Opel Adam 2014

Sem ungur bílablaðamaður kann ég virkilega að meta stefnuna sem sífellt fleiri bílaframleiðendur hafa tileinkað sér, sérstaklega þegar kemur að smábílum þeirra, á undanförnum árum  – „Funky“. Opel Adam er þar einna fremstur í flokki, en hann hreppti þriðja sætið í flokki smærri fólksbíla. Adam keppist við hina agnarsmáu „lífstíls-bíla“ Fiat 500 og Mini, þ.e. hvað varðar stærð, verð og útlit. Hægt er útbúa sinn bíl á bókstaflega milljón vegu og ætti því hver Adam að skera sig úr flórunni. Þar má nefna mislitar felgur, ósamstæðan þak- og boddýlit og aragrúa innréttingavalmöguleika. Ekki hrifust þó allir dómarar af útlitinu, en það gæti verið kynslóðabili að kenna... Að öðru leiti ber helst að nefna að miðað við hversu agnarsmár bíllinn er að ytra máli kom á óvart hve rúmur hann er að innan. Að sjálfsögðu er það ekki allra að sitja í aftursætum bílsins (sem eru einungis tvö) til lengri tíma, þ.e. þeirra sem eru um eða yfir meðalhæð, en fyrir stutt skutl er plássið vel fullnægjandi. Farangursrýmið er smátt, en aðgengi hið ágætasta – þó vandræðalega langan tíma tók að finna hvernig ætti að opna það! (vísbending: Opel merkið á bakhleranum). Fengi ég að ráða, hefði ég þó aukið rými aftursætanna á kostnað farangursrýmis, en það er önnur saga. Magn búnaðar var undir meðallagi og má þar nefna sérstaklega að bíllinn var ekki útbúinn bakkmyndavél og lita- og/eða snertiskjá, sem langflestir bílar í dag eru útbúnir (þó hægt að panta sem aukahlut).

Aksturseiginleikar voru til fyrirmyndar; stýrið létt og stillanlegt (venjuleg- eða fjaðurvigtar-borgarstilling), akstursstaða góð og fótstig og gírstöng létt meðhöndlunar. Vélin var þó heldur líflaus (1.2 bensín) og eyðslan nokkuð gamaldags – enda vélin orðin nokkuð gömul, þrátt fyrir nýjan bíl að örðu leiti. Rauneyðsla var um 6-7 lítrar á hundraðið í blönduðum akstri. Bíllinn reyndist þó stöðugur og öruggur í háhraðakeilusvigi og kom þannig skemmtilega á óvart.

Mesta sorgarsagan er þó hátt verð bílsins, en verð á reynsluakstursbíl er heilar 2.990.000 kr. Ennfremur reyndist mikil óvissa hjá umboði hvaða útfærslur yrðu í boði og hvaða verð prýddu þær.

En nú er það bara að bíða og vona að Opel Adam S komi sem fyrst til landsins!

Tæknilegar upplýsingar:

Verð: 2.990.000 kr

Afl: 70 hö

Eldsneytiseyðsla: 5,3 l/100 km (uppgefin) / 6,5 l/100 km (rauneyðsla)

Losun CO2: 124 g/km

Kostir:

Útlit

Aksturseiginleikar

Gallar:

Verð

Skortur á búnaði

Aflleysi