Tesla Model S

Tesla Model S hafnaði í öðru sæti í flokki stærri fólksbíla í vali á Bíl ársins 2014 og hlaut alls 706 stig.

Fyrstu kynni

Frá því andartaki er þú lítur Tesla Model S fyrst augum veistu að ein heljarinnar veisla er í vændum. Lykillinn að bílnum er ekki lykill í hefðbundnum skilningi orðsins, heldur smækkuð útfærsla af bílnum sjálfum. Þegar gengið er upp að bílnum skríða hurðarhúnarnir út á móti þér og bjóða þig velkominn inn. Þegar inn er komið tekur á móti þér innra rými sem er heldur ólíkt öllu því sem á að venjast. Skortur á tökkum er algjör! Í stað þess situr í mælaborði milli sætanna  17“ snertiskjár er minnir helst á iPad. –Nema talsvert stærri. Þessi snertiskjár er aðal stjórnstöð bílsins. Ætla mætti í byrjun að einungis hinir örgustu tölvunördar gætu botnað í þessari stjórnstöð, en raunin er allt önnur. Efst á skjánum eru flýtileiðir fyrir útvarp/mp3, leiðsögukerfi, orkunotkun, netvafra (já, hví ekki?), baksýnismyndavél og síma. Neðst á skjánum eru svo miðstöðvarstillingar og flýtileið í fleiri stillingar bílsins. Kostir þessa flennistóra skjás er að hægt er að varpa upp fullkomnu korti frá Google Maps , eða til dæmis skipta skjánum til helminga með korti og baksýnismyndavél. Því er viðmótið stílhreint og auðvelt í notkun. Bíllinn er útbúinn 3G-neti og er því hægt að vafra á internetinu meðan keyrt er. Mesta furða þó er að það skuli vera löglegt, en undirritaður mælir með því að láta þann eiginleika alveg í friði meðan ekið er, nema ef farþegi stjórni því. Undir Controls er svo hægt að stýra vel flestu sem hægt er að ímynda sér. Hægt er að opna og loka aftur- og framhlera, læsa hurðum, opna sóllúguna, hækka eða lækka bílinn eftir því hvort keyrt er yfir ójöfnur í vegi eða á miklum hraða á sléttum vegi og margt, margt fleira.

Í akstri

Fyrstu viðbrigði umfram „venjulega“ bíla sem maður tekur eftir í Teslunni er hinn undarlegi skortur á hljóði. Við létta inngjöf heyrist lítið sem ekki neitt – aðeins lágvær ómur frá  dekkjunum. Sé stigið örlítið þéttar á inngjöfina (hér verður nota bene að varast að segja bensíngjöf) hljómar lágvært „humm“-hljóð frá rafmótornum, sem minnir kannski einna helst á hljóð í lyftu, en dekkjahlóð eykst einnig lítillega. Viðbrögðin leyndu sér ekki loks þegar inngjöfin var stígin í botn, en undirritaður skellti upp úr í hláturskasti, enda tilfinningin sem yfirþyrmdi mann engri lík. Hið viðstöðulausa viðbragð rafmótorsins skýtur bílnum af stað líkt og teygjubyssa. Sprengihreyflar taka sinn tíma að dæla inn bensíni í sprengihólfið, blanda saman við loftið og dæla útblæstrinum út um púströrið, en í rafmagnsbílum má helst líkja þessu við slökkvara á ljósi – aflið er annað hvort af eða á. Þessi snerpa skilar sér í mikilli hröðun, en aðeins tekur tæpar 4.5 sekúndur að knýja þennan 2.170 kg bíl frá kyrrstöðu í 100 km/klst. Reynsluakstursbíllinn var af svokallaðri Signature gerð og var útbúinn öllum mögulegum búnaði, en helst ber þar að nefna 85 kílóvatt-stunda Performance Plus batterípakkann. Skv. framleiðanda er fræðilegt drægi um 450km og hámarkshraði 210km/klst. Bíllinn lætur vel að stjórn á miklum hraða og vekur samhliða hraðaaukningu sjálfstraust ökumanns og traust á bílnum, sem höndlar beygjur líkt og langt um léttari bíll. Teslan fékk svo heldur betur að finna fyrir því af hálfu bílablaðamanna á Kvartmílubrautinni í lokaprófunum, en þegar hraðinn var skuggalega nálægt öðru hundraðinu var stöðugleikinn, enn sem áður, algjör. Ef eitthvað má setja út á bílinn í akstri er það að nokkur ókyrrð myndast í samskeitum topplúgunnar og skapar því nokkurn hávaða vegna vindsins á miklum hraða. Til stendur hins vegar að hanna einhvers konar „sokk“ eða hljóðeinangrandi hulsu sem á að klæða innan á topplúguna, eigendum að kostnaðarlausu.

14“ Brembo bremsurnar reyndust einnig ansi aflmiklar, en skv. prófunum erlendra bílablaðamanna á ekki að taka nema 33 metra fyrir bílinn að staðnæmast frá 100 km hraða á klukkustund. Loftpúðafjöðrunin í bílnum er stillanleg, bæði hvað varðar stífni og veghæð, en við líflegar og krefjandi aðstæður, líkt og í keilusvigi á Kvartmílubrautinni, hélst bíllinn svo gott sem flatur og ávallt undir stjórn. Sé hins vegar dólað í miðbæjarumferð mýkist allt og aksturinn verður hinn þægilegasti.

Rými

Þegar Tesla Model S er fyrst barinn augum er erfitt að átta sig á hvort hann líti út eins og sportbíll eða fernra dyra lúxuskerra. Sannleikurinn er sá að bíllinn er blanda af því tvennu, en með rými á við stóran fjölskyldubíl og gott betur en það! Byrjum fremst: Þar sem engin vél er í „nefi“ bílsins er þar pláss fyrir farangur. Framleiðandinn nefnir það pláss Frunk (stytting á Front-trunk) og mætti því íslenska það sem Frott (þ.e. Fram-skott). Ætla mætti að sú geymsla væri í besta falli á stærð við hanskahólf, en það gæti ekki verið fjær raunveruleikanum. Í raun rúmar frottið heila 750 lítra. Akstursstaða ökumanns er óaðfinnanleg, stillingar auðveldar og sætin góð að mestu leyti – þó mættu þau veita örlítið meiri hliðarstuðning, en í kröppum beygjum er hætt við að kastast of mikið til í stólnum. Milli framsætanna er stórt, autt rými og má geyma þar enn meiri farangur, en til stendur að hanna miðjustokk með geymsluhólfum milli sætanna og mun verða selt í seinni útfærslum bílsins. Aftursætin rúma nokkuð ágætlega tvo fullvaxna farþega, en um leið og sá þriðji mætir í miðjuna er rýmið takmarkað í meira lagi. Ekki er pláss fyrir axlir allra farþega og verður ferðin því heldur óþægileg fyrir vikið. Ennfremur eru höfuðpúðarnir það lágir að þeir ná engum meðalmanni upp að höfði eins og þeim er ætlað að gera. Skottið afturí er svo aftur á móti talsvert rúmgott, eða tæpir 740 lítrar með aftursætin í uppréttri stöðu. Reynslubíllinn var útbúinn þriðju sætaröð í skotti og rúmar tvö börn allt að 10 ára gömul. Efnisval í innra rými bílsins er til fyrirmyndar, en notast er við hágæða leður, ál- og viðarinnréttingu ásamt koltrefjum hér og þar.

Verð

Grunnverð fyrir Tesla Model S með minni, 60Kwh, batterípakkann án aukahluta kostar frá 11.800.000 kr, en fyrir þann pening fæst ekki eins mikil hröðun eða drægi eins og í reynsluakstursbílnum.  Drægið um 370km og hröðunin frá 0-100km/klst tekur um 6 sekúndur, en aflið er 302 hestöfl. Reynsluakstursbíllinn var aftur á móti af dýrustu sort, með stærri batterípakkann, skilaði 416 hestöflum og með alla fáanlega aukahluti. Skemmst er að segja frá því að þann lista tæki nokkrar blaðsíður að útlista og er því mælst með að áhugasamir heimsæki heimasíðu Tesla (www.teslamotors.com) og kynni sér aukahlutina. Verðið var því komið vel yfir 20 milljónir, án þess að hafa fengið uppgefna nákvæma tölu.

Að lokum

Það eru þvílík forréttindi að fá að reynsluaka bíl eins og Tesla Model S. Hann vekur athygli hvar sem er og munu eigendur þurfa að gera ráð fyrir góðum aukatíma á ferðalögum sínum sem fer í að ræða um bílinn við almenning. Efasemdir um farsælni rafbíla fara þverrandi og við tekur tilhlökkun um hvað framtíð þeirra ber í skauti sér.

 

 

Kostir

Aksturseiginleikar

Fegurð

Rekstrarkostnaður

Farangursrými

Ókostir

Höfuðrými í aftursætum

Pláss fyrir þrjá farþega í aftursætum

Vindhljóð í topplúgu