Nissan Leaf 2018
Árið 2010 kynnti bílaframleiðandinn Nissan til sögunar rafmagnsbílinn Leaf. Bíllinn fékk strax gríðarlega góðar viðtökur og hafa selst yfir 300.000 eintök af honum um allan heim. Hann hefur haldist í óbreyttri mynd frá upphafi og var því mikil eftirvænting eftir næstu kynslóð af þessum mest selda rafmagnsbíl í heimi.
Reynsluakstursbíllinn var nýkominn til landsins að sögn sölumanns og sá fyrsti í Tekna-útgáfunni en hún er jafnframt dýrasta útgáfan og með mestum búnaði. Í boði eru þrjár útfærslur: ACENTA, N-Connect og Tekna og fela uppfærslurnar í sér stærri felgur, aukna akstursaðstoð, leðuráklæði og hljóðkerfi svo að eitthvað sé nefnt.
Snerpa með jöfnu átaki.
Ein stærstu viðbrigðin við akstur á rafmagnsbíl, miðað við hefðbundin bíl með sprengihreyfli, er hversu hljóðlátur og þýður hann er í akstri. Rafmagnsmótorinn skilar af sér stiglausu og jöfnu átaki hvort sem ekið sé á 30 km hraða innanbæjar eða á 90 í þjóðvegaakstri. Mótorinn er 38 hestöflum öflugri en í eldri bílnum eða 148 hestöfl með 320 Nm. í tog. Mælingar á hestöflum og togi verða þó seint samanburðarhæfar við venjulegan sprengihreyfil þar sem rafmagnsmótorinn skilar öllu afli frá sér þegar í stað. Þannig getur mótorinn skellt þessum 1600 kílóa bíl upp í 100 kílómetra hraða á aðeins 7,9 sekúndum og oftar en ekki þurfti spólvörnin að grípa inn í til að koma aflinu niður í malbikið.
Fjöðrunin er í stífara lagi og þá sérstaklega á 17 tommu dekkjum en grunnútgáfan kemur á 16 tommu dekkjum sem ættu að fyrirgefa ójöfnur betur, fyrir þá sem vilja aukna mýkt. Ein stærsta áskorun rafbílaframleiðenda er að draga úr aukahljóðum sem alla jafna heyrast ekki fyrir hávaða í bensín og díselvélum. Það hefur að mínu mati tekist mjög vel þar sem vind- og veghljóð eru í lágmarki en fjöðrunarbúnaður átti til að láta heyra í sér þegar ekið var yfir ójöfnur.
Notkun
Þá er það stóra spurningin: Hver er drægnin? Allar útgáfur verða boðnar með 40 kwh rafhlöðu sem er nær tvöföld rýmd á við fyrstu rafhlöðurnar sem voru í kynslóðinni á undan. Uppgefin raundrægni samkvæmt nýja WLTP* staðlinum er 270 km í blönduðum akstri. Í upphafi reynsluaksturs var full hleðsla á rafhlöðum og gaf aksturstölva upp að 280 km væru til staðar miðað við fyrri akstur. Í reynsluakstrinum voru eknir tæpir 200 km við ýmsar aðstæður jafnt innan og utanbæjar og var enn 20% hleðsla eftir á rafhlöðu þrátt fyrir inngjafir og mikla notkun á rafbúnaði bílsins. Því má ætla að WLTP-mæling bílsins sé ekki fjarri rauneyðslu. Það tekur um 14 tíma að fullhlaða bílinn með hleðslutengli sem fylgir með en hann tengist venjulegri heimilisinnstungu. Aftur á móti getur full hleðsla náðst á innan við sex klukkustundum í heimahleðslustöð. Vert er að nefna að Nissan og Mannvirkjastofnun mæla ekki með stöðugri og langri notkun á þeim hleðslutækjum sem tengjast bent við heimilisinnstungu, nema í skamma stund í senn.
Öryggi og ProPILOT
Eins og áður segir var reynslu-akstursbíllinn með öllum fáanlegum útbúnaði og fór það ekki framhjá undirrituðum þar sem tækniáhuginn fékk að njóta sín. Bíllinn er útbúinn með skynjurum og myndavélum á öllum hliðum í þeim tilgangi að hjálpa ökumanni við hin ýmsu tækifæri sem gefast og er tjáningarformið yfirleitt „píp“ í mismunandi tónum og ljósum í mælaborði. Þannig eru allar tegundir útbúnar með umhverfisskynjurum, bakkmyndavél, sjálfvirkum neyðar-hemli ef bíllinn skynjar yfirvofandi árekstur, sjálfvirkum háum geisla í framljósum sem skynjar aðvífandi umferð og einnig bíla fyrir framan. Síðan höfum við akreinavara og blindhornsviðvörun í hliðarspeglum sem lýsir upp ef bíll er utan sjónsviðs ökumanns. Auk þess er hægt að bæta við fjarlægðaskynjurum og 360⁰ myndavél svo að eitthvað sé nefnt.
Allar TEKNA-útgáfur eru útbúnar ProPILOT akstursaðstoð. Nissan segir þennan búnað vera næsta skref í átt að sjálfkeyrandi bílum. Þannig getur bíllinn „læst“ sig við bílinn fyrir framan og haldið jöfnu bili en hægt er að velja um þrjú fjarlægðarstig, allt eftir aðstæðum og umferð. Þá skipti ekki máli þótt stoppað væri á rauðu ljósi því að kerfið sá sjálfkrafa um alla hemlun og lagði einnig sjálft af stað, óskaði maður eftir því. Þessi búnaður virkaði ánægjulega vel þótt fjarlægð milli bíla í þjóðvegaakstri væri ívið stutt miðað við 90 km hraða.
ProPILOT kerfið bauð einnig uppá aðstoðarstýringu sem hjálpaði til við að keyra á réttri akrein ef ökumönnum finnist þeir þurfa hjálp með það en búnaður var ekki sérlega skilvirkur og skrifast það frekar á lélegar yfirborðsmerkingar hér á landi fremur en búnaðinn sjálfan.
Leggur sjálfur í stæði
Í áranna rás hefur komið fram ýmis útbúnaður í bílum sem aðstoða ökumenn við að leggja í stæði, með misjöfnum árangri. Því var væntingum stillt í hóf þegar þessi búnaður var prófaður í fyrsta sinn en tónninn breyttist fljótt þar sem ProPILOT kerfið leysti verkefnið alveg furðu vel. Þegar ekið var um bílastæði skynjaði bíllinn laust stæði sem ökumaður valdi síðan á upplýsingaskjánum. Eftir það tekur bíllinn alveg við stjórninni þar sem hann stýrir bílnum á réttan stað og setur í handbremsu án allrar aðkomu ökumanns. Þessi búnaður vakti mikla lukku hjá þeim sem sáu til og stóðst hann flest þau próf sem voru lögð fyrir hann. Það tekur hins vegar smá æfingu í að nota hann og þarf að gefa sér tíma til að læra inn á hvernig sé best að nálgast bílastæði með þetta aðstoðarkerfi í huga.
Ytra útlit
Nissan hefur tekist vel til við að uppfæra ytra útlitið á Leaf-inum í nútímalegt horf og ber bíllinn sterkan fjölskyldusvip Nissan með prýði. Augljóst er að hönnuðir hafa haft hemil á sköpunargleðinni og er það sagt á góðan hátt þar sem rafbílar hafa um langa hríð þurft að gjalda með sérkennilegu útliti fyrir það eitt að vera knúnir áfram með rafmagni. Tekna útgáfan kemur með led dag- og aðalljósum ásamt 17 tommu álfelgum. Ánægjulegt hefði verið að sjá led lýsingu í afturljósum og hefði það gefið bílnum enn nútímalegra útlit. Háglans svart plast er áberandi bæði í framenda og kringum afturhlera en ásamt því koma allar útgáfur með sílsavindskeið sem eykur enn á sportlegt útlit.
Innra rými
Aðgengi ökumanns að stjórntækjum er gott bæði í stýri og á upplýsingaskjá fyrir miðju mælaborðs. Efnisval og frágangur innréttinga er ágætur, með sportlegum bláum saumum og leðurlíki. Þá gefur flatur botn stýrishjólsins einnig ákveðið sportlegt yfirbragð. Við akstur skorti tilfinnanlega armhvílu milli framsæta ásamt geymsluplássi og er óljóst hvers vegna miðjustokkurinn þurfi að taka svo mikið pláss af fótarými fyrir farþega í framsæti. Aðgengi að aftursætum er gott og kemst 180 cm einstaklingur vel fyrir án teljandi vandræða. Stór miðjustokkur á gólfi kemur hins vegar í veg fyrir að þrjár fullorðnar manneskjur geti setið þægilega saman í aftursæti. Þrátt fyrir að vera á dýrustu tegund var enginn armpúði fyrir aftursætisfarþega. Klæðning og innréttingar í skotti ásamt, smáatriðum eins og loftljósi og frágangur umhverfis belti, benda til að megináherslan hafi verið á ökumann og umhverfi hans.
Stjórnkerfi bílsins er ágætt og ættu þeir sem þekkja eldri útgáfuna af Leaf að kannast strax við sig. Það er ánægjulegt að miðstöðvar stillingar eru sjálfstæðar og auðvelt að stilla þær án þess að þurfa að fara einhverjar krókaleiðir, eins og vill gerast á nýjum bílum í dag. Hins vegar eru stillingar í margmiðlunartækinu óþarflega flóknar, eins og t.d. á útvarpi. Vert er að geta þess að allar útgáfur koma með Apple Car Play og Android Auto sem vissulega eykur á notagildi. Tekna-útgáfan bauð uppá Bose hátalarakerfi sem stóðst allar væntingar þar sem tónlist og tal fékk að njóta sín í mjög góðum gæðum. Snertiskjárinn er þokkalega nákvæmur en líklega munum við sjá uppfærslur á þessum búnaði á næstu árum.
Útsýni úr bílnum er ágætt og virkar 360⁰ gráðu myndavélakerfið mjög vel þegar maður hefur vanist því að horfa einnig á skjáinn, t.d. þegar bakkað er í stæði. Eina sem mætti setja út á er staðsetning á baksýnisspegli sem er fremur neðarlega á framrúðu og skyggir því á útsýni fyrir hærri ökumenn.
Skottpláss hefur verið aukið umtalsvert frá fyrri kynslóð en það er nú 435 lítrar. Sætin eru með 40/60 skiptingu og þegar þau eru felld niður má auka skottrými upp í 1176 lítra. Vegna staðsetningar á rafhlöðum falla sætin ekki flöt niður og myndast umtalsverð brík sem getur torveldað hleðslu á stærri hlutum.
Niðurstaða
Almennt þykir mér vel hafa tekist til við uppfærslu frá fyrri útgáfu, bæði í útliti, tækni og akstri. Nissan virðist gera sér grein fyrir hversu rafmagnsbílamarkaðurinn er viðkvæmur og lítið svigrúm er fyrir mistök við hönnun og framleiðslu. Þrátt fyrir að halda sig innan þægindarammans við hönnun og smíði hefur Nissan tekist að framleiða 100% rafmagnsbíl sem höfðar til fjölmarga kaupanda. Bíllinn er laglegur í útliti og útbúinn öllum helsta öryggis- og tæknibúnaði sem búast má við af nýjum bílum. Rafhlöðudrægnin er búin að aukast til muna og er því rafmagnsbíllinn orðinn enn fýsilegri kostur bæði fyrir einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki.
Nissan Leaf Acenta, sem er grunnútgáfan, kostar tæpa 4,1 milljón en fyrir 500 þúsund krónur til viðbótar er hægt að fá dýrustu útgáfuna Tekna þar sem viðbætist led framljós, stærri felgur, leður, öflugra hljómkerfi og fjölbreyttari öryggisbúnaður.
Nissan Leaf Tekna Aflrás: Rafmótor með stiglausri eins gíra sjálfskiptingu |
|
Kostir
Staðal öryggisbúnaður
Lágur rekstrarkostnaður Útlit |
Ókostir
Stíf fjöðrun
Pláss fyrir þrjá í aftursæti Flókið viðmót hljómtækja |