Kia Stinger GT

Kia Stinger er nýr fernra dyra sportbíll sem ætlað er að etja kappi við sportlega lúxusbíla, m.a. frá Mercedes Benz, BMW og Audi. Skrefið er stórt fyrir Kia sem hingað til hefur nær einungis lagt áherslu á hagkvæma og ódýra fjölskyldubíla. Til að tryggja að frumraun framleiðandans í þessum flokki eigi erindi í þessa samkeppni var Albert Bierman, fyrrverandi varaforseti verkfræði- og tæknisviðs M-deildar BMW, ráðinn í stöðu tæknistjóra Stinger verkefnisins.

Bíllinn er fáanlegur í tveimur útfærslum hér á Íslandi, GT-Line með forþjappaðri 200 hestafla 2,2 lítra, fjögurra strokka dísilvél annars vegar og GT með tvíforþjappaðri 370 hestafla 3,3 lítra V6 bensínvél. Báðar útfærslur koma með átta þrepa sjálfskiptingu og fjórhjóladrifi. Reynsluakstursbíllinn kom í síðarnefndri GT útfærslu.

 

Kia Stinger

 

 


Stingerinn hefur hlotið mikið lof fyrir hönnun og útlit. Hann er sport- og kraftalegur en heldur þó bersýnilega ættarsvip Kia. Þó að matið sé vissulega huglægt er afturendinn torkennilegur að mati undirritaðs og bremsuljósin, sem teygja sig fram eftir afturbrettunum, eru sér í lagi miður falleg.
Líkt og venjan hefur verið í Kia-bílum hingað til er Stingerinn drekkhlaðinn búnaði. Lyklalaust aðgengi, 360° myndavél, 8“ snertiskjár með leiðsögutæki, 7“ LCD skjár í mælaborði, rafstýrð Nappa-leðursæti með hita og loftkælingu, hiti í stýri, sóllúga, akreinavari með aðstoð og radarstýrður hraðastillir eru dæmi um staðalbúnað í GT-bílnum og er því lítið af aukabúnaði í boði.

Innrarými

Rýmið í bílnum er með ágætum, jafnvel þegar litið er til skáhallandi þaklínu yfir aftursætum. Sætin eru þægileg, veita góðan stuðning og fer vel um fjóra fullorðna um borð. Fótapláss er rúmt en há gluggalína skerðir nokkuð útsýni aftursætisfarþega og stækkar um leið blindpunkt ökumanns. Farangursrýmið kom ánægjulega á óvart en vegna þess að bíllinn er hlaðbakur, ekki stallbakur eins og ætla mætti við fyrstu sýn, er plássið feiknastórt – heilir 406 lítrar. Að auki má fella niður aftursætin og stækkar plássið þá upp í vart trúanlega 1.114 lítra.

 

Kia Stinger

 

 

Þegar hér er komið sögu virðist Kia Stinger gjörsamlega hafa slegið í gegn. Því miður liggur þó leiðin niður á við héðan í frá. Í fyrsta lagi má nefna yfirdrifin og óþörf stílbrigði ytra byrðis, gerviloftinntök í stuðara og á vélarhlíf auk gerviloftúttaka í afturbretti eru smekklaus og með öllu gagnslaus. Í öðru lagi má nefna hvítu leðursætin sem eftir aðeins rúma 5.600 km í reynsluakstursbílnum voru strax farin að sýna álagsmerki með krumpum og tilvonandi sliti ásamt greinilegum „gallabuxnabláma“. Þótt urmull staðalbúnaðar kunni að laða kaupendur að var tilfinningin sú að hluti búnaðarins væri fenginn frá lægstbjóðanda. Upplausnin í 360° myndavélinni reyndist ekki á pari við keppinauta auk þess sem akreinavarinn og -aðstoðin sendu bílinn milli veglína, líkt og um borðtenniskúlu væri að ræða, fremur en beint í miðjuna.

 

Kia Stinger innrarými

 

 

Aksturseiginleikar

Næst víkur sögunni að akstrinum. Stingerinn er óneitanlega býsna kraftmikill og snöggur – stuttar 4,9 sekúndur úr kyrrstöðu í 100 km/klst. Fyrir fjórhjóladrifinn bíl með 370 hestafla V6 vél er sá tími kannski ekki eins magnaður og í fyrstu mætti halda. Átta þrepa sjálfskiptingin er sæmileg í besta falli og nær aldrei almennilega að halda í við aflið frá vélinni með heldur seinum skiptingum. Sömuleiðis mátti búast við betri hemlun frá þessum annars glæsilegu, rándýru 18“ Brembo bremsudiskum að framan og aftan með rauðu klossana.

 

Kia Stinger innrarými

 


Við krefjandi akstur á Kvartmílu-brautinni passaði hemlunargetan ekki við sterka hröðun bílsins og þurfti því að hemla talsvert fyrr en búist var við. Þó var tilfinningin og virknin í gegnum bremsupedalann ansi línuleg og góð. Í gegnum beygjurnar á almennum vegum var bíllinn þýður og hélt veltingi í minna lagi. Hefðbundin MacPherson-framfjöðrun og fimm arma afturfjöðrun stóðu plikt sína með rafstýrða, stillanlega dempara. Við meiri átök á brautinni fór undirstýring að láta á sér kræla sem breyttist í yfirstýringu við snöggar hraða- og stefnubreytingar.

Alla þessa annmarka má rekja til eins sökudólgs, sem jafnframt er höfuðóvinur líflegra aksturseiginleika, skammarlegrar yfirvigtar. Með eigin-þyngd upp á heil 1.896 kg er lítil furða að vonbrigðin komi í ljós og breytir litlu hversu vel stillta fjöðrun og fínar bremsur bíllinn hefur. Samanborið við fjórhjóladrifna lúxusbíla með svipaða getu á borð við Mercedes Benz C400 4MATIC, E450 4MATIC og BMW 540i xDrive er Stinger þyngstur allra.
Alla fyrrnefnda vankanta mætti fyrirgefa upp að vissu marki væri verðið samkeppnishæft og rúmlega það. Sú er því miður alls ekki raunin. Því er ekki hægt að neita að orðstír Kia merkisins er alls ekki sá sami og hjá þýsku lúxusbílaframleiðendunum og kemst fyrirtækið því ekki upp með að verðleggja merkið sjálft eins hátt.

 

Kia Stinger innrarými

 

Grunnverð dísilbílsins upp á 8.390.777 kr og bensínbílsins upp á 10.490.777 kr eru gjörsamlega galin og sér í lagi í samanburði við keppinauta fáanlegra bifreiða á Íslandi. Ekki dugir að skýla sér á bak við mikið magn staðalbúnaðar og afl bensínbílsins, því að gæði búnaðar og yfirvigtin draga hann þar rakleiðis niður. Sérstaklega er þetta sérkennileg verðlagning í ljósi þess að í sama húsi og Stingerinn er seldur, þ.e. hjá Bílaumboðinu Öskju, er hægt að kaupa Mercedes Benz á svipuðu verði. Meðfylgjandi er tafla yfir þá sportlegu lúxusbíla sem höfundur telur samanburðaræfa við Kia Stinger og eru verðin fengin frá verðlistum viðeigandi umboða þegar greinin er skrifuð, í október 2018.

 

Kia Stinger innrarými

 

 

Kia Stinger er alls ekki slæmur bíll. Þvert á móti er hann skemmtilegt leiktæki og hagkvæmur fólksbíll sem undirritaður hafði beðið eftir með mikilli eftirvængu. Með þennan verðmiða missir hann því miður algjörlega marks. Því er bara að bíða og vonast eftir ódýrum, notuðum Stingerum eftir nokkur ár.

Róbert Már Runólfsson, 2018

Kia Stinger Samanburður

KIA Stingar GT
 
Kostir: Afl, hagkvæmni innra byrðis, magn staðalbúnaðar
Ókostir: Hátt verð, mikil þyngd, gervileg og gagnslaus stílbrigði ytra byrðis
 
Aflrás: 3,3 lítra sex strokka bensínvél með tveimur forþjöppum og 8 þrepa sjálfskiptingu
Afköst: 370 hestöfl / 510 Nm
Verð: 10.690.777 kr.
Eldsneytisnotkun (skv. framleiðanda): 10,6 l/100 km (blandaður akstur)
Eldsneytisnotkun (raunakstur): 14,3 l/100 km (blandaður akstur)
Losun CO2: 244 g/km