Suzuki Jimny 2019

Þessi glænýja kynslóð tekur við af einum af bílaleigubílum Íslands sem, ótrúlegt en satt, hefur verið í framleiðslu frá 1998. Með í huga vinsældir harðgerðra jeppa með kassabílalögun, líkt og Mercedes Benz G-Class, Jeep Wrangler, Land Rover Defender og Discovery (að undanskilinni nýjustu fimmtu kynslóð) ákváðu hönnuðir Suzuki að taka þátt í þessum vinsældum. Afraksturinn er fullbúinn jeppi sem gleymdist of lengi í þurrkaranum og kom út í 60% stærð.

Að öllu gamni slepptu er jeppinn stórglæsilegur, sterkbyggður og hefur tignarlega stöðu þrátt fyrir smæð sína. Þemað í hönnun og útbúnaði einkennist af einfaldleika og skilvirkni. Því er aðeins ein vélargerð í boði: 1,5 lítra, fjögurra strokka bensínvél, fáanleg með fimm gíra beinskiptingu eða fjögurra þrepa sjálfskiptingu. Eins og alvöru jeppa sæmir er aflið sent til allra hjóla um millikassa þar sem aftengja má framdrifið í hefðbundnum malbiksakstri eða skipta í lágt drif í torfæruakstri. Þá er bíllinn á sterkri, gamaldags stigagrind með hásingar og þriggja arma fjöðrun á gormum að framan- og aftanverðu. Engar gamaldags, mekanískar driflæsingar eru þó í boði heldur er tölvustýrð hemlastýring sem sér um að dreifa vægi á milli hjóla eftir þörfum með því að beita hemlunum á fríspólandi hjól og senda þannig aflið til þess hjóls er hefur fótfestu um opið mismunadrifið.

Að innan

Innréttingin er einföld, nokkuð stílhrein en öll löðrandi í plasti. Takkarnir eru nægilega stórir til að fikta í með hanska á höndunum sem auk þess svarar snertiskjárinn aðgerðum bærilega hjá hanskabúnum ökumönnum. Margmiðlunarkerfið kemur útbúið leiðsögukerfi ásamt Apple CarPlay og Android Auto snjallsímatengingum auk annarra eiginleika. Kerfið er auðvelt og þægilegt í notkun fyrir utan þegar þarf að hækka eða lækka í útvarpinu. Til þess er eins konar snertistika sem á til að vera sein og ónákvæm — hvað var eiginlega að venjulegu skrunhjóli?

Suzuki Jimny 2019   Suzuki Jimny 2019

Ágætt rými er fyrir farþega framsæta, hátt til lofts og hæfileg breidd er á milli sæta, að vísu án armpúða sem væri kærkomin viðbót fyrir löng ferðalög. Aftursætin eru hins vegar nokkuð lítilfjörleg, á stærð við sæti í smábíl af minnstu gerð og ekki við allra hæfi að sitja þar til lengdar nema þá helst smærri einstaklinga. Auk þess eru þau aðeins tvö talsins þannig að hagkvæmni og notagildi eru lítil. Gott er þó að þar er að finna ISOFIX festingar fyrir tvo barnabílstóla. Farangursrýmið er hlægilegt í meira í lagi, rúmar ekki nema 85 lítra með aftursætin uppreist, en öllu skárri 377 lítra með þau niðurfelld.

Suzuki Jimny 2019

Á malbiki

Jimny-inn er ansi lipur í innanbæjarakstri, enda lítill og fisléttur bíll (ekki nema 1.090 kg), léttur í stýri og hæfilega snarpur. Auðvelt er að leggja honum í stæði þar sem hann er afar stuttur og útsýni á alla kanta er til fyrirmyndar, sem er undirstrikað með hárri akstursstöðu. Jimny er innanbæjarbíll og fær því býsna góða einkunn á því sviði. Þegar hraðinn eykst á vegum fer háfættur, stuttur kassabíllinn að finna til sín og koma þar bersýnilega í ljós helstu vankantar hans. Þeir eiginleikar sem gera hann að svo góðum innanbæjarbíl fara smátt og smátt að vinna gegn honum: yfirbyggingin tekur á sig mikinn vind og stutt sporvídd ásamt hásingafjöðrun fá bílinn til að vagga nokkuð í signum hjólförum á íslensku malbiki. Þá hefði gírkassinn gott af sjötta hlutfallinu, því að vinnslan í vélinni verður heldur þvinguð og hávær á 90 km/klst í fimmta gír. Þó má ekki halda að bíllinn sé hættulegur á þjóðvegahraða, heldur er aksturinn fremur minna afslappaður og þarf sífellt að lagfæra stýrið lítillega. Loks er jákvætt að sjá ríkulegan öryggisbúnað í svona ódýrum bíl en akreinavari, umferðamerkjavari og sjálfvirk neyðarhemlun er staðalbúnaður í öllum útfærslum.

Suzuki Jimny og G-Benz

Á fjöllum

Helsta akstursánægjan kemur svo að sjálfsögðu fram í krefjandi torfærum og þar fær Jimny heldur betur að skína. Farin var sama leið upp Úlfarsfell og á G-vagninum fáum dögum áður en nú hafði snjó leyst og við tekið kalt, íslenskt drullusvað. Skal engan undra á að nokkur munur hafi verið á frammistöðu þessara tveggja kassabíla. Báðir höfðu það á toppinn, með mismikilli vinnu þó. G-vagninn valsaði upp með nuddandi leðurstóla og þýða fjöðrun en Súkkan hoppaði og skoppaði á milli steina eins og fjallageit, gaf aldrei undan en lét ökumann og farþega þess í stað finna nokkuð fyrir því. Hásingafjöðrunin er liðug en sterkbyggð. Þar sem hún er ekki sjálfstæð til beggja hliða þrýstist önnur hliðin niður í veginn þegar hin fer yfir grjóthnullung eða aðra upphækkaða hindrun og tryggir þannig grip í hvívetna. Vissulega er téð ósjálfstæð fjöðrun sjálfur Akkílesarhællinn þegar kemur að aksturseiginleikum í kröppum beygjum á malbiki og stuðlar að veltingi og óstöðugleika. Þegar verst lét þurfti að staldra við, skella í lága drifið og beita meiri lagni til að komast á áfangastað. Heilsársdekkin gerðu verkið svo sannarlega ekki auðveldara og hefði þarna verið gaman að vera á grófari dekkjum. En, eins og áður segir, var hæsta hjalla náð og því gott að styðja sig við brekkuaðstoðina (e. Crawl control) sem studdi við bremsur af natni niður sleipan bratta eftir myndatöku á fjallstoppinum. Þarna kórónast samanburður á rándýrum Mercedes G-Class og ódýrum Suzuki Jimny. Á meðan fjalla- og klettaklifur er afslappað og áreynslulaust í G-vagninum þarf að hafa talsvert meira fyrir hlutunum í Jimny en þó kemst hann á þrjóskunni á leiðarenda!

Suzuki Jimny 2019

Vonbrigði í öryggisprófunum

Nýlega komu fram heldur óskemmtilegar fregnir þess efnis að Suzuki Jimny hefði valdið vonbrigðum í öryggisprófunum Euro NCAP og skorað aðeins þrjár stjörnur af fimm. Sett var út á ófullnægjandi frammistöðu í hliðraðri framanákeyrslu þar sem afmyndun farþegarýmis reyndist í meira lagi og skilaði sér í kviðaráverkum á farþegum framsæta og höfuðáverkum aftursætisfarþega. Virka öryggisbúnaðinum, sem nefndur var hér að ofan sem staðalbúnaður, tókst vel að forða árekstri en orsakaði á sama tíma ofaukinn höfuðhnykk aftursætisfarþega vegna ófullnægjandi höfuðpúða.
Þessar niðurstöður eru vonbrigði fyrir annars frábæran bíl. Því sem óhefðbundinn, glaðlyndur „lífstílsbíll“ eða vinnuþjarkur er Suzuki Jimny ferskur andvari inn í heldur tilbreytingarlausa tilveru smábíla og smájepplinga, hagkvæmur og stórskemmtilegur alvöru jeppi.

Suzuki Jimny 2019

Suzuki Jimny 1,5 GLX

Aflrás: 1,5 lítra fjöggurra strokka bensínvél og 5 gíra beinskiptingu með háu og lágu drifi.

Hámarks afköst: 101 hestafl við 6.000 snúninga.

Hámarks tog: 130 Nm við 4.000 snúninga

Verð: 3.780.000 kr (GLX beinskiptur).

Eldsneytisnotkun (skv. framleiðanda): 6,8 l/100 km (blandaður akstur)

Eldsneytisnotkun (raunakstur): 8,5 l/100 km (blandaður akstur)

Losun CO2: 178 g/km

Eigin þyngd: 1.090 kg

Lengd / Breidd / Hæð (mm): 3.645 / 1.645 (m. speglum) / 1.720 

Veghæð (mm): 210

Aðfallshorn / Fríhorn / Fráfallshorn: 37⁰ / 28⁰ / 49⁰

Kostir

Útlit
Torfærugeta
Ríkulegur staðalbúnaður

Ókostir

Öryggisprófun EuroNCAP
 
 

 

Róbert Már Runólfsson