Porsche Road Show

Fimmtudagskvöldið 18. júní barst mér símtal frá Bílabúð Benna þar sem ég var spurður hvort ég hefði áhuga á að prófa tvo nýja Porsche á nýju akstursbrautinni í Hafnarfirði. Eftir stysta umhugsunartíma sögunnar var svarið mitt jákvætt. Tilefnið var kynningartúr Porsche um Evrópu sem ber nafnið Porsche Road Show, en viðburðurinn hefur ekki verið haldinn á Íslandi síðan árið 2000. Föstudagurinn gekk í garð og stuttu eftir hádegi var ég mættur upp á Kvartmílubrautina þar sem á móti mér tóku háværir söngvar flatra boxer - 6 strokka véla, gamalla sem nýrra, loftkældra sem vatnskældra, en þá voru nokkrir Porsche - eigendur að koma sér á brott í sínum bílum eftir að hafa fengið að taka í nýju kynningarbílana.

Kynningarbílarnir tveir voru fluttir inn til landsins sérstaklega fyrir þennan viðburð og skörtuðu báðir þýskum númeraplötum frá Stuttgart, heimaborg Porsche. Fyrri bíllinn sem prófaður var af gerðinni 911 Targa 4S. Targa nafnið hefur verið viðloðandi 911 bíla frá árinu 1967 og dregur nafn sitt frá götukappakstrinum Targa Florio á Ítalíu sem haldinn var frá árinu 1906 til 1977 sem Porsche vann alls 11 sinnum. Þeir bílar sem bera Targa nafnið einkennast af fjarlægjanlegu þaki en með afturrúðuna fasta á sínum stað, nema í stað þess að fjarlægja þakið með höndunum líkt og í gamla daga sér nú fallegur, mekanískur ballett um verkið sjálfvirkt. Vélin, sem eins og sönnum 911 sæmir situr fyrir ofan afturhjólin, er 3,8 lítra 6 strokka boxer vél sem skilar 400 hestöflum til allra fjögurra hjólanna í gegnum hinn leiftursnögga og bráðsnjalla tveggja-kúplinga PDK gírkassa (sem stendur fyrir Porsche Doppelkupplungsgetriebe fyrir ykkur þýskumælandi lesendur). Téður þakmekanismi, gírkassi og fjórhjóladrif hafa að vísu aukna vigt í för með sér, eða heil 195 kg umfram grunnútfærslu 911 Carrera S með beinsiptingu og afturhjóladrif. Heildarþyngd er því alls um 1.575 kg.

Seinni bíllinn var af gerðinni Boxster GTS, sem er í raun sportlegri gerð af Boxster S blæjubílnum, með 15 auka hestöfl og 10 auka Nm af togi og því samanlagt 330 hestöfl og 370 Nm af togi úr 3,4 lítra 6 strokka boxer vél sem situr í miðjum bílnum. Sams konar PDK gírkassi og í 911 bílnum var í Boxsternum en hann sendir allt aflið til afturhjólanna. Einnig kemur bíllinn með sportsæti, 20” álfelgur, Sport Chrono pakka og Porsche Active Suspension Management sem staðalbúnað. Þessi litli, tveggja sæta sportbíll vegur aðeins um 1.375 kg. Báðir bílar skila sér frá kyrrstöðu í 100 km/klst á um 4,4 sekúndum.

Það sem vakti mikla undrun hjá mér var að ég var eini blaðamaðurinn sem mætti á mínum tilgreinda tíma og fékk ég því frábæra sérmeðferð og einkakennslu. Með bílunum í för var ökukennari að nafni Bjørn á vegum Porsche í Danmörku sem sá um að kenna reynsluökumönnum undirstöðuatriðin í brautarakstri og að gera sér almennilega grein fyrir mismunandi eðli fjórhjóladrifins bíls með vélina afturí og afturdrifins bíls með vélina í miðjunni. Fyrst ók hann mér um í bílunum á ógnarhraða um brautina og útskýrði á meðan af mikilli lagni, yfirvegun og stóískri ró öll smáatriði sem við vorum að upplifa á ágætis ensku, þó með rótsterkum dönskum hreim. Loks skiptum við Bjørn um sæti og ég ók af stað. Hann hvatti mig í sífellu að fara hraðar og hraðar og finna fyrir takmörkum grips í rasskinnunum í gegnum sætið og í fingurgómunum í gegnum stýrið. Klisljan segir að maður og maskína eigi að verða eitt - það átti svo sannarlega við þennan eftirmiðdag. Eftir því sem leið á aksturinn, hiti kom í dekkin og sjálfstraust í ökumanninn fann maður fyrir sífellt meiri virðingu fyrir tækjunum. Hinn fjórhjóladrifni og þyngri 911 var rásfastur stöðugleikinn uppmálaður og gjörsamlega límdur við malbikið á meðan hinn léttari Boxster var mun lausari en liprari á sama tíma. Þótt afturendinn á Boxsternum byrjaði aðeins að losna í beygjunum fann maður ávallt að maður hafði stjórnina og gat leiðrétt hvers kyns skrið sem hann ætlaði að koma sér í. Hversu hratt sem ég persónulega treysti mér í beygjurnar áttu báðir bílarnir alltaf síðasta orðið og gáfu skýrt til kynna að ég væri langt frá takmörkum þeirra. Ég reyndi eftir bestu getu að herma eftir Bjørn og vonaðist til þess að hann skyldi undra sig á því hvers vegna í ósköpunum ég væri ekki ökumaður í Formúlu 1. Hann hefur sennilega gleymt því…

Að loknum brautarakstrinum ók ég 911 bílnum inn í Hafnarfjörð þar sem keypt var bensín á bílana. Þar kom sérstaklega á óvart hve þýður og auðveldur bíllinn var í almennri umferð; fjöðrun þægileg, þó nokkuð stíf, útsýni hið ágætasta og að sjálfsögðu hin dásamlega tónlist frá útblástursrörunum sem kórónaði aksturinn með þakið niðri þennan sumardag. Að því loknu kom næsti hópur Porsche eigenda og var þá haldinn fyrirlestur um viðburðinn og bílana áður en þeir fengu að taka þá til kostanna.

 

Auðvitað er erfitt að réttlæta kaup á svona sérhæfðum draumabílum á Íslandi, en eftir að hafa fengið að prófa þá í sínu náttúrulega umhverfi, þ.e. á kappakstursbraut, fékk maður í það minnsta smá skilning á því hvers vegna hægt er að rukka svona mikið fyrir svona bíla. Ennfremur mætti kalla þennan akstur eina bestu forvörn gegn hraðakstri á almennum götum á almennum fólksbílum, því eftir þessa þeysireið hafði ég enga löngun til að reyna á takmörk bílsins míns eða umhverfisins.

Þar sem þessir bílar eru ekki beint til sölu á Íslandi var ekki hægt að fá nákvæm verð á þá, en þó má gera ráð fyrir að Boxsterinn myndi kosta í kringum 16 - 17 milljónir á meðan 911 færi á rúmar 30 milljónir.

Að lokum vil ég óska Kvartmíluklúbbnum til hamingju með það sem komið er af nýju brautinni. Það verður spennandi að sjá hana fullgerða og vonandi koma fleiri brautir í kjölfarið. Einnig þakka ég Bílabúð Benna kærlega fyrir boðið og þennan fróðlega og skemmtilega dag.

 

-       Róbert Már Runólfsson