Mercedes Benz C Class 2014



Nýji C-Benzinn er talsvert laglegri en fyrirrennarinn. Útlitið er fágað og tignarlegt; langt húdd og stutt skott gefa til kynna sportlegt yfirbragð. Innréttingin er hreint út sagt stórglæsileg og frábær staður til að verja tíma sínum.  Pláss fyrir farþega í aftursætum er þó af skornum skammti, sérstaklega fyrir þá sem eru rétt yfir meðalhæð, en að öðru leyti bærilegt. Afþreyingakerfi bílsins er heldur svifaseint og flókið, sérstaklega þegar tekið mið af því að markhópur bílsins er fólk á miðjum aldri með lítinn tækniþorsta. Með þolinmæðina að vopni verður kerfið þó sífellt skilvirkara.

Reynsluakstursbíllinn var drekkhlaðinn aukabúnaði, þ.á.m. radarstýrðum hraðastilli og „sjálflagningarbúnaði“. Radarstýrði hraðastillirinn (e. radar-guided cruise control) virkar þannig að ef bíllinn fyrir framan hægir á sér, þá hægir bíllinn þinn sjálfkrafa á sér og hraðar aftur þegar hinn bíllinn gerir það sama. Lagningarbúnaðurinn (e. Park Assist) virkar þannig að skynjarar í bílnum skanna bílastæði og láta ökumann vita ef slíkt er fundið. Þá er einungis þrýst á einn takka og bíllinn stýrir sér sjálfur í stæðið. Þó þarf ökumaður að stýra inngjöf og bremsu.

Umræddur bíll var af gerðinni C220 BlueTEC með 2.1 lítra dísilvél sem skilaði 170 hestöflum. Veg- og vindhljóð voru í algjöru lágmarki og auðveldlega hægt að halda uppi samræðum án þess að hækka róminn á mikilli ferð. Eldsneytiseyðsla reyndist rétt rúmir 6 lítrar á hundraðið. Þótt bíllinn tækli beygjur af mikilli færni, var í raun ekki þörf á meira afli. Helst langar manni bara að dóla á þjóðveginum og njóta þess að sitja í mjúkum leðurstólnum.

Helstu upplýsingar:

Verð: 7.480.000 (C220)

Afl: 170 hestöfl

Eldsneytiseyðsla: 4,2 l/100 km (uppgefin) / 5,9 l/100 km (rauneyðsla)

Losun CO2: 109 g/km

 

Kostir:

Gæðatilfinning

Útlit

Aksturseiginleikar

Gallar:

Margmiðlunarkerfi

Plássleysi í aftursætum