitsubishi L200 eru þeir vinsamlegast beðnir um að bera saman tölulega eiginleika þeirra og prófa svo Nissan Navara. Það er svona sem pallbílar eiga að vera.
Helstu upplýsingar – Nissan Navara Acenta+ 4WD CVT:
Verð: 7.090.000 kr. (Grunnverð fyrir Visia 4WD: 5.690.000 kr)
Afköst vélar: 190 hestöfl / 450 Nm
Eldsneytisnotkun: 7 l/100 km (uppgefin) / 10,3 l/100 km (rauneyðsla)
Losun CO2: 183 g/km
Kostir:
- Afturfjöðrun!
- Gæðatilfinning
- Færni í torfærum
- Aðgengilegur og ríkulega búinn sem fjölskyldubíll
Ókostir:
- Festimöguleikar á palli
- Óspennandi aðstaða í aftursætum
Róbert Már Runólfsson