Lexus GS450h 2012



Fyrir árið 2012 hefur Lexus gjörbreytt GS línunni þeirra. Bíllinn sem um ræðir hér er tvinn-útfærslan, GS450h. GS línan tilheyrir flokki millistærðar lúxusbíla og eru helstu keppinautarnir BMW 5-línan, Audi A6 og Mercedes Benz E-línan. Líkt og flestir bílar sem prófaðir voru í ár, skartar Lexusinn skarpari línum og hornum í stað þeirra ávalari á fyrri kynslóðum. Útlitið er framúrstefnulegt, en þó ekki mjög dramatískt. Hybrid bíllinn sem prófaður var notaðist við stóra 3.5 lítra V6 vél ásamt rafmótor sem gefa samanlagðan hestaflafjölda upp á heil 338 hestöfl. Hröðunin er einnig mjög tilkomumikil, en bíllinn kemst úr kyrrstöðu í 100 km/klst á aðeins 5.9 sekúndum. Grunnverð GS450 er 10.940.000 kr (skv. Verðlista Lexus febrúar 2013) sem kann að hljóma hátt;  þó skal hafa í huga að BMW 530d (245 hö) kostar frá 11.190.000 kr, Mercedes Benz E350 CGI BlueEFFICIENCY (306 hö) kostar frá 11.890.000 kr og Audi A6 3.0 TFSI (310 hö) kostar frá 12.450.000 kr.

Innréttingin í Lesxus GS450h er, eins og við má búast, alveg hreint til fyrirmyndar. Lungamjúk, rafstýrð leðursæti (með hita og loftkælingu)  ásamt leður- og viðaryfirborð innra rýmisins gefa ekkert annað en lúxus til kynna. Bíllinn er hlaðinn búnaði og skartar t.a.m. stærsta margmiðlunarskjá sem völ er á í hvers konar fólksbíl. Honum er stýrt með nýstárlegri mús á milli framsætanna. Hún er auðveld í notkun og stýrir öllu því helsta; útvarpi, aksturstölvu, bakkmyndavél o.fl. Aftursætin eru einnig einhver sú albestu sem greinarhöfundur hefur setið í, en þó er fóta- og höfuðrými í smærri kantinum fyrir farþega yfir 185 cm á hæð. Miðjusætið er þó næsta gagnslaust fyrir aðra en krakka, því þar er lofthæð talsvert lítil. Farangursrými er einnig nokkuð takmarkað, en rafhlöðurnar taka upp dágóðan hluta rýmisins.

Hvort sem bíllinn keyrir á rafmagni einu og sér eða í samvinnu við bensínvélina er aksturinn hljóðlátur og afslappaður. Akstursstillingar eru þrjár; Eco, Normal og Sport og segir sig nokkurn veginn sjálft að hvers lags akstursagi hver stilling miðar. Í Eco-stillingu er t.a.m. hægt að keyra bílinn á rafmagni einu og sér og er þá mengun og losun 0. Eins og gefur að skilja er krafturinn talsverður, en aksturseiginleikarnir eru ekki eins sportlegir og hjá þýsku keppinautunum. Bíllinn vaggar meira í beygjum vegna mýkri fjöðrunar, en að sama skapi verður ferðin mýkri og þægilegri en hjá áðurnefndum keppinautum. Eyðslutölur í blönduðum akstri meðan á prófunum stóð voru aðeins um 7 l/100 km, sem er ekki íkja langt frá uppgefnum tölum frá framleiðanda (6.3 l/100 km).

Að lokum má til gamans geta að meðan á lokaprófunum fyrir bíl ársins fór fram á kvartmílubrautinni í Kapelluhrauni, kynngdi niður snjó. Nema hvað, að sá bíll sem var stöðugastur á snævi þakinni og ísi lagðri brautinni, var hinn afturhjóladrifni Lexus GS450h. Vera má að hann hafi verið útbúinn bestu dekkjunum, en tekið var eftir hversu vel ABS bremsurnar og ESP stöðugleikavörnin unnu vel við að halda bílnum beinum á veginum.