Toyota Aygo 2014

Nýja kynslóð Toyota Aygo stígur djörf skref með hönnuninni, en það fyrsta sem maður tekur eftir er flennistóra X-ið í andliti bílsins. Funky þemað heldur áfram inni í bílnum, en hlutar innréttingarinnar eru litaðir í sama lit og ytra byrði bílsins. Að mínu mati hittir þessi djarfa hönnun beint í mark - maður getur ekki annað en brosað í hvert skipti er maður sér þennan bíl!

Bíllinn er að sjálfsögðu agnarsmár og pláss í aftursætum eftir því. Lágt er til lofts og fótapláss af ansi skornum skammti. Að auki eru afturrúðurnar einungis hálf-opnanlegir hlerar og ekki hægt að skrúfa þær niður. Þó er rýmið fyrir ökumann og farþega framsætis hið ágætasta. Farangursrýmið er, eins og við mátti búast, mjög smátt, en þó heilum 29 lítrum rýmra en í gamla bílnum! Þetta gerir það að verkum að með aftursætin lögð niður stenst Aygoinn hið staðlaða trommupróf; bassatrommutaska af venjulegri stærð komst inn í skottið sem verður að teljast ágætt. Reynsluakstursbíllinn var af milli-útfærslu og ansi vel búinn. Stór snertiskjár, Bluetooth og bakkmyndavél eru dæmi um þann búnað sem var að finna í Aygoinum. Afþreyingarkerfið var tiltölulega skilvirkt og einfalt í notkun og lítið hægt að setja út á það.

Litli Aygoinn er ansi lipur í borgartraffíkinni, þökk sé smæð og léttu stýri. Einnig lét bíllinn vel af stjórn í keilusvigi á Kvartmílubrautinni og urrið í þriggja strokka vélinni var furðu ánægjulegt. Hins vegar verður aksturinn helst til hávær þegar farið er upp í þjóðvegahraða, enda bíllinn lítið hljóðeinangraður og heldur „dósalegur“ að því leyti. Þá reyndist eyðslan rúmir 5 lítrar á hundraðið.

Toyota Aygo er skemmtilegur borgarbíll og vel að sigrinum kominn í sínum flokki.

Helstu upplýsingar:

Verð: 1.960.000

Afl: 68 hestöfl

Eldsneytiseyðsla: 4,6 l/100 km (uppgefin) / 5,5 l/100 km (rauneyðsla)

Losun CO2: 95 g/km

 

Kostir:

Skemmtilegt útit

Lipurð

Magn búnaðar

Gallar:

Plássleysi í aftursætum

Afturrúður

Veg- og vindhljóð