Peugeot 3008 Allure 1,6 BlueHdi

 Peugeot 3008

 

Bíll ársins á Íslandi 2018 – Peugeot 3008

Á haustmánuðum 2017 var Peugeot 3008 valinn bíll ársins á Íslandi og hreppti í laun hið eftirsótta Stálstýri. Líkt og fyrri ár stóð Bandalag íslenskra bílablaðamanna, BÍBB, fyrir valinu. Þá hafði bíllinn nýlega hlotið titilinn „Bíll ársins í Evrópu“ sem valinn var af evrópskum bílablaðamönnum. Segja má með sanni að Peugeot sé að gera gott mót með sinni nýju kynslóð af bílum því 308 bíll þeirra vann einmtt Stálstýrið fyrir þremur árum, þegar hann kom á markað.

Nýir tímar

Meginþema hins nýja 3008 er umfram allt framfarir. Fyrirrennarinn var einkar furðulegur í útliti og erfitt að staðsetja í stærðarflokki og markhópi, en var þó hinn ágætasti bíll. Ákveðnara og herðabreiðara útlit einkennir hinn nýja og gefur til kynna að hér sé alvörugefinn bíll á ferð. Maður staldrar þó aðeins við og hugleiðir þegar kemur í ljós að bíllinn er einungis fáanlegur með framhjóladrifi. Markaðsdeild Peugeot gerir sér grein fyrir að þó almenningur vilji útlit og þægindi jeppa, er þörfin fyrir utanvegaakstur nær engin. Því er hægt að spara pening í framleiðslu með því að sleppa tveimur mismunadrifum, drifsköftum og tilheyrandi búnaði og samt selja ímyndina. Til að vega á móti fjórhjóladrifsleysi eru heilir 220 mm frá vegi upp í lægsta punkt undirvagnsins, sem er með því betra sem sést meðal keppinauta og ætti því slyddulagt malbik og illa grýttar heimreiðir sumarbústaða að reynast lítil fyrirstaða.

Að innan

Að innan fara hlutirnir að gerast af alvöru og kemur einna helst fram þar hvers vegna Peugeot 3008 hreppti hnossið. Innanhússarkitektateymi Peugeot á þar lof skilið fyrir gjörsamlega nýja sýn á hvernig innrétting bíla megi líta út. Hár miðjustokkur aðgreinir ökumann og farþega og takkaborð og stjórntæki snúa að ökumanninum til að auðvelda notkun. Stýrið er smátt að ummáli, líkt og í 308, og lætur bílinn virðast minni og liprari en hann í raun og veru er í akstri. Mælaborðið, sem í þessu tilfelli er stafrænt, situr fyrir ofan stýrið og er ávallt auðsjáanlegt, óháð hæð ökumanns eða stýris. Takkarnir undir margmiðlunarskjánum líkjast flipum í stjórnklefa flugvélar og eru þægilegir í notkun. Í stað hefðbundinnar blöndu plasts, leðurs og gervileðurs í innréttingunni má finna tauklæðningu sem minnir einna helst á ullarblöndu. Restin af innréttingunni er þakin áferðarmjúku, gúmmíkenndu plasti sem er þægilegt viðkomu og  plasti sem tekst sæmilega að dulbúa sig sem burstað ál. Neðar í innréttingunni fer að kræla á harðara, ódýrara plasti sem dregur nokkuð úr gæðatilfinningunni. Margmiðlunarkerfið er nokkuð sambærilegt öðrum kerfum í notkun, en líður fyrir það að fela miðstöðvarstillingar þar inni fremur en á eiginlegum tökkum og skrunhjólum, sem undirritaður kýs fremur í öllum tilfellum, enda aðgerð sem á helst að vera framkvæmanleg án þess að taka augun af veginum. Þá verður að teljast vonbrigði að einungis er hægt að fá leiðsögukerfi í dýrustu útfærslu bílsins. MirrorLink, Apple Car Play og Android farsímatenging er þó staðalbúnaður í flestum útfærslum og ættu eigendur tiltölulega nýrra snjallsíma að geta auðveldlega miðlað síma sínum og korti í gengum kerfið.

Peugeot 3008 innra rými Peugeot 3008 innra rými
   

Í aftursætunum er gott rými fyrir farþega og, þökk sé hærri þaklínu og betri nýtingu á plássi, höfuð- og fótarými meira en í fyrirrennaranum. Einnig eru afturhurðir stórar og aðgengi inn um þær hið ágætasta. Þá er gólfið flatt í aftari sætaröð sem eykur þægindi miðjusætisfarþega til muna. Flata gólfið kemur vissulega á kostnað fjórhjóladrifsins, enda ekkert drfiskaft og mismunadrif sem liggur undir miðjum bílnum. Það sem þótti miður í aftursætunum var að hvorki væri hægt að halla þeim aftur né renna þeim fram og aftur, líkt og hægt er í flestum keppinautum í dag.

Skottið rúmar alls 591 lítra, en þegar aftursætin eru felld niður með auðveldu handtaki stækkar farangursrýmið upp í 1670 lítra. Gólfið er flatt og án þröskulds sem gerir lestun vel bærilega.

Í akstri

Reynsluakstursbíllinn var í Allure útfærslu með sjálfskiptingu og 1,6 lítra dísilvél. Aksturseiginleikarnir eru fyrirsjáanlegir og telst það til hróss fyrir þessa gerð af fólksbíl, enda eru ómenguð akstursánægja og sportlegir eiginleikar ekki uppi á borðinu. 1,6 lítra BlueHdi dísilvélin í reynsluakstursbílnum skilaði 120 hestöflum og 300 Nm af togi og reyndist vinnslan í henni ásættanleg, en eldsneytisnoktunin, hins vegar, ánægjulega lág. Þótt hið áðurnefnda smáa stýri fangar örlítið af akstursánægjunni til baka er það ansi létt og tilfinning fyrir veginum takmörkuð, enda rafstýrt fremur en vökvastýrt. Bíllinn er stinnur og þéttur og lætur ekki bilbug á sér finna í daglegum akstri. Hljóðeinangrun er góð og því auðvelt að ferðast klukkustundum saman án teljandi þreytu. Útsýni er að vísu ögn takmarkað framhjá þykkum A-póstum og stórkostlega takmarkað út um afturrúðu, óháð því hvort höfuðpúðar aftursæta séu uppi eða niðri. Loks koma allar útfærslur útbúnar hraðastilli með hraðaaðlögun (e. Adaptive Cruise Control), ökumannsvaka (e. Driver Alert) og veglínuskynjurum (e. Lane Departure Warning) sem er sérlega jákvætt og mikil búbót fyrir öryggi bílsins og vonandi tilheyrandi lækkun á tryggingaiðgjöldum.

Að lokum

Þegar allir þættir eru teknir saman er Peugeot 3008 vel að sigri sínum kominn. Samkeppnin er hörð og er sannarlega erfitt að finna slæman bíl á markaðnum í dag. En á meðan keppinautarnir keppast um að apa hver eftir öðrum hafnar Peugeot 3008 norminu, fer sínar eigin leiðir og hlýtur að launum Stálstýrið.

Peugeot 3008

 

Helstu upplýsingar – Peugeot 3008 Allure 1,6 BlueHdi:

Verð: 4.390.000 kr

Afköst vélar: 120 hestöfl, 300 Nm

Eldsneytisnotkun skv. framleiðanda / rauneyðsla: 4,2 l/100 km / 6,3 l/100 km

Losun CO2: 108 g/km

 

Kostir:

  • Framúrstefnuleg hönnun
  • Efnisnotkun innra byrðis
  • Sparneytni
  • Rými farþega og farangurs

Ókostir:

  • Skortur á fjórhjóladrifi
  • Skortur á leiðsögukerfi
  • Takmarkað útsýni að aftan