Range Rover Velar

Range Rover Velar er nýjasta viðbótin í ört vaxandi flóru Land Rover bifreiða. Velar er fimm sæta lúxusjeppi sem smellir sér þægilega inn í stærðarflokk á milli Evoque og Sport. Sterkur ættarsvipur er milli allra Range Rover gerða (og í raun allra afurða Land Rover) og samsvarar Velar sér því með flórunni og rúmlega það, því að hann er hreinlega gullfallegur. Kom það undirrituðum skemmtilega á óvart þar sem eftirlætisjeppar hans eru hannaðir með reglustikum og vinklum, líkt og Mercedes G-vagninn, Jeep Wrangler og Land Rover Defender. Hönnunin á Velar er hreinlega svo fáguð og grípandi að höfundi þykir þetta fallegasti jeppinn á markaðnum í dag.

Range Rover Velar   Range Rover Velar

Reynsluakstursbíllinn var í HSE D240 útfærslu, þ.e. með 240 hestafla fjögurra strokka dísilvél með forþjöppu og átta þrepa sjálfskiptingu. Að innan var rýmið löðrandi í leðri, tvílitað í svörtu og brúnu með hvítan saum og burstað ál á hurðarhúnum, miðjustokki og mælaborði. Nú þegar svo gott sem allir bílar eru komnir með snertiskjá varð Land Rover að stíga næsta skref og er því Velar útbúinn tveimur snertiskjám. Sá efri stýrir afþreyingarkerfinu, leiðsögukerfi, myndavélum og síma á meðan sá neðri stýrir miðstöð, sætishita og -kælingu, baknuddi og akstursstillingum. Svipað og þegar fyrstu snertiskjáirnir litu dagsins ljós í bílum, þá tekur dágóðan tíma að venjast tveimur. Margar stillingar og undirstillingar eru í boði og tekur óratíma að venjast þeim. En undir lok þriggja daga reynslu-aksturs reyndist það ögneinfaldara.

Range Rover Velar Range Rover Velar

Mikill kostur er að miðstöð og útvarpi er hægt að stýra með eiginlegum tökkum og skrunhjólum sem gerir það að verkum að ekki er þörf á að taka augun af veginum þegar fikta þarf í algengustu stillingunum. Mælaborðið er stafrænt og er þar hægt að varpa upp leiðsögukerfinu ásamt ýmsum öðrum upplýsingum, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd, sem stýra má með tökkum á stýrinu. Þessir takkar eru sérlega fallega hannaðir og skipta um hlutverk (og útlit) við mismunandi aðstæður. Ákveðinn minimalismi einkennir stjórntækin og hafa sumir takkar, líkt og takkarnir í stýrinu, fleiri en eina virkni. T.a.m. ef þrýst er á skrunhjólið sem stýrir miðstöðinni breytist virknin í hitastillingu fyrir sætin. Þá má einnig skipta um akstursstillingar með sama hjóli. Þetta gerir það að verkum að fáir sem engir eiginlegir takkar eru í mælaborði, nema þeir sem mest þörf er á. Þá eru hurðarhúnar að utanverðu rafdrifnir og falla slétt upp að hurðum meðan ekið er, ekki ósvipað sem þekkist í Tesla-bílum.

Range Rover Velar mælaborð   Range Rover Velar mælaborð

Þægindin eru í fyrirrúmi og auðvelt er að láta bílinn nostra við sig með hituðu og loftkældu nuddsætunum, hitanum í stýrinu, akreinaaðstoðina í gangi og 825 vatta Meridian hljóðkerfið syngjandi í gegnum alla sína 17 hátalara. Að auki er plássið bara alveg eins og við má búast í bíl sem er á milli Range Rover Sport og Evoque í stærð. Farangursrýmið rúmar 673 lítra þar til aftursætin eru felld niður, þá vex rýmið upp í 1.731 lítra. Fótapláss í aftursæti var nægt fyrir 182 cm blaðamann með ökumannssætið í hans stöðu og var viðunandi axlarrými fyrir þrjá slíka hlið við hlið.

Range Rover Velar

Aksturinn er tilþrifalítill en umfram allt þægilegur þótt 240 hestafla og 500 Newton metra dísilvélinni takist að toga bílinn úr kyrrstöðu í hundraðið á 7,4 sekúndum, sem verður að teljast vel viðunandi fyrir flykkið sem vegur tæp 2 tonn. En tiltölulega lítið var látið reyna á hraða og snerpu bílsins – stemningin kallaði fremur á afslöppun. Með mjúka fjöðrun sem þessa var veltingur í beygjum að sjálfsögðu talsverður án þess þó að öryggiskenndinni yrði á einhvern hátt ógnað. Til eru sportjeppar í svipuðum stærðar- og verðflokki sem fá mann til að standa á öndinni þegar kemur að gripi í háhraðabeygjum en Range Rover Velar er ekki einn af þeim. Á hinn bóginn eru fáir lúxusjeppar í þessum flokki sem eiga roð í Velar þegar kemur að torfæruakstri. Með veghæð allt að 250 mm á loftpúðafjöðrun og hámarksvaðdýpi upp á 650 mm má auðveldlega segja að Velar býr yfir hæfileikum sem hann mun sennilega aldrei þurfa að láta að reyna á í höndum kaupenda en er gott að eiga í pokahorninu þegar bílablaðamenn þyrstir í torfæruakstur og vitleysu. Hægt er að læsa miðjudrifinu í Terrain Response 2 kerfinu, eins og það er kallað, auk þess sem sjálfvirk læsing er á afturdrifi. Þar má einnig velja ýmsar aksturstillingar sem sérsniðnar eru að malbiki, sandi, snjó, drullu og fleiri óþverra en nóg er að skilja stillinguna bara eftir á Auto og leyfa tölvunni að velja stillingu hverju sinni. Með þessa háu veghæð og snjöllu driflausnir er Velar ansi lipur og skemmtilegur í ófærum, aðeins aftrað af risavöxnu 21“ álfelgum.

Nóg er sagt um Velar í bili þrátt fyrir að nokkrar blaðsíður í viðbót þyrfti til að útskýra allan staðal- og aukabúnað sem í boði er, en sannleikurinn er sá að litlum tilgangi yrði þjónað með því. Sama hversu dýr eða ódýr bíllinn kann að þykja eða hversu skuggalegar áreiðanleikasögur eldri tíma kunna að fylgja munu kaupendur áfram flykkjast að og kaupa hvern þann bíl sem ber Range Rover merkið. Í þessu tilfelli er það vel þess virði.

Aflrás: 2,0 lítra fjögurra strokka díselvél með forþjöppu og 8 þrepa sjálfskiptingu

Afköst: 240 hestöfl / 500 Nm

Verð: Frá 13.790.000 kr. (10.390.000 fyrir Velar S D180)

Eldsneytisnotkun (skv. framleið.): 5,4 l/100 km (blandaður akstur)

Eldsneytisnotkun (raunakstur): 7,9 l/100 km (blandaður akstur)

Losun CO2: 154 g/km

Kostir:

  • Útlitshönnun
  • Innrétting
  • Torfærugeta
  • Lúxustilfinning

Ókostir:

  • Tveir flóknir skjáir

 

Róbert Már Runólfsson