Opel Ampera-e 2019
Rafbílaflóran er sífellt að stækka og bílaframleiðendur keppast um að koma framleiðslu sinni út til neytenda. Eftirspurnin er vissulega til staðar og standa flestir framleiðendur frammi fyrir því lúxusvandamáli að anna ekki eftirspurn. Þá hefur þurft að grípa til skömmtunar og jafnvel seinka sölu á ákveðnum markaðssvæðum þar til hægt hefur verið að anna eftirspurn.
Opel Ampera-e er ágætis dæmi um fyrrnefnt „vandamál“ þar sem fyrstu bílarnir rúlluðu af færibandi undir merkjum Chevrolet í lok árs 2016. Vorið 2017 hófst síðan sala til ákveðinna landa í Evrópu og tók þar rafbílaþjóðin Noregur forystuna í sölu bílsins undir merkjum Opel. Strax í upphafi var búið að panta yfir 4000 bíla í Noregi og afhending hefur dregist allt að ár fram í tímann.
Þrátt fyrir mikinn áhuga á Ampera-e hér á landi hafði Opel umboðið ekki erindi sem erfiði, eins og mörg önnur lönd. Í júní á þessu ári var forsvarsmönnum Opel boðið til landsins þar sem þeir fengu að kynnast orkumálum og innviðauppbyggingu sem hefur farið hér fram á seinustu árum. Í kjölfarið ákváðu þeir að hefja sölu á Opel Ampera-e til landsins og komu fyrstu bílarnir hingað til lands mánuði síðar.
Að innan
Opel Amepera-e er hannaður frá grunni sem rafbíll og gefur það honum gott forskot á ýmsa aðra rafbíla á markaðnum. Ekki er gert ráð fyrir sprengihreyfli í húddinu eða bensíntanki svo að eitthvað sé nefnt og því er hægt að fullnýta allt pláss og ná fram eins góðri þyngdardreifingu og kostur er.
Öll umgengni um bílinn er sérstaklega þægileg, sætin eru í góðri hæð og setjast má beint inn og engir kantar eru í hurðarfalsi og gólfin rennislétt. Pláss fyrir farþega í aftursætum er óvenjulega gott, bæði fyrir fætur og höfuð. Heilt á litið er innréttingin þétt með þokkalegt geymslupláss. Stórir gluggar gefa létt yfirbragð og auðvelt er að sjá út. Gott hefði þó verið að hafa hæðarstillingu á öryggisbeltum.
Skottið er gott dæmi um það pláss sem hönnuðir hafa fengið þar sem ekki þurfti að gera ráð fyrir útblásturkerfi eða eldsneytistönkum. Þrátt fyrir að sjálfur skottflöturinn sé ekki ýkja stór skilar dýptin 381 lítrum í skottplássi og verður það að teljast gott miðað við bíl í þessum stærðarflokki. Með því að fella niður sætin eykst rýmið í 1274 lítra en eins og hjá mörgum öðrum rafmagnsbílum myndast umtalsverð brík og getur torveldað hleðslu á lengri hlutum.
Reynsluakstursbíllinn var Premium–útgáfa og því með flestum þeim aukabúnaði sem í boði er:leðuráklæði, hita í fram- og aftursætum og Bose hátalarakerfi svo að eitthvað sé nefnt. Upplýsingakerfi bílsins er einfalt og myndrænt. Bíllinn er ekki útbúinn leiðsögukerfi en í boði er að tengjast við kerfi bílsins um Android- og Apple-síma og nýta þannig leiðsögubúnað símans.
Að utan
Opel Ampera-E er snaggaralegur bíll með íhaldssamri hönnun þar sem ekki er farið í einhverjar framúrstefnulegar æfingar eins og stundum vill verða á rafmagnsbílum. Premium–útgáfan skartar 17 tommu álfelgum sem gera mikið fyrir bílinn.
Akstur
Það er alltaf ánægjulegt að reynsluaka bílum sem afsanna þá kenningu að „praktískir“ bílar séu leiðinlegir í akstri. Þrátt fyrir fremur stífa fjöðrun og breið dekk er bíllinn fremur hljóðlátur í akstri, mótorinn er öflugur og skilar bílnum í 100 km/klst. á aðeins 7,3 sekúndum. Rafhlöðum bílsins er dreift jafnt yfir botn bílsins og skilar það ákjósanlegri þyngdardreifingu. Í heildina skilar þessi blanda afbragðs skemmtilegum akstursbíl.
Öflug LED–framljós eru staðalbúnaður í öllum útgáfum og standa þau sig vel í þjóðvegaakstri að næturlagi. Þó þyrfti að hafa í huga að við inngjöf tekur bíllinn svo hraustlega við sér að framendinn lyftist upp og ljósin verða eins um háuljós sé að ræða. Þetta getur verið pínlegt til dæmis við framúrakstur.
Það verður ekki hjá því komist að ræða um rafmagnsbíla án þess að fara yfir drægnina en Opel Ampera-e býður upp á eina stærð af rafhlöðu sem er 60 kílóvattstundir og skilar bílnum yfir 400 kílómetra á góðum degi. Áhyggjur af drægi eru hverfandi á rafbílamarkaðnum sérstaklega þegar rafhlöðurnar eru orðnar jafn stórar og í þessum bíl og kemst bíllinn leikandi yfir nokkra daga í innanbæjarakstri án hleðslu. Vert er að benda á gagnlega reiknivél á opel.is sem sýnir á einfaldan hátt hversu mikil áhrif búnaður og akstur hefur á drægi bílsins.
Endurhleðslubremsan í Amperunni er sérstaklega þægileg þar sem hún hægir þétt á bílnum og stoppar hann alveg. Með smá æfingu er því hægt að aka innbæjar með inngjafarfetlinum einum saman.
Öryggi
Öryggi vegur sífellt þyngra þegar kemur að vali á nýjum bíl. Það voru því ákveðin vonbrigði þegar Opelinn fékk fjórar stjörnur af fimm árekstrarprófunum Euro Ncap. Þegar rýnt er nánar í niðurstöður þessara prófana stóð bíllinn sig ágætlega í prófununum sjálfum en skortur á öryggisbúnaði, eins og viðvörun fyrir aftursætisbelti og festingar fyrir barnabílstóla, virðast hafa kostað bílinn einhver stig. Hvort það hefði skilað honum fimmtu stjörnunni skal ósagt látið en flest atriðin virðast einföld og lítil fyrirstaða að bæta þeim við í framleiðsluferlinu.
Meðal búnaðar í bílnum eru árekstrarvörn, akgreinavari með hjálparstýringu, ISOfix í aftursætum, svo eitthvað sé nefnt.
Niðurstaða
Opel Ampera-e kemur skemmtilega á óvart hvað varðar rými og aksturseiginleika. Hann er auðveldur í umgengni, hentar fjölskyldum jafnt og einstaklingum. Þá gefur gott drægi tækifæri til aukinnar notkunar á landsbyggðinni, t.d. fyrir þá sem sækja vinnu eða þjónustu um lengri veg.
Þegar horft er til samkeppnisaðila í sama verðflokki er einna helst hægt að benda á skort á staðalbúnaði. Grunnútgáfa bílsins kostar rétt undir fimm milljón krónur en fyrir sexhundruð þúsund til viðbótar er hægt að hoppa í dýrustu útfærslu sem er umtalsvert betur útbúin.
Björn Kristjánsson
Opel Ampera-e
Aflrás: 150 kW rafmagnsmótor Hámarksafl: 204 hö.
Hámarkstog: 360 Nm.
Verð frá: 4.990.000 kr.
Rafhlaða: 60 kWh.
Rafmagnsnotkun (WLTP): 15,3 kWh/100km
Drægni skv. framleið.: 423 km.
Losun CO2: 0 g/km
Eiginþyngd: 1691 kg
Lengd / Breidd / Hæð (mm): 4.164 / 1.854 (án spegla) / 1.594
Veghæð (mm): 131 mm.
Kostir: Aksturseiginleikar, Rými og umgengni
Ókostir: Staðalbúnaður