Chevrolet Orlando 2013


Fjölnotabílar hafa kannski ekki verið heitasta söluvaran á íslenskum bílamarkaði fram til þessa en ávallt munu einhverjir bílkaupendur með stórar fjölskyldur þurfa á slíkum bílum að halda og kynna sér það sem er á boðstólum. Sumir kalla þessa gerð bíla strumpastrætó því oft er megintilgangurinn flutningur á minni gerð farþega á milli heimilis og skóla eða til íþróttaæfinga þótt notkunarsviðið sé mun breiðara en svo. Chevrolet býður fram athyglisverðan sjö sæta bíl í þessum flokki sem heitir Orlando og uppfyllir hann alla þá staðla sem gerðir eru til fjölnotabíla og gott betur.

Áherslan í fjölnotabílum er á innanrýmið og notkunarmöguleikana, hvort sem þeir eru til þess að flytja allt að sjö manns á milli staða eða stóra hluti með því að fella niður sætisbök. Áherslan er mun síður á sportlega aksturseiginleika eða lúxusinnréttingar. Það er sem sagt notagildið sem hefur verið ráðandi við hönnun þessarar gerðar bíla. Orlando sker sig þó nokkuð frá fjöldanum hvað þetta varðar.

Rennileg hliðarlína

Orlando er tæpir 4,7 metrar á lengd. Það sem einkennir hann að utan er sterkur framsvipur með stóru grilli, trapísulögðum framljósum og þokuljósum neðst á stuðaranum, há axlalína og bogadregin þaklína ásamt fremur lágum hliðargluggum. Framrúðan er hins vegar stór og afturhallandi og þetta ásamt stórum og verklegum hliðarspeglum gera hann stæðilegan og jafnvel dálítið rennilegan ásýndum.

Innanrými í fjölnotabílum er það sem skiptir hvað mestu máli og þar hefur Chevrolet farið bil beggja; bíllinn er með laglega innréttingu þótt engan sérstakan lúxus sé að finna í innanrýminu. Breiður, svartlakkaður listi lífgar upp á mælaborðið og stjórnrofar eru allir skýrt uppsettir ef undanskilinn er rofinn fyrir ESP-kerfið, sem er of langt frá ökumanninum. Það kemur þó ekki að sök því almennt eru menn ekki mikið að fikta í stöðugleikastýringunni og affarasælast að hafa hana bara virka.

Góð nýting á innanrými

Stjórnborðið fyrir hljómtækin býr yfir mjög sniðugri hönnunarlausn því það er opnanlegt og innan þess er ágætt geymsluhólf fyrir smærri hluti. Þetta er dæmi um þá nýtni á innanrýminu sem Orlando býr yfir og nýtist farþegum vel.

Sætin eru klædd sterku tauáklæði sem er auðvelt í þrifum, sem skiptir máli þegar farþegarnir eru kannski ungir að árum og þurfa að næra sig á milli áfangastaða með tilheyrandi niðurhellingum. Ágætis aðgengi er að þriðju sætaröðinni en þegar hún er niðurfelld er gólfið flatt með heilum 856 lítrum í flutningsrými sem verður að tæpum 1.600 lítrum sé miðjusætaröðin líka felld niður. Bíllinn gagnast því einnig til að flytja fyrirferðamikla hluti þegar svo ber við.

Orlando kemur með leðurklæddu fjölaðgerðastýri með stillingum fyrir hljómtæki og hraðastilli en í armi vinstra megin við stýrið eru stillingar fyrir aksturstölvuna þar sem m.a. er hægt að fylgjast með rauneyðslu og meðaleyðslu.

Sprækur með dísilvélinni

Bíllinn kemur í þremur útfærslum, þ.e. LT+, LTZ og LTZ+. Við prófuðum hann í LTZ útfærslunni með 2ja lítra dísilvél og sex þrepa sjálfskiptingu.

Og þá erum við eiginlega komin að kjarna málsins því undirritaður hefur ekki áður komist í tæri við skemmtilegri dísilvél í langan tíma. Þessi tveggja lítra, fjögurra strokka vél skilar heilum 163 hestöflum og það sem meira er þá er togið 360 Nm alveg frá 2.000 snúningum á mínútu. Vélin gefur bílnum snarpara viðbragð en menn eiga að venjast í bílum af þessari gerð og þrátt fyrir innbyggða spólvörn og stöðugleikastýringu vildi hann helst reyna að spóla af stað ef stigið er of greitt á inngjöfina. Vinnslan er feykilega fín á öllu snúningssviðinu og fyrir vikið er Orlando eiginlega orðinn með sportlegri fjölnotabílum, (sem er í eðli sínu eiginlega þversögn), á markaðnum. Sex þrepa sjálfskiptingin er hnökralaus og vel aðlöguð vélaraflinu. Það kemur svo ekki að sök að þrátt fyrir mikið afl er bíllinn talsvert spar á eldsneytið. Í reynsluakstrinum, sem fór fram innan borgarinnar, sýndi hann eyðslu upp á 7,5 lítra á hundraðið.

Þetta er með skemmtilegri akstursbílum í flokki almennra fólksbíla sem rekið hafa á fjörur undirritaðs lengi. Það er ekki slæmt að hafa yfir öllu þessu rými að ráða og fjölbreyttum notkunarmöguleikum en um leið bíl með jafn mikilli svörun og fyrirtaks aksturseiginleikum.

Orlando LTZ með sinni öflugu dísilvél og sjálfskiptingu kostar innan við 5 milljónir króna, 4.990.000 kr. nákvæmlega, og er talsvert vel búinn. Meðal staðalbúnaðar má nefna stöðugleikastýringu og spólvarnarkerfi, tölvustýrða miðstöð og loftkælingu, hita í framsætum, nálægðarskynjara að aftan, aksturstölvu, sjö sæti, hraðastilli, regnskynjara, 17 tommu álfelgur og margt fleira.

Chevrolet Orlando er skemmtileg viðbót í fjölnotabílaflóruna og á eflaust eftir að falla vel í kramið fyrir hátt notkunargildi, aflmikla vél og fyrirtaks aksturseiginleika.

Tölur

Vél:       4 strokkar, 1.991 rsm.

Afl:        163 hestöfl.

Tog:      360 Nm við 2.000 sn./mín.

Lengd:  4.652 mm.

Breidd:  1.836 mm (án spegla).

Hæð:    1.625 mm.

Farangursrými: 458/856/1.594 lítrar.

Eigin þyngd: 1.659 kg.

Verð: 3.990.000 – 5.290.000

Verð reynsluakstursbíls: 4.890.000

 

      -Guðjón Guðmundsson.