Renault Talisman 2016


BÍLL ÁRSINS Á ÍSLANDI 2017
RENAULT TALISMAN

Renault Talisman er bíll ársins 2017 á Íslandi að mati Bandalags íslenskra bílablaðamanna (BÍBB). Dómarar hrifust af lágu grunnverði, ríkulegum staðal- og aukabúnaði, sparneytni, útliti, mjúkum aksturseiginleikum... Já, í raun bara öllu. Fyrir þá sem ekki þekkja Talisman þá er þetta ný tegund frá Renault sem leysir hinn þjóðþekkta Laguna af hólmi. Bíllinn er afar fagur ásýndum og gerði Cosmos-blái liturinn á reynsluakstursbílnum gæfumuninn. Hann kom í dýrustu Dynamic útfærslunni, sjálfskiptur með 1600 cc dísilvél sem skilar 160 hestöflum og 380 Nm af togi. Notandi stýrir nýjustu útfærslu R-Link kerfisins með 8,7“ snertiskjá sem inniheldur meðal annars leiðsögukerfi með Íslandskorti. Skjárinn er þægilegur í notkun og eru flestar skipanir auðfundnar og auðframkvæmanlegar. Þá er einnig að finna í bílnum akreinavaravara og vegaskiltisnema sem staðalbúnað í ódýrari útfærslum og bakkmyndavél og bílastæðaaðstoð í þeim dýrari. Erfitt er að fjalla um Talisman án þess að minnast á mögulega besta búnaðinn sem er að finna í Dynamic útfærslunni, la pièce de résistance; nudd í framsætum! Hægt er að velja um þrjár gerðir af nuddi og ofan á það má stilla styrk og hraða nuddsins. Búnaður sem þessi er alveg ómissandi eftir að hafa komist í tæri við hann, hvort sem það er á löngum ferðalögum eða einfaldlega það að sitja í umferðarteppu á Kringlumýrarbrautinni. Þá þarf að leita í a.m.k. þrefalt dýrari lúxusbíla til að finna sambærilegan búnað. Á meðan reynsluakstri stóð var ekið upp í Hvalfjörð og hamborgari snæddur í Ferstikluskálanum. Að því loknu var snúið við og ekið aftur til Reykjavíkur með nudd í bakinu allan tímann og vildi maður helst ekki fara úr bílnum þegar heim var komið.
Renault fór heldur djarfa leið með Talisman að því leyti að leggja áherslu á þægindi í akstri fremur en sportleika. Fjöðrun er mjúk og rennur bíllinn sem búðingur yfir malbikið án þess að gera of mikið mál úr því. Aflið er sæmilegt, en þar sem akstursupplifunin er svo afslöppuð finnur ökumaður síður þörf til að gefa í og láta reyna á þolmörk dekkjanna. Það sem kom þó helst á óvart þegar bílnum var ekið ásamt öðrum úrslitabílum á akstursbraut Kvartmíluklúbbsins var hversu fágaður bíllinn var í hörðum akstri og virtist ekki gefa afturdrifnum Mercedes Benz E-Class og sportlegum VW Passat GTE mikið eftir í sífelldum, hröðum stefnubreytingum. Þá er frátalinn aukabúnaðurinn „4Control“ sem inniheldur stillanlega dempara og stýringu á afturhjólum til viðbótar. Ekki gafst kostur á að prófa bíl með þeim búnaði. Eftir reynsluakstur (ekki á kvartmílubrautinni, nota bene) sagði aksturstölva bílsins að meðaleyðslan hafi verið 5,6 lítrar á hundraðið í blönduðum akstri og dæmi svo hver fyrir sig hvort það séu ásættanlegar tölur.
Til viðbótar við áðurnefnd unaðsleg nuddsæti er feiknarstórt farangursrými, alls 572 lítrar, og heill hellingur af fótarými fyrir aftursætisfarþega. Því er svo sem við að búast í bíl sem mælist 4.866 mm á lengd og 1.870 mm á breidd. Tvær USB innstungur eru svo í miðjustokk fyrir aftursætin og geta því allir verið með fullhlaðna síma á ferðalaginu. Gólfið í skottinu er flatt og enginn kantur sem þarf að lyfta yfir. Festipunktar eru einnig í skottinu og má festa þar t.d. innkaupapoka og annað lauslegt. Með einu handtaki má svo fella niður aftursætin og stækka þá plássið upp í 1681 lítra. Efnisnoktun einkennist af sléttum, möttum plastflötum, burstuðu stáli, leðri og viði umhverfis allt innra rýmið. Stillanleg stemningslýsing gaf aukinheldur stílhreint yfirbragð. Allt í allt – mjög ánægjulegur staður til að verja klukkustundum saman úti á vegum.
Grunnverð fyrir beinskiptan 110 hestafla bíl er 4.190.000 kr en Dynamic útfærslan með 160 hestafla vélinni kostar 5.290.000 kr. Til viðbótar var þó aukabúnaður upp á 380.000 kr sem innihélt heilleðruð sæti með rafmagni og kælingu. Í raun er ekki þörf á að fleiri orðum um þennan framúrskarandi bíl. Allur þessi lúxus, fágun og sparneytni í ekki dýrari bíl. Afgerandi sigurvegari í valinu á bíl ársins 2017 á Íslandi.

Kostir

Falleg hönnun
Fáguð og þýð akstursupplifun.
Rými fyrir farþega og farangur
Nuddsæti (!!!)

Ókostir
Skortur á fjórhjóladrifi

 

Helstu upplýsingar – Renault Talisman Dynamic EDC


Verð: 5.670.000 kr eins og prófaður (Grunnverð: 4.190.000 kr)
Afköst vélar: 160 hestöfl / 380 Nm
Eldsneytisnotkun: 4,5 l/100 km (uppgefin) / 5,6 l/100 km (rauneyðsla)
Losun CO2: 120 g/km

Róbert Már Runólfsson