Kia e-Niro

Kia Niro EV góður valkostur

Ekki verður annað sagt en að reynsluakstur af rafútgáfu Kio Niro EV hafi komið skemmtilega á óvart. Bíllinn sjálfur stígur kannski ekki við fyrstu sýn en þegar maður er sestur undir stýri og ekur honum við mismundi aðstæður koma í ljós eiginleikarnir sem bíllinn býr yfir. Bíllinn er mjúkur og í raun ótrúlega snöggur af heimilisbíl að kalla. Í ljós kom hversu mjúkur hann er þegar farið var yfir hraðahindranir og í holur. Bíllinn brást við þessum aðstæðum nákvæmlega eins og maður vill að hann geri. Hvað kraftinn viðkemur stóðust upplýsingar fyllilega en hann var tæpar átta sekúndur í hundraðið en það segir sína sögu.

 

Kia E-Niro

 

 

Drægi Kia Niro er með því lengsta sem í boði er af rafbílum sem komnir eru á markað í dag. Uppgefið drægi er 455 km en við aðstæður hér á landi má ætla að það sé eitthvað minna, líklega undir 400 km. Engu að síður hefur bíllinn komist til Akureyrar á einni hleðslu en það verður að kallast harla gott og flott frammistaða. Til að komast þessa vegalengd, sem er um 370 km frá Reykjavík, þarf sterka og stóra rafhlöðu. Í þessum bíl vegur hún 450 kg en heildarþyngd bílsins er um 1800 kg. Henni er komið undir gólfinu og fyrir vikið verður þyngdarpunkturinn lægri og um leið liggur bíllinn mun betur á veginum.

 

Kia E Niro

 

 

Skilar rúmlega 200 hestöflum

Kia Niro EV er með nýjum og tæknivæddum 64 kWh lithium rafhlöðupakka sem skilar bílnum rúmlega 200 hestöflum. Bíllinn mun einnig vera fáanlegur í útfærslu þar sem drægnin er 289 km og er með 39,2 kWh lithium rafhlöðu. Sá bíll verður með rafmótor upp á 150 hestöfl. Kia Niro EV er með engan útblástur þannig að um er að ræða bæði afar umhverfisvænan og og hagkvæman bíl. Þetta er annar hreini rafbíllinn sem Kia framleiðir en fyrir er rafbíllinn Kia Soul EV. Kia Niro EV er hannaður í hönnunarstöðvum Kia í Kaliforníu og Namyang í Suður-Kóreu. Hann er fyrsti rafbíllinn í Crossover flokknum.

Rafmótorinn skilar alls 204 hestöflum og 395 Nm í togi. Bíllinn er framhjóladrifinn eins og Niro Hybrid og Plug-in Hybrid. Bíllinn var upphaflega kynntur sem Niro EV á bílasýningunni í Busan í Suður-Kóreu síðasta sumar en nafni hans hefur verið breytt í e-Niro fyrir evrópskan markað.

Gott rými

Eins og áður kom fram býr Kia Niro yfir mörgum kostum. Plássið í bílnum er gott og vel fer um ökumann og farþega bæði framan til og í aftursætum. Farangursrýmið er ágætt en mætti vera stærra.

 

Kia E Niro 

 

Gott útsýni yfir veginn

Sætin liggja nokkuð hátt og af þeim sökum er gott útsýni yfir veginn. Í keyrslu kom enn fremur á óvart hversu bíllinn er hljóðlátur og það verður að kallast mikill kostur. Margir ökumenn kannast við veghljóð sem verður stundum svo mikið að óþægilegt er að hlusta á útvarp. Kia Niro alveg laus við þennan hvimleiða galla og kemur það bílnum á hærra stall.

 

Kia E Niro

 

Kia Niro býr yfir góðu öryggiskerfi og má í því sambandi nefna að það heldur fyrirfram ákveðinni fjarlægð á bíl fyrir framan og dregur úr hraða þegar við á, án aðstoðar ökumanns. Enn fremur eru skynjarar, sem reyndar eru komnir í marga bíla, sem nema akreinamerkingar, svo að eitthvað sé nefnt.

Kia Niro EV vakti samstundis mikla athygli þegar hann kom fyrst á markað. Bíllinn nýtur vinsælda og selst vel hvarvetna. Ísland er ekki undanskilið í þeim efnum. Kaup á rafbíl og hugleiðingar margra um  næsta skref er ofarlega í huga hjá þeim sem kaupa bíl um þessar mundir. Margt er í boði í þeim efnum og tækninni fleygir fram. Bílarnir verða sífellt betri og drægi þeirra verður sífellt meira. Eftir reynsluakstur á Kia Niro verða kaup á slíkum bíl að teljast álitslegur kostur.