Mazda CX-3 2015



Mazda CX-3 er sennilega minnsti jepplingurin sem hefur unnið þennan flokk í vali á bíl ársins, enda byggður á sama undirvagni og smábíllinn Mazda 2. Bíllinn er fáanlegur með framhjóla- og fjórhjóladrifi og 120 eða 150 hestafla tveggja lítra bensínvél. Dísilútfærsla er ekki fáanleg á Íslandi eins og er. Til reynslu var framdrifinn, beinskiptur bíll í Optimum útfærslu með 120 hestafla vélina. Það er dýrasta týpa CX-3, en ódýrasta týpan (Core) kostar aðeins frá 3.190.000 kr. Þessi Optimum útfærsla var ansi tilkomumikil; útbúin leðursætum LED aðalljósum, bakkmyndavél og fantagóðum Bose hljómtækjum ásamt heilum níu hátölurum svo fátt eitt sé nefnt. Miðstýrða upplýsinga- og aþreyingakerfið var nokkuð flókið í fyrstu, en skrunhjól og lykiltakkar fyrir flýtiskipanir auðvelda manni lífið ef maður vill t.d. leita í símaskránni og skipta svo um útvarpsstöð. Akstursstaða var góð, sæti auðstillanleg og útsýni gott út úr bílnum að flestu leyti að undanskilinni agnarsmárri afturrúðu. Yfirbragð innréttingarinnar var fallegt og efnisnotkun að mestu góð, í það minnsta á þeim stöðum sem hendurnar vilja helst leita. Aftursæti rýma tvo fullorðna eða þrjú börn en höfuðrými getur þó verið af skornum skammti fyrir hærri farþega aftursæta sökum lækkandi þaklínu við afturenda bílsins. Farangursrýmið er smátt, enda bíllinn smár; aðeins 350 lítrar sem er 4 lítrum smærra en t.a.m. Í Nissan Juke. Að auki þarf  að lyfta farangri yfir ansi háan þröskuld til að komast að farangursgeymslunni. Þó er hægt að fella aftursætin flöt niður og auka þannig farangursrými til muna. Í ofanálag er bíllinn fagur ásýndum að utan og öll hlutföll samsvara sér vel. Hönnunarteymi Mazda hefur staðið sig vel við hönnun bílsins líkt og flestra nýrra Mazda bíla í dag.

 

Sterkasta hlið Mazda bíla undanfarin hefur verið líflegir aksturseiginleikar og gerir CX-3 enga undantekningu þar á. Fram- og afturhjólum er troðið út í enda stuðara bílsins og gerir það að verkum, ásamt stuttu hjólhafi, að bíllinn er lipur og skemmtilegur í beygjum. Stýri er næmt og beygjuradíus lítill þannig að auðvelt er að þræða bílinn gegnum þrönga umferð. Tveggja lítra vélin vinnur vel og lítil slaglengd beinskeittrar beinskiptingarinnar gerir aksturinn ánægjulegan og deyfir alla löngun í sjálfskiptingu. Veg- og vélarhljóð voru einnig í lágmarki og því hægt að fara í löng ferðalög án þess að þreytast of mikið. Þótt vélin skilaði afli aðeins til framhjólanna var akstur á malarvegum engu að síður stöðugur og mjúkur þökk sé samspili vel hannaðrar fjöðrunar og stöðugleikabúnaðar. Aukin veghæð umfram bílinn sem hann er byggður á gerir því al-íslenskan slydduakstur að heiman upp í sumarbústað fullkomlega ásættanlegan.

 

Mazda CX-3 er ferskur, skemmtilegur kostur og afbragðs smájeppi. Gaman væri að reyna á kosti fjórhjóladrifsbílsins, en sá er væntanlegur til landsins. Verst er þó að Mazda annar ekki eftirspurn kaupenda og er því mikill skortur á þeim bílum til landsins og langir biðlistar.

 

Helstu upplýsingar (Optimum, bsk, 2WD):

Verð: 3.790.000 kr

Afköst vélar: 120 hestöfl / 204 Nm

Eldsneytiseyðsla: 5,9 l/100 km (uppgefin) / 7 l/100 km (rauneyðsla)

Losun CO2: 136 g/km

Kostir:

  • Líflegir aksturseiginleikar
  • Skemmtileg hönnun að innan og utan

Ókostir:

  • Stærð og aðgengi farangursrýmis
  • Löng bið eftir bílnum