Reynsluakstur og samanburður Volvo XC60 og Volvo XC40

Mikill uppgangur hefur verið hjá sænska bílaframleiðandanum Volvo undanfarin misseri líkt og fram kom í grein um framtíð umferðaröryggis og sjálfakandi bíla í síðasta FÍB-blaði. Þá kom einnig fram að Volvo hefði nýverið hlotið tvenn eftirsótt verðlaun fyrir nýjustu lúxusjepplinga þeirra, XC60 og XC40. Verðlaunin voru „Heimsbíll ársins 2018“ annars vegar og „Bíll ársins í Evrópu 2018“ hins vegar. Þar sem undirritaður er þessa stundina búsettur í Gautaborg, heimaborg Volvo, var ákveðið að hafa samband við höfuðstöðvarnar og fá þessa margumræddu bíla til reynsluaksturs. Reynsluakstur hvors bíls spannaði eina viku.

Volvo XC40

Talsverður munur leynist milli þeirra fyrir utan hinn augljósa stærðarmun Þrátt fyrir að bílarnir tveir kunni að virðast svipaðir í fyrstu. XC60 er smíðaður í Gautaborg á hinum fjölhæfa SPA-undirvagni (e. Scalable Product Architecture) sem kom fyrst fram í stærri XC90 jeppanum árið 2014 og hefur hann notið gífurlegra vinsælda á Íslandi. Að auki er SPA-undirvagninn að finna í S90, V90 og hinum glænýju S60 og V60. Farin var heldur önnur leið í þróun XC40, sem smíðaður er í Gent í Belgíu. CMA-undirvagninn (e. Compact Modular Architeture) var hannaður í samvinnu við CEVT (e. China Euro Vehicle Technology) sem er í eigu kínverska fyrirækisins Geely, líkt og Volvo. Höfuðstöðvar CEVT er einnig að finna í Gautaborg, aðeins steinsnar frá verksmiðjum Volvo, og eru bílar þeirra seldir undir nafninu Lynk & Co og verður aðaláhersla þeirra á kínverskan markað. SPA- og CMA-undirvagnarnir eiga það sameiginlegt að vera stækkanlegir og geta auðveldlega hýst tvinn- og hreina rafdrifna drifrás. Stýris- og fjöðrunarbúnaður bílanna eru þó ekki eins. Að framan má finna tvöfaldar klofspyrnur í XC60 (SPA) en MacPherson fjöðrun, þ.e. einfaldar klofspyrnur, í XC40 (CMA). Kostir þeirra fyrrgreindu eru m.a. lægri veltimiðja og stöðugri hjólhalli (e. Camber) í beygjum og skilar það betra gripi og dýnamískari og fágaðri aksturseiginleikum. MacPherson-fjöðrunin er hins vegar umfangsminni og auðveldar það nýtingu á rými og pökkun í vélarrúmi. Að aftan má finna blaðfjöður sem liggur þversum ásamt hefðbundnum höggdeyfum í XC60 og fjölarma gorma- og höggdeyfafjöðrun í XC40. Með stakri blaðfjöður að aftan í SPA-undirvagninum er hægt að lækka gólfið og eins má auðveldlega skipta um misþykkar fjaðrir eftir því hvort eigi í hlut XC60 með staka bensínvél eða þunglamalegur XC90 í tengil-tvinnútfærslu. Hönnunar- og þróunarkostnaður hefðbundnari gormafjöðrunar CMA-undirvagnsins er hins vegar lægri og því hentugri fyrir minni og ódýrari bíla.

Volvo XC60

Ólíkir en samt ekki

Að svo sögðu eru jepplingarnir tveir báðir Volvo og er enginn vafi þar á. Innréttingarnar eru keimlíkar en þó með mismunandi áherslum. Með innréttingunni í XC60 er aðaláherslan lögð á þægindi og lúxus. Stílhreint yfirbragð einkennir innréttinguna og efnisnotkun er til fyrirmyndar. Reynsluakstursbíllinn var í sportlegri R-Design útfærslu með öllum aukahlutum, svörtu leðri og mælaborðslistum úr áli. Til samanburðar er áherslan í XC40 svo gott sem öll á hámarks notagildi. Algjörrar endurhugsunar var krafist í hönnunarferli innanrýmis XC40 og þarfir nútímanotandans hafður í fyrirrúmi. Hátalarar voru t.a.m. fjarlægðir innan úr hurðum og komið fyrir í mælaborði bílsins, án þess að tapa tilfinnanlega hljómgæðum, svo að hurðarvasarnir gætu rúmað hefðbundna fartölvu. Þráðlaus snjallsímahleðsla, sérútbúnar kortaraufir og fjarlægjanleg ruslatunna í miðjustokk bílsins kóróna svo praktíska eiginleika innréttingarinnar og minnir um margt á litlar, en samt svo mikilvægar snilldarlausnir Skoda (e. Simply Clever). Meira bar þá á áferðarhörðum, ódýrari plastefnum í farþegarýminu samanborið við XC60.

VO Volvo XC60

Báðir bílar voru útbúnir Sensus-afþreyingarkerfinu, sem stýra má í gegnum 9 tommu lóðréttan snertiskjá. Kerfið hefur verið marglofað síðan það leit fyrst dagsins ljós í XC90 fyrir notendaviðmót og eiginleika en þegar þróunin á markaðnum er eins hröð og hún er í dag koma óneitanlega upp lýjandi annmarkar. Helst má nefna, eins og undirritaður hefur áður ritað um, skort á eiginlegum tökkum og/eða skrunhjólum sem stýra miðstöð bílsins. Alltaf þarf að taka augun af veginum og opna sérstaka valmynd til að breyta hitastigi eða krafti blásturs. Aki maður samtímis yfir ójöfnu er hætt við að velja ranga stillingu. Þá voru innbyggð snjallforrit (t.d. Spotify og Wikipedia) svifasein og frystu afþreyingarkerfið með öllu í fáeinar mínútur eitt sinn. Leiðsögukerfið er fagurt, litríkt og inniheldur þrívíddarmyndir af ýmsum kennileitum en vill af og til velja óþarflega flóknar leiðir og mótmælir með dágóðu hiki, kjósi maður að gegna ekki leiðbeiningum þess. Stafrænt mælaborð beggja bíla veitti aðalkerfinu gott mótvægi og reyndist skilvirkt, stílhreint og birti þær upplýsingar sem óskað var eftir.

Volvo XC40 Volvo XC40

Rými fyrir farþega reyndist hið ágætasta. Fimm fullvaxnir einstaklingar komust þar fyrir án teljandi vandkvæða og farangursrými sem rúma 479 lítra annars vegar (XC40) og 505 lítra hins vegar (XC60), sé mælt frá gólfi upp að gluggalínu, eru velviðunandi. Umrædd gluggalína reyndist þó til trafala í afturstætum XC40, sökum hversu há hún er og hið knappa stökk sem hún tekur upp á D-póst bílsins. Þetta orsakar stærri blindpunkt fyrir ökumann og skert útsýni fyrir lágvaxna aftursætisfarþega.

Volvo XC60

Akstur og öryggi

Ólíkir undirvagnar skila sér í frábrugðnum aksturseiginleikum, þó að munurinn sé ekki ýkja mikill. XC60, sem eins og áður segir hefur þægindi og afslöppun að leiðarljósi, er fisléttur í stýri og loftpúðafjöðrunin talsvert dempuð. Það tryggir auðveldan innanbæjarakstur og þéttan og öruggan þjóðvegaakstur. Hægt er að stilla stífni stýris og fjöðrunar til að aðlagast mismunandi aksturslagi og enn fremur má hækka veghæð bílsins séu grófari sumarhúsavegir framundan. XC40 reyndist öllu líflegri í akstri, þá sérstaklega vegna þess hve lítil áhersla er lögð á „sportlega“ akstureiginleika. Það kann að hljóma eins og mótsögn í fyrstu en vegna þess hve háfættur og mjúkfjaðraður bíllinn er reyndist hægt að skemmta sér við aksturinn án þess að fara yfir löglegan hámarkshraða.

Volvo XC60 Volvo XC40

Öryggistilfinningin er ávallt til staðar þrátt fyrir þessa eiginleika og lítil hætta á stjórnleysi. Sé athyglinni beint að torfærueiginleikum XC40 og XC60 er ekki margt að frétta frekar en við má almennt búast af bílum eins og þessum. Opin mismunadrif að framan og aftan án tilheyrandi driflæsinga gera það að verkum að treysta verður á spólvörnina til að ná einhverju afli til hjólanna, hverfi gripið undan einu eða fleiri hjólum. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að torfærugeta þessarra jepplinga var sennilega meðal neðstu forgangsatriða í hönnunarferlinu.

Volvo XC40

XC60 reynsluakstursbíllinn kom útbúinn forþjappaðri fjögurra strokka D4 dísilvél, með hámarks afköst upp á 190 hestöfl og 440 Nm af togi um átta þrepa sjálfskiptingu. Til samanburðar var léttari XC40 bíllinn útbúinn öllu sprækari forþjappaðri fjögurra strokka T5 bensínvél sem skilaði 247 hestöflum og 350 Nm af togi um sömu skiptingu. Eftir að Volvo tilkynnti stefnu sína um að framleiða einungis þriggja- og fjögurra strokka sprengihreyfla tapaðist talsverður karakter úr vélarrúminu, sem áður hýsti fimm-, sex-, og átta strokka vélar, jafnvel þótt eldsneytiseyðsla og hámarksafköst nýju vélanna séu hin ágætustu.

Loks verður að nefna öryggismál sem hafa skapað Volvo hvað sterkastan orðstír. Báðir reynsluakstursbílar komu útbúnir öllum mögulegum virkum öryggisbúnaði sem Volvo býður upp á í dag. Þar má nefna radarstýrðan, aðlögunarhæfan hraðastilli með neyðarhemlunarbúnaði (sem viðheldur settri fjarlægð í næsta bíl að framan), Pilot Assist sjálfstýribúnað sem stýrir bílnum á vegum með vel merktar veglínur hvoru megin bílsins (sem virkar talsvert betur á nútímavegum Svíþjóðar en því sem kallast þjóðvegir á Íslandi), blindpunktsviðvörun, sjálfvirkum lagningarbúnaði með 360° myndavélakerfi og bakkviðvörun sem aðvarar ökumann sé hætta yfirvofandi þegar bakkað er. Megnið af þessum búnaði fæst sem aukabúnaður í ódýrari útfærslum en sem staðabúnaður í dýrari. Sé verið að fjárfesta í Volvo á annað borð er sennilega réttast að velja allan mögulegan öryggisbúnað með. Ekki skemmdi fyrir 1.100 Watta (!!!), 15 hátalara Bowers & Wilkins hljóðkerfið í XC60 reynsluakstursbílnum með sérstaka hljóðblöndunarstillingu sem endurskapar hljóðeiginleika tónleikahallar Gautaborgar.

Þegar allt kemur til alls eru XC60 og XC40 vel heppnaðir jepplingar, sniðnir að nútímanotanda og vel að titlum sínum komnir.

 

Volvo XC40 T5 momentum
 

Aflrás: 2,0 lítra fjöggurra strokka bensínvél með forþjöppu og 8 þrepa sjálfskipting
Afköst: 247 hestöfl / 350 nm
Eldsneytisnotkun (skv. framleiðanda): 7.1 l/100 km (blandaður akstur)
Eldsneytisnotkun (raunakstur): 8.8 l/100 km (blandaður akstur)
Losun CO2: 166 g/km

Kostir
Praktískar lausnir innanrýmis
Líflegir aksturseiginleikar
Virkur öryggisbúnaður
Rými fyrir farþega
Gallar
Torfærugeta
Útsýni um hliðarrúður að aftanverðu
 
Volvo XC60 D4 R-Design
 

Aflrás: 2,0 lítra fjöggurra strokka díselvél með forþjöppu og 8 þrepa sjálfskipting
Afköst: 190 hestöfl / 440 nm
Eldsneytisnotkun (skv. framleiðanda): 5.7 l/100 km (blandaður akstur)
Eldsneytisnotkun (raunakstur): 7.0 l/100 km (blandaður akstur)
Losun CO2: 149 g/km

Kostir
Útlit að utan sem innan
Efnisnotkun
Þægindi, stöðugleiki og hljóðlæti í akstri
Virkur öryggisbúnaður
Rými fyrir farþega
Gallar
Torfærugeta
Vinnsla og karakter aflrásar

 

Róbert Runólfsson