Nissan Leaf 2013

Rafbíllinn Nissan Leaf hreppti þriðja sætið í flokki minni fólksbíla í vali á Bíl ársins 2014. Strax í byrjun voru efasemdir um hvort bíllinn væri gjaldgengur þar sem hann hefur nú þegar verið seldur í tæp þrjú ár vestanhafs, en reglur BÍBB (Bandalag íslenskra bílablaðamanna) kveða hins vegar á um að bíll sé gjaldgengur sé hann kynntur fyrst á Íslandi eftir að val á bíl ársins er afstaðið árið áður.

Markmið Nissan með Leaf bílnum var að gera rafbílinn að aðgengilegri kosti fyrir þá sem hingað til höðfu efast um ágæti rafmagns fram yfir hefðbundið eldsneyti. Í fyrsta lagi lítur Nissan Leaf út eins og hver annar bíll af þessari stærð, að innan sem utan, og reynir því ekki að gera meira úr útliti en þörf er á eingöngu vegna þess að hann gengur fyrir annarskonar orku. Það tókst með ágætum, enda er bíllinn laglegur, rúmgóður og notadrjúgur. Rými er gott að innan fyrir farþega fram- og aftursæta sem stutt er með nægum fjölda geymsluhólfa og glasahaldara. Bíllinn er vel útbúinn í þeirri útfærslu sem er seld á Íslandi, en dæmi um staðalbúnað er hiti í fram- og aftursætum, hiti í stýri, handfrjáls búnaður fyrir síma, usb og aux tengi, lyklalaust aðgengi, bakkmyndavél og margt fleira. Farangursrými er meðalstórt þrátt fyrir plássfreka rafhlöðupakka, en þökk sé skynsamlegri röðun rafhlaðna sem neðst í bílnum eykst farangursrými og þynktarpunktur færist neðar fyrir vikið sem skilar sér í betri aksturseiginleikum umfram frumútgáfur bílsins.

Drægi er oftast sá þáttur sem kemur í veg fyrir að fólk kaupi rafbíla, en raunhæft drægi Nissan Leaf við íslenskar aðstæður er á bilinu 130-140 km á hverri hleðslu. Það er vissulega ekki ýkja langt, en oftast nær nægilegt fyrir hefðbundinn inannbæjarakstur. Auðvelt er að hlaða bílinn, en hægt er að tengja hleðslusnúru hans við hefðbundna heimilisinnstungu. Með 16 ampera öryggi tekur um 11 klst. að hlaða bílinn að fullu, sé engin hleðsla fyrir.

Aksturseiginleikar Nissan Leaf komu á óvart þökk sé sprækum rafmótor. Hröðun er gjörsamlega viðstöðulaus og blekkir ökumann í að halda að um mun kraftmeiri bíl sé að ræða – hámarkstog er framkallað frá 0 snúningum. Bíllinn hefur aðeins einn gír áfram og því eru afköst aflsins silkimjúk frá kyrrstöðu upp í hámarkshraða. Að auki er bíllinn algjörlega hljóðlátur í akstri.   Auðvelt er að ruglast á hvort bíllinn sé í gangi eða ekki, en alltaf er hægt að miða við að ef ljós eru í mælaborði, þá er bíllinn í gangi. 

Að lokum má segja að Nissan hafi tekist ætlunarverk sitt, því hæglega er hægt að mæla með þessum bíl fyrir fólk sem notar bílinn mest í inannbæjarakstur, líkt og til og frá vinnu. Notagildið er svo gott sem það sama og í sambærilegum bílum með sprengihreyfil, nema rekstrarkostnaður er talsvert minni.

Helstu upplýsingar:

Verð: 4.990.000 kr

Afl: 109 hestöfl / 254 Nm

Hröðun 0-100 km/klst: 11 sekúndur

Drægi á rafhlöðu: 199 km (skv. framleiðanda

Losun CO2: 0 gr/km

 

Kostir:

Lágur rekstrarkostnaður

Aksturseiginleikar

Ókostir:

Verð

Langur hleðslutími

Stutt drægi