Benz B-Class 2012


Stærri og betri B-Benz

Hin nýja B-lína Mercedes Benz sem fram kom undir lok síðasta árs er talsvert stærri og rúmbetri en fyrri kynslóðin sem jafnframt var sú fyrsta. Á vissan hátt er B-Benzinn svona sögulega séð, einskonar afleggjari minnsta Benzans, eða A-línunnar, en sá bíll er upprunalega Smart. A-línan er jafnframt fyrsti Benzinn sem er framhjóladrifinn og það er svo B-línan einnig. Þessir A og B Benzar eru að þessu leyti í nokkrum sérflokki innan tegundarinnar.

   FÍB hefur haft góð kynni af fyrstu kynslóð B-línunnar, en félagið hefur undanfarin ár haft afnot af slíkum bíl við EuroRAP vegrýni á Íslandi. Nú hefur hann verið endurnýjaður og við hlutverki hans hefur tekið nýr B-Benz en gerðarheiti hans er Mercedes B 180 Blue Efficiency. Vélin í honum er 1,6 l bensínvél með start-stopp búnaði (slekkur á sér á t.d. rauðu ljósi en fer sjálf í gang um leið og hann er settur í gír til að taka af stað). Bíllinn er sex gíra, handskiptur og mjög sparneytinn. Eyðslan í venjulegum blönduðum akstri er frá tæplega sex lítrum á hundraðið sem getur auðveldlega farið undir 5 lítra markið á langkeyrslu.

   Segja má að 180 gerðin sé eins konar staðalútgáfa hinnar nýju B-línu hjá Mercedes. Tegundarheitið 180 ruglar lítilsháttar gamla Benz áhugamenn í ríminu því að hingað til hafa tveir fyrstu tölustafirnir táknað rúmtak vélarinnar í bílnum. En bensínvélin í honum er bara ekki 1800 rúmsentimetrar að rúmtaki eins og ætla mætti af tölunni 180 heldur 1600, og tæplega þó.  En það breytir kannski ekki miklu því að hún er sparneytin en samt ágætlega öflug og kemur bílnum í hundraðið á 10,4 sekúndum.

   En aftur að bílnum sjálfum: Samanborið við eldri B-línuna þá er þessi nýja kynslóð nánast algerlega ný: Vélarnar eru nýjar, sjálf skel bílsins er ný, hjóla-, hemla- og drifbúnaður nýtt. Bíllinn lætur mjög vel að stjórn, fjöðrunin er fyrirtak og hljóðeinangrunin er ágæt og hemlarnir sérlega góðir. Hávaði inni í bílnum á 130 km hraða á þýskri hraðbraut mælist 69 desibel. Það þýðir að veg- og vindgnýr er ekki óþægilegur og ekki þarf að brýna raustina í samtali við fólkið í bílnum.

   B-Benz er hábyggður einrýmisbíll svipað og helstu keppinautarnir sem eru Opel Zafira, Citroen C4 Picasso, Ford C-Max, VW Touran, Mazda 5 o.fl. Sætin eru fremur há, sem gerir inn- og útstig létt og auðvelt. Undir stýri er útsýni fram á við ágætt, en síðra til hliðanna og aftur fyrir bílinn, eins og teikningin hér til hliðar sýnir. Öll stjórntæki og takkar sem ökumaður þarf að ná til er rétt og eðlilega staðsett þannig að maður er fljótur að venjast bílnum. En allur er bíllinn stærri og rúmbetri en eldri kynslóðin og innréttingar og sæti er allt vandaðra en áður. Þá hefur bíllinn færst upp um stærðarflokk og flokkast nú sem meðalstór fólksbíll meðan sá gamli var í minni milliflokki.

   Í bílnum er vandað til öryggisbúnaðar og –frágangs. Allur nútíma öryggisbúnaður er til staðar eins og ESC stöðugleikabúnaður sem er staðalbúnaður og það er líka sjálfvirkur fjarlægðarmælir sem varar ökumann við þegar bilið milli næsta bíls fyrir framan er orðið of lítið miðað við hraðann og hætta á árekstri er yfirvofandi. Búnaðurinn hemlar hins vegar ekki á sjálfvirkan hátt eins og t.d. hinn nýi VW-up gerir. Hið óvirka öryggi er með því besta sem gerist. B-Benzinn hlaut fullt hús eða fimm stjörnur í árekstraprófi EuroNCAP með 97% stiga. Það segir í raun alla söguna og óþarfi að fjölyrða um það frekar.  Af því fáa sem finna mætti að er það að ekki er rofi eða læsing til þess að aftengja stóra loftpúðann framan við framsætisfarþegann. Það þýðir að alls ekki gengur að koma fyrir barnastól í framsætinu.

   Vélin er eins og áður hefur komið fram bensínvél. Hún er 1,6 l að rúmtaki, með beinni strokkinnsprautun eldsneytisins og með forþjöppu og er hún 120 hestafla. Togkúrfan er flöt á snúningsbilinu 1250-4000 en á því bili er vinnslan 200 Newtonmetrar. Þetta þýðir m.a. það að auðvelt er að halda eyðslunni í skefjum með því að spila á gírana sex í brekkunum en láta vélina snúast hóflega og vinna ætíð með sem minnstri áreynslu. (svipað og trukkabílstjórar gera með sínum 16 gírum). Þá hjálpar það til við sparneytnina hversu vel bíllinn er formaður með tilliti til loftmótstöðu en loftmótstöðustuðull hans er 0,26. Það mun vera með því lægra sem gerist um fólksbíla.

   Þegar á heildina  er litið er B Benzinn mjög áhugaverður fyrir fjölskyldufólk með börn. Hann er ekki of stór og fyrirferðarmikill um sig en rúmgóður hið innra, þægilegur í allri umgengni og afar öruggur, ekki síst fyrir börnin í bílnum. Sparneytinn er hann einnig og lipur í allri notkun, hvort heldur í þéttbýli eða á vegum úti. Stærsti gallinn er eiginlega verðið. Samkeppnisbílarnir eru allir hálfri til einni milljón ódýrari.