Hyundai Kona EV 2019

Fyrir tæpum tveimur árum var sport „jeppinn“ Hyundai Kona kynntur til sögunar og hefur hann fengið ágætar viðtökur þar sem vinsældir sportlegra lífstílsbíla með aukna veghæð ætlar engan endi að taka. Þá kemur Kona einnig til greina fyrir val á bíl ársins hér á landi fyrir 2018.

Mikil eftirvænting hefur ríkt meðal rafbílaáhugamanna eftir 64 kWh Hyundai Kona EV enda býður bíllinn upp á einna lengstu drægni þeirra bíla sem eru í boði hér á landi eða allt að 449 km skv. nýja WLTP-staðlinum.

Fyrst um sinn verður eingöngu boðið upp á Premium útgáfu af bílnum með fyrrnefndri 64 kWh rafhlöðu en utanlands er bíllinn einnig fáanlegur með 39 kWh rafhlöðu og má ætla að hann verði einnig í boði hér á landi á næstunni.

Hyundai Kona EV

 

Að innan

Vel fer um um ökumann við akstur og má þar sérstaklega hrósa þægilegri stöðu sætis en góð áseta og hreyfanleiki stýris gera akstur áreynslulausan, jafnvel í lengri ferðum. Efnisval í innréttingu mætti vera betra en harðplast er ríkjandi á mörgum stöðum. Miðjustokkurinn er í raun tveggja hæða þar sem sú efri býður uppá smáhólf með þrálausri farsímahleðslu, USB og hljóðtengi auk glasahaldara en stórt hólf ásamt 12v tengi er á þeirri neðri sem mun örugglega nýtast ágætlega þegar fram í sækir.

Hyundai Kona EV Hyundai Kona EV

Hyundai Kona EV 

 

 

Notkun og aðgengi að upplýsingakerfi bílsins er mjög góð en bíllinn er búinn átta tommu snertiskjá sem situr efst á fyrir miðju mælaborðs. Þá er mælaborðið sjálft allt stafrænt og því auðvelt að kalla fram hinar ýmsu upplýsingar við akstur og jafnframt er, til að toppa upplýsingaflæði til ökumanns, einföldum upplýsingum eins og hraða varpað upp á glerplötu sem kemur upp úr mælaborðinu þegar kveikt er á bílnum. Auðvelt er að framkvæma allar helstu aðgerðir en þær sem gerðar eru á snertiskjá eiga til að seinka.

Auðvelt er að tengja og nota síma fyrir tal og streyma tónlist í afburðagott hljóðkerfi frá ameríska hljómtækjaframleiðandanum Krell. Upplýsingakerfið býður bæði upp á Apple CarPlay og Android Auto

Ekki má gleyma því að þrátt fyrir að Kona er ekki stór bíll þó að hann sé flokkaður sem sportjeppi eða jepplingur og mest áhersla er lögð á pláss og þægindi fyrir framsæti. Rými í aftursætum er þokkalegt en hliðarrúður eru fremur smár og hátt uppi en það skerðir útsýni fyrir börn. Einnig er skottið fremur lítið eeða einungis 332 lítrar með sæti í uppréttri stöðu. Auðvelt er að hlaða bílinn þar sem engin brík er á skottinu og gildir það sama þegar aftursæti eru felld niður og gólfið slétt alla leið og eykst farangursrýmið þá í 1114 lítra.

Hyundai Kona EV

Að utan

Rafmagnsútgáfan hefur fengið minniháttar en vel heppnaða andlitslyftingu á neðri afturljósum og einnig hefur grillið einkennandi útlit rafbíls, svipað Hyundai Ioniq EV. Plastklæðning er áberandi en sú útfærsla virðist sleppa fyrir horn þar sem hún er með silfraðri litaáferð og virðist auðveld í viðhaldi frekar en hrátt plast sem getur gránað með tímanum.

Hyundai Kona EV

 

Öryggi

Bíllinn er hlaðinn búnaði til að auka á öryggi við akstur enda náði Kona fullu húsi stiga í Euro Ncap-árekstarprófunum. Meðal annars kemur bíllinn með akgreinavara, blindhornsviðvörun, gagnvirkum hraðastilli (eltir bílinn á undan), sjálfstæðri neyðarhemlun, fjarlægðarskynjara að framan og aftan ásamt bakkmyndavél.

Hyundai Kona EV

 

Akstur

Eitt helsta einkenni rafmagnsbíla, fyrir utan að vera hljóðlátir, er stiglaust og jafnt afl sem togar bílinn áfram af miklum ákafa. Reynsluakstursbíllinn er uppgefinn 204 hestöfl og með 395 Nm í tog sem skilar þessum tæplega 1700 kg bíl í 100 á aðeins 7,6 sekúndum. Hægt er að velja um þrjár mismunandi akstursstillingar en þær eru „sparnaðarstilling“ (e. eco) sem slekkur á orkufrekum búnaði og dregur úr afli til að hámarka drægni, „þægindi“ (e. comfort) fyrir almenna notkun og „sport“ þar sem mælaborðið fær á sig GT-útlit og bíllinn verður mun kvikari í hreyfingu.
Orkunotkun bílsins var áþekk því sem gefið er upp frá framleiðanda og en hún var um 14,8 kWh á kílómetra. Taka verður með í reikninginn að milt var í veðri þá daga sem reynsluakstur fór fram og því var notkun á miðstöð í lágmarki. Samkvæmt Hyundai hefur verið lögð rík áhersla á að rauntímaútreikningar á drægni rafhlöðunnar sem birtast ökumanni séu eins nákvæmir og hægt er með tilliti til fyrri orkunotkunar og aksturslags. Það er vissulega skref í rétta átt því að aðrir rafbílar hafa átt til að ýkja væntanlega drægni við upphaf aksturs.

Hvorum megin á stýri eru flipar sem stýra E-bremsunni, þ.e. hversu mikil endurhleðsla er inn á rafhlöður bílsins þegar rafgjöfinni er sleppt, og því er hægt að stýra hemlun bílsins á auðveldan máta beint úr stýri. Ég saknaði þess að bíllinn stoppar ekki alveg með E-bremsu, eins og til dæmis Nissan Leaf.
Almennt var bíllinn hljóðlátur fyrir utan óþarflega mikið suð frá endurhleðsluhreyflum þegar þeir voru að bremsa bílinn niður. Fjöðrunin var mátuleg og hljóðlát og virkaði vel við ýmsar aðstæður. Kona verður ekki í boði með dráttarkrók. Það er miður þar sem bíllinn ætti að hafa alla burði til að draga kerrur og létt hjólhýsi.

Niðurstaða

Hyundai Kona er góð viðbót við ört stækkandi rafbílaflóru hér á landi. Það var ekki óvanalegt að heyra fyrir nokkrum árum að rafbílar væru ekki í alvöru samkeppni við sprengihreyfilsbíla fyrr en þeir næðu á Akureyri á einni hleðslu. Nú er sá tími kominn og því er rafbíllinn enn raunhæfari kostur sem aðalbíll á heimilið, sé hann það ekki nú þegar.
Bíllinn er góður í umgengni og, eins og áður segir, var áseta og útsýni einstaklega gott. Hann er sportlegur í útliti með háa veghæð. Þetta væri ekki mitt fyrsta val ef ég væri í leit að bíl með stórt skott og rými fyrir alla í fjölskyldunni en að öðru leyti er hann álitlegur kostur. Forvitnilegt væri að sjá á hvaða verði væri hægt að bjóða bílinn með minna af búnaði og 39 kWh. rafhlöðu.
Taka má fram að stór rafhlaða er ekki endilega öll sagan, heldur hvernig notkun bíllinn er hugsaður fyrir. Þegar aðallega á að aka innanbæjar og mögulega allt að 100 kílómetra radíus frá heimili er minni rafhlaða jafnvel betri kostur þar sem hún er ódýrari og léttari.
Fyrir þá sem eru í kauphugleiðingum eða eiga rafmagnsbíl vil ég ítreka mikilvægi þess að tryggja réttan frágang á hleðsluköplum og snúrum. Nú eru rafhlöður að verða yfir fjórfaldar að stærð miðað við fyrstu rafmagnsbílana og því er hleðslutími orðinn óhemjulangur á heimiliskló ásamt aukinni hitamyndun og eldhættu. Því er mælt með því við alla rafbílaeigendur að fjárfesta í hleðslustöð við heimilið og fá fagmann við uppsetningu.

Björn Kristjánsson


 

Hyundai Kona EV Premium

Aflrás: Rafmótor
Hámarksafl: 204 hö.
Hámarkstog: 395 Nm.
Eldsneytisnotkun (skv. framleiðanda): 14,3 KWh/100km (blandaður akstur)
Eldsneytisnotkun (raunakstur): 15,3 KWh/100 km (blandaður akstur)
Losun CO2: 0 g/km
Eiginþyngd: 1.685 kg
Lengd / Breidd / Hæð (mm): 4.180 / 1.800 (með speglum) / 1.570
Veghæð (mm): 157 mm
Aðfallshorn / Fríhorn / Fráfallshorn: 30,9°/ 25,7° / 29,9°

Kostir: Staðalbúnaður, Akstursstaða

Ókostir: Skottstærð, Pláss í aftursæti