Peugeot e-208

Vel flestir kannast við þá nostalgíu sem ríkir í kringum þá bíla sem maður þekkti á uppvaxtarárunum. Reglulega lendir maður í samræðum við aðra bílaáhugamenn um þá bíla sem áttu stærstu sögurnar og sigra á götunum á hverjum tíma þegar ökuskírteinið var brakandi ferskt í vasanum. Bílprófstímabilið mitt var einmitt um síðustu aldamót þegar Hondur VTI og Subaru Impresur Turbo voru að sigra heiminn, að manni fannst. Og svo var það auðvitað Peugeot 205 GTI sem var í raun litli bíllinn sem gat, með sinn1900 mótor og 140 hestöfl. 205 Peugeotinn er nú að mestu horfinn af götum bæjarins en það kviknaði einhver vonarneisti þegar ég sá fyrstu myndir af nýja 208 bílnum og þá sérstaklega þegar tekið er tillit til þess hönnuðirnir hjá Peugeot og Citroen hafa í auknum mæli sótt í fyrri hönnun til að glæða nýjustu bíla persónuleika fyrri tíma.

Peugeot e-208

Að utan

Að utan lítur bíllinn einstaklega vel út, sérstaklega í ljósi þess að um smábíl er að ræða. Bíllinn er með grimman framenda og einkenndi Led–dagljósalínu sem liggur frá framljósum og niður á framstuðara. Grillið er samlitt bílnum með blöndu af háglans svörtum lit en það er eitt af fáum einkennum sem aðskilur rafmagnsbílinn frá bensínbílnum. Prufubíllinn var í Active útfærslu en það er minnst búna útgáfan en á eftir henni kemur síðan Allure og að lokum GT. Þrátt fyrir að vera með „ódýrustu“ útgáfuna bar bíllinn það ekki með sér í útliti. Svartir háglans brettakantar, vindskeið á þaki og þótt ótrúlegt sé þá var bíllinn bara á þokkalegustu hjólkoppum. Það er síðan ekki fyrr en í dýrustu útgáfu að bíllinn fær að auki Led–framljós, skyggðar rúður og auðvitað álfelgur sem koma einnig í Allure–útgáfunni.

Peugeot e-208

Peugeot e-208     Peugeot e-208

Að innan

Þegar sest er inn í bílinn er alveg ljóst að um smábíl er að ræða. Mælaborðið og innréttingin umlykur mann, eins og búast má við af Peugeot, og er það alls ekki meint á slæman hátt. Þrátt fyrir að vera smábíll hefur ekki verið dregið úr íburði og minnir mælaborðið mjög á stærri bíla þó að það sé minna í sniðum. Það var sérlega ánægjulegt að sjá hliðræna (e. analog) mæla með gamaldags nál skila öllum helstu upplýsingum á eins einfaldan máta og hægt er. Þannig er rafhlöðustaðan t.d. skilgreind eins og um bensíntank sé að ræða. „Hálf rafhlaða eftir“ sagði mér í raun ekki mikið en þær upplýsingar nægja ágætlega þegar maður er farinn að þekkja bílinn. Aksturstölvan í bílnum gat hins vegar veitt nákvæmar upplýsingar um hversu mikið hálf rafhlaða þýddi fyrir drægni mína miðað við aksturslag.

Hér að innan kemur best í ljós á hvaða útgáfu maður ekur. Active–útgáfan býður ekki upp á rafmagn í afturrúðum, regnnema fyrir rúðuþurrkur, GPS eða lyklalaust aðgengi. Og kannski felst einna stærsti munurinn í að Active–útgáfan kemur með slakari hljóðeinangrun í rúðum en Allure og GT. Því miður var ekki hægt að taka samanburð en ef bíllinn getur verið hljóðlátari hefði það verið góður kostur. Þá skal taka inn í myndina að bíllinn var einnig á grófum vetrardekkjum.
Hár og góður stokkur eru á milli framsæta og stór hólf fyrir framan gírstöng sem rúma vel nútíma farsíma og hefði verið ágætt að hafa þráðlausa hleðslu sem staðalbúnað en ekki sem aukabúnað. Smekklegt takkaborð er fyrir miðri innréttingu með öllum helstu grunnaðgerðum sem snúa að miðstöð, síma og fleiru og ekki má gleyma skrunhjólinu fyrir útvarpið til að hækka og lækka því að stundum er það einfaldara betra.
Ágætt pláss er í skottinu sem er fremur djúpt eða 311 lítra. Hægt er að fella niður aftursæti 1/3 eða 2/3 og með því hægt að stækka farangursrýmið í 1106 lítra. Skotthlerinn opnast óvenju vel upp og engin hætta á að reka höfuðið í.

Peugeot e-208  

Peugeot e-208 

Peugeot e-208

 

Akstur

Ágætt útsýni er úr bílnum en baksýnisspegillinn situr helst til neðarlega og dregur úr útsýni ökumanns. Einkennandi Peugeot–stýrið er smátt og hefur ekki aðeins verið flatt að neðan heldur einnig að ofan svo að að ökumaður horfir á mælaorðið yfir stýrið en ekki gegnum það. Við fyrstu sýn lítur þetta út fyrir að gefa bílnum aukið sport yfirbragð en þegar á reynir var þetta ekki jafn þæginlegt og við var að búast. Hugmyndin um D–laga stýri kemur úr mótorsporti þar sem stýrið er lítið með góðu haldi en mikilvægast er að þar er stýrisgangurinn mun fínni og því hægt að ná fullri beygju með því að snúa aðeins hálfhring. En eins og flestir fólksbílar eru í dag þarf að snúa stýrinu mun meira og því er óhjákvæmilegt að losa gripið af því. Þetta getur verið sérstaklega óþægilegt ef maður notar aðeins eina hönd til að beygja sem er reyndar í andstöðu við „tíu mínútur í tvö“ regluna hans Sverris ökukennara.
Óreglulegur hringur gerir stýrið því óþjált. Bíllinn fær hins vegar hrós fyrir hversu stíft stýrið er og rásfestu í þjóðvega akstri sem skilar sér í afslappaðri keyrslu.

Áður er haldið er lengra er gott að koma því á framfæri að bíllinn er 1483 kg í eigin þyngd og heil 1910 kg að heildarþyngd. Þetta eru tölur sem maður býst við að sjá í stórum fólksbílum eða jafnvel í jepplingum. Þyngin er nær öll tilkomin vegna 50 kWst rafhlöðupakkans sem liggur undir bílnum og að því gefnu má hæla hönnuðum fyrir góða og skemmtilega fjöðrun. Það er lítil sveigja á yfirbyggingu (e. body roll) þrátt fyrir krefjandi beygju sem skila stýri og afli vel niður í malbikið. Bíllinn er þokkalega sprækur upp en getur verið latur þegar kemur að upptaki yfir 60 km/h og gott að hafa það bakvið eyrað þegar kemur t.d. að framúrakstri.

Endurhleðslubremsan mætti vera snarpari og ekki í boði að stilla tregðuna eins og sumir bílaframleiðendur eru komnir með. BBremsan virðist geta mun meira en til þess að hún taki almennilega við sér þurfti að stíga létt á bremsufetilinn.
Uppgefin drægni á bílnum við bestu aðstæður eru um 340 kílómetrar og mun ég ekki draga það í efa þar sem ekki gafst tími til langtíma prófana.

Öryggi

Í árekstrarprófum Euro NCAP fékk bíllinn fjórar af fimm stjörnum og var hann einna slakastur þegar kom að öryggi gangandi vegfarenda. Meðal staðalbúnaðar í öllum útfærslum má nefna neyðarhemlun, veglínuskynjara og umferðaskiltalesara. Í Allure bættist við fjarlægðarskynjari að aftan og síðan í GT–útgáfunni kom bakkmyndavél og fjarlægðarskynjari að framan. Það má velta fyrir hvers vegna bakkskynjarar og myndavélar séu ekki orðnar að staðalbúnaði í öllum útfærslum í dag.

Niðurstaða

Það kemur ekki á óvart að bíllinn hafi fengið nafnbótina bíll ársins í Evrópu 2020. Hann er allegur að utan óháð útfærslu, með veglega innréttingu og góða aksturseiginleika. Hins vegar má ekki gleyma að þetta er lítill og lágur bíll sem er kannski ekki allra og ekki sá nytsamasti. Fyrir þá sem vilja vera í rafbílaliðinu og fá bíl með smá persónuleika er þetta skemmtilegur kostur. Og er ég ekki frá því að hann hafi gefið mér smá nostalgíu um þá tíma þegar maður þeystist um á Subaru Justy og lét sig dreyma um Peugeot GTI.

Björn Kristjánsson


Peugeot e-208

Aflrás: 100 kW rafmagnsmótor Hámarksafl: 136 hö.
Hámarkstog: 260 Nm.
Verð frá: 4.050.000 kr.
Rafhlaða: 50 kWst.
Rafmagnsnotkun (WLTP): 15,3 kWh/100km
Drægni skv. framleið.: 340 km.
Losun CO2: 0 g/km
Eiginþyngd: 1483 kg
Lengd / Breidd / Hæð (mm): 4.055 / 1.745 (án spegla) / 1.430
Veghæð (mm): 119 mm.

Kostir: Útlit, aksturseiginleikar

Ókostir: Stærð, staðalbúnaður