Citroën ë-C4

Alltaf hefur verið ákveðinn sjarmi yfir eldri Citroën–bifreiðum og eiga þær enn dyggan áhangenda hóp hér á landi. Eldri ökumenn eiga flestir einhverjar minningar tengdum 2CV eða Bragganum eins og hann var nefndur þar sem einfaldleikinn var að hávegum hafður. Um miðja síðustu öld kom framleiðandinn með hinn fræga DS sem var útbúinn stillanlegri vökvafjöðrun og öðlaðist Citroën þá viðurkenningu fyrir lúxus og þægindi.

 

Citroen e-C4 Front

 

 

Undanfarin ár hefur farið lítið fyrir merkinu hér á landi en nú gæti farið að birta til þar sem aukinn áhugi á rafbílum kallar á hljóðlátari og mýkri akstur. Í febrúar sl. komu fyrstu Citroën e-C4 rafmgansbílarnir í sölu hjá Brimborg. Töluverð umfjöllun hafði verið um bílinn á erlendum miðlum þar sem hæfilega djörf hönnun og þægindi virtust heilla.

Eins og aðrir rafbílar sem eru koma frá PSA (nú Stellantis) eru þeir allir byggðir á sama CMP (e. Common Modular Platform) grunni sem nýtist jafnt við smíði á raf- og eldsneytisbílum. Þetta þýðir að hjólhaf, rafhlöðustærð og mótor í e-C4 er það sama og í Peugeot e-208 (sjá 1. tbl 2020) og e-2008, Opel Corsa-e og Mokka-e. Þá eru ýmis stjórntæki og stillingar þær sömu á milli tegunda. Því er það í höndum hönnuða hjá hverjum framleiðenda fyrir sig að koma sérkennum hvers merkis á framfæri í útliti, fjöðrun og stærð, svo að eitthvað sé nefnt.

Að innan,

Það kemur ekki á óvart hvaða stefnu hönnunarteymi Citroën tók en mikil áhersla var lögð á þægilega umgengni t.d. er bíllinn hærri en e-208 og því er hægt setjast beint inn í bílinn. Sætin eru breið og fást með auka bólstrun fyrir frekari þægindi. Innréttingin er ágætlega útfærð og var ökumaður fljótur að átta sig helstu stillingum sérstaklega þar sem bíllinn á svo margt sameiginlegt með Peugeot og Opel. Hins vegar er passað upp á að halda ákveðinni sérstöðu sem er velkomin eins og stór og áþreifanleg stýring fyrir miðstöðina.

 

Citroen e-C4 dash

 

 

Stýrið er stórt og létt í notkun. Segja mætti að allar stillingar eru til staðar en aðeins einfaldari, færri takkar og búið að fjarlægja óþarfa. Eina sem mætti setja út á er staðsetning á hnapp fyrir hljóðstyrk en hann er staddur hægra megin við skjáinn, eins langt og mögulegt er frá ökumanni sem þýðir að notast þarf við hnappa í stýri. Þráðlaus hleðsla er í litlu hólfi undir skjánum og USB–tenglar fyrir hleðslu eða virkjun á Android Auto eða Apple CarPlay. Það verður ekki komst hjá því að minnast á sérstakan spjaldtölvuhaldara sem er staðsettur fyrir ofan hanskahólfið. Notagildið er ekki alveg ljóst en þetta er einmitt einn af þeim þáttum sem aðgreinir Citroën frá fjöldanum. Að öðru leyti er innréttingin hófleg og auðveld í umgengni.

Citroen e-C4 boot

Ágætt pláss er fyrir farþega en yngri kynslóð gæti átt erfitt með að sjá út um hliðargluggann þar sem hann liggur fremur hátt. Staðlaðar stillingar eru á framsætum en einhver mætti ekki í vinnuna þegar ákvarðanir voru teknar varðandi stillingar á sætisbakinu því að nær ómögulegt var að koma höndinni á milli sætis og innréttingar til að snúa ávölum stillitakkanum. Ein leið til að leysa þetta væru rafdrifnar sætisstillingar en því miður er ekki boðið upp á þær í neinni útgáfu. Þessi galli kemur mögulega til vegna aukins umfangs á framsætum hjá Citroën sem er ekki jafn mikið hjá öðrum framleiðendum.

Skottpláss er þokkalegt eða 380 lítrar. Falskur botn (ekki í grunnútgáfu) auðveldar hleðslu og gefur pláss fyrir hleðslukapla og annað smálegt sem væri annars á ferð um allt skott.

Að utan

Citroën–menn samkvæmir sjálfum sér og fara eigin leiðir í hönnun. Í tímans rás hefur mönnum gengið misvel að koma með djarfa hönnun sem er um leið aðlaðandi en hér hefur tekist ágætlega til. Allar útgáfur koma á 18“ álfelgum eða stærri og kemur það vel út í bland við aukna veghæð en yfirbyggingin er þó með útlit fólksbíls en ekki jepplings. Þakið er lágt og líður aftur yfir skott sem endar á svörtum vinkljúf þar sem skörp skil myndast niður á afturenda bílsins. Undir honum er lítil rúða til að bæta upp fyrir skert sjónsvið á rúðunni í afturhlera. Þessi litla rúða er í raun meginrúðan að aftan og er það undirstrikað af hönnuðum sem ákváðu að sleppa afturrúðuþurrkum.

 

 Citroen e-C4 Back

 

Að framan heldur Citroën einkennandi útliti krómboga sem myndar „X“ og eru aðalljós í sjálfstæðum klasa að neðan en dagljós að ofan. Það er ánægjulegt að sjá svo öflug díóðuljós eru komin í nær alla bíla í dag, óháð útgáfu, því að um mikið öryggis– og þægindaatriði er um að ræða. Neðst í framstuðara eru þokuljós umkringd bláum ramma til að draga fram þá staðreynd að hér sé rafbíll á ferð. Hjólbogar, neðrihluti stuðara og hliða eru klæddir með svörtu plasti sem dregur fram hæðina á bílnum.

Akstur 

Citroen e-C4 lightE-c4 er búinn tvívirkum vökvafylltum dempurum sem Citroën segir vera einstaka og aðeins í boði í bifreiðum fyrirtækisins. Það skal þó varast að rugla saman margrómuðu stillanlega vökvafjöðrunarkerfinu sem Citroën var best þekkt fyrir. Því miður virðast markaðsmenn vísvitandi nota orðið „vökva“ eða „hydraulic“ þegar rætt er um viðkomandi dempara. Óháð því er fjöðrunin vissulega góð og hljóðlát, fyrir suma ökumenn gæti hún verið ívið mjúk og við þjóðvegaakstur getur bílinn gefið fljótandi tilfinningu. Ekki gafst tími til að prófa bílinn með farangur og farþega en áhugavert væri að sjá hvernig fjöðrunin hegðar sér undir hleðslu. Þess ber að geta að eigin þyngd rafmagnsbílsins eru 1541 kg og heildarþyngd er 2000.

Aflið er mátulegt eða 136 hestöfl sem eru knúin áfram af 50 kWst. rafhlöðu og er uppgefið drægi á bílnum 350 km við bestu aðstæður. Eins og fyrr segir er drifrásin sú saman og í Opel og Peugeot og skilar hún afli eins frá sér að því leyti. Hægt er að velja um Normal–, Eco– og Sport–stillingu eftir aksturslagi en snerpan er góð upp að 50-60 km/h en þá virðist allur sprengikraftur búinn. Gott hefði verið að finna fyrir aukinni snerpu til dæmis þegar verið er að ná upp umferðarhraða á aðreinum og í framúrakstri.

 

Niðurstaða

Á heildina litið er Citreon e-c4 ágætis kaup á ört stækkandi rafbílamarkaði. Rífleg 7 ára ábyrgð vegur einnig þungt fyrir áhyggjulausan rekstur. Rafhlaðan er mátulega stór fyrir innanbæjarnotkun og ferðalög. Útlitið er mögulega ekki allra en það heillaði undirritaðan og vann aðeins á ef eitthvað var. Bíllinn kemur einstaklega vel útbúinn allt frá grunnútgáfu sem er með LED–aðalljós, varmadælu og 18“ álfelgur svo að eitthvað sé nefnt. Þessi bíll er fyrst og fremst þægilegur og hljóðlátur. Fyrir þá sem vilja sportlegri og kvikari bíl gæti Peugeot e-208 og 2008 einnig komið til greina. Þá er e-Corsa með íhaldssamara útlit einnig spennandi valkostur á svipuðu verði.

Björn Kristjánsson, maí 2021

Kostir: Staðalbúnaður, verð, ábyrgð
Ókostir: Stilling sæta, útsýni

Grunnverð: 4.090.000 kr.
Hestöfl: 136
Rafhlaða: 50 kWst.
Drægni WLTP: 350 km
Dráttargeta: Tengibúnaður óheimill
Tog: 260 Nm
0–100 km/klst: 9,7 sekúndur
L/B/H: 4.360/2.032/1.520 mm
Veghæð: 156 mm
Farangursrými: 380 lítrar
Eigin þyngd: 1541 kg.