MG EHS PHEV

Segja mætti að jólin séu gengin í garð hjá bílaáhugamönnum þar sem bílaframleiðendur keppast við að kynna inn nýjustu afurðir og eru fyrstu „alvöru“ rafbílar oft þeir sem setja tóninn fyrir það sem koma skal. Ævintýralegt gengi Tesla hefur sýnt mönnum fram á þröskuldurinn inn á bílamarkaðinn í Evrópu er ekki jafn hár eins ætla hefði mátt. Þá hefur ör þróun rafbíla jafnað út leikinn og virðast stórir og stöndugir bílaframleiðendur þurfa að taka af stað frá sömu ráslínu og yngri og óþekktari aðilar þegar kemur að þessum málum.

 

MG EHS PHEV Front

 

Þrátt fyrir að MG sé nýlega komið aftur á göturnar hér heima, eins og annarsstaðar í Evrópu, er langt frá því að kínverska risafyrirtækið SAIC–mótor, sem á MG–merkið, sé að taka fyrstu skref sín. SAIC–mótor á langa sögu jafnt í framleiðslu varahluta og bifreiða undir hinum ýmsu merkjum sem hafa aðallega sést í Asíu og eru yfir sex milljón farartækja í framleiðslu ár hvert.

Í febrúar fékk BL, umboðsaðili MG á Íslandi, fyrstu eintökin af tengiltvinnbílnum EHS. Þetta er í raun stóribróðir ZS sem er 100% rafbíll og var fjallað um í seinasta FÍB–blaði. EHS er stór tengiltvinnbíll með góða veghæð og kemur í tveimur útfærslum, það er Comfort og Luxury, og var sú síðarnefnda til prófunar.

 

MG EHS PHEV MG EHS PHEV Back


Útlit

Hönnuðir EHS stíga varlega til jarðar og velja öruggu leiðina þegar kemur að hönnun og útliti. Þeir virðist hafa sótt innblástur frá hinum ýmsu merkjum eins og Kia, Mazda og fleirum. Með þessari nálgun fæst ágætt nútímalegt útlit sem fellur inn í umferðina. Bíllinn kemur á snyrtilegum 18“ álfelgum og eru hjólbogar ásamt neðri hluta bílsins klætt svörtu plasti sem er til þess fallið að gera bílinn reistari og draga fram hina eftirsóttu jeppaímynd. Búið er að koma krómi fyrir á vel völdum stöðum umhverfis rúður og ljós og er það áberandi í stóru einkennandi grilli bílsins þar sem MG merkið fær gott rými til að njóta sín.

 

MG EHS PHEV Side


Að innan

Eins og með ZS rafbílinn er Luxury–útfærslan hlaðin aukabúnaði sem er sjaldséður í bifreiðum í sama verðflokki. Má þar telja opnanlegt glerþak, vandaðar innréttingar jafnt í fram- og aftursætum. Einnig er ljósarönd yfir alla innréttinguna allt frá afturhurðum og yfir mælaborðið. Yfirleitt hefur lýsing af þessum toga verið eingöngu í boði í dýrari bílum en hún gerir gríðarlega mikið fyrir upplifun á innra rýminu og væri gaman að sjá hana í fleiri bílum. Sætin eru klædd með gervileðri og eru þægileg og halda vel að líkamanum en sumum gæti þótt þau vera í þrengri kantinum. Þá verður tíminn að leiða í ljós endingu á efnisvali en við fyrstu sýn virðast sætin auðveld í umhirðu. EHS er fremur stór bíll og er rúmt um alla, bæði ökumann og farþega. Skottið er ágætlega stórt eða 451 lítrar en því miður voru ekki sjáanlegir krókar eða aðrar lausnir til að tryggja að innkaupapokar og eða farangur færist ekki úr stað við akstur.

 

MG EHS PHEV Boot MG EHS PHEV inside 


Akstur

MG EHS PHEV Seat

EHS er einstaklega þægilegur í akstri. Þrátt fyrir að vera virkur í að skipta á milli rafmagns og vélar er það hnökralaust þannig ökumaður verði ekki var 

við það. Í húddinu er 1500 fjögurra sílendra mótor með túrbínu sem skilar 162 hestöflum og að viðlögðum 122 hestafla rafmótor nær bíllinn ágætri hröðun eða 6,9 sekúndum í hundraðið. EHS er eingöngu í boði með framhjóladrifi og fer því allt aflið til hjólanna um 10 þrepa sjálfskiptingu og veldur hún því verkefni mjög vel í rólegum akstri. Hins vegar vinnur hún ekki jafn skemmtilega í hröðu upptaki þar sem hik virðist koma á hana á milli gíra. Samkvæmt veraldarvefnum er þetta víst eðlileg hegðun í skiptingu af þessum toga og mun hinn almenni ökumaður ekki finna fyrir þessu í daglegri keyrslu. Það er rík ástæða til að minnast sérstaklega á bensínmótorinn en eftirtektarvert er hversu lítinn titring og hljóð hann myndar í gangi og er það stór kostur þegar kemur að tvinnbílum.

Stór snertiskjár er fyrir miðju mælaborðs og er hann fremur snarpur og auðveldur í notkun. Eini ókosturinn sem mætti telja er hátt birtustig á skjánum þrátt fyrir að hann sé stilltur í lægstu stöðu. Þetta getur verið þreytandi í akstri að næturlagi sérstaklega úti á landi. Hægt er að slökkva á skjánum handvirkt en hann kveikir síðan aftur á sér þegar myndavélar koma inn í bakkgír eða þegar beygt er frá kyrrstöðu og lýsir þannig í augu ökumanns og skerðir útsýni úr bílnum.

Eins og í mörgum öðrum bílum í dag hefur baksýnisspegillinn sígið neðar á framrúðunni en góðu hófi gegnir. Hvort það sé vegna allra skynjara og myndavéla sem eru komnar í framrúðuna eða vegna smærri afturglugga skal ósagt en eftir stendur að baksýnisspegillinn er í augnhæð ökumanns og skerðir það útsýnið óþarflega mikið.

 

MG EHS PHEV Console

 

Bíllinn er vel einangraður með góða fjöðrun sem er hljóðlát og þétt, hvort sem ekið er á malbiki eða möl. Akstur er þýður og afslappaður jafnt innan bæjar og í þjóðvegaakstri. Luxury–útgáfan er útbúin öflugum díóðu (e. led) framljósum sem tryggja góða sýn fram á veginn.
Þrátt fyrir góðan búnað og sanngjarnt verð verður ekki litið fram hjá stórum ókost fyrir marga ökumenn hér á landi en bíllinn er ekki í boði með forhitun áður en lagt er af stað hvorki með tímastilli innan úr bíl né með snjallforriti í síma eins og margir rafmagns- og tengiltvinnbílar bjóða upp á í dag. Þetta þýðir að þegar ekið er af stað á köldum degi þarf bíllinn að ræsa upp bensínmótor og keyra á honum þar til hann er orðinn heitur og hita upp innra rými. Þannig getur ökumaður ekki ekið á rafmagninu á meðan þessu stendur og geta því stuttir spottar, eins og til og frá vinnu, verið eknir eingöngu á eldsneyti og til þess að halda hita á innra rými sækir bíllinn ávallt í að halda bensínmótor í gangi frekar en að kynda á rafmagni.
Vegna þessa var rauneyðsla bílsins um 7,5 lítra og lítið sem ekkert rafmagn var hægt að nýta til aksturs þrátt fyrir að uppgefið drægi væri um 50 kílómetrar. Þegar bíllinn var orðinn hæfilega heitur var slökkt á miðstöð og bíllinn stilltur eingöngu á rafmótor. Þá lækkaði meðaleyðslan hratt og hélt rafmótor vel við í akstri. Því má ætla í raun að yfir köldustu vetrarmánuði sé lítil nýting á drifrafhlöðu nema eigendur aki lengri vegalengdir, lagt sé af stað úr heitum bílskúr eða bílageymslu eða kaupa kraftgalla og hafa slökkt á miðstöð.


Öryggi

MG skoraði fullt hús stiga eða fimm stjörnur í árekstrarprófunum Euro Ncap desember 2019. Þar telur hátt rafrænn öryggisbúnaður eins og neyðarhemlun, sætisbeltaljós fyrir öll sæti. Bíllinn er vel útbúinn öðrum útbúnaði eins og akgreinavara, 360⁰ myndavél og skynvæddum hraðastilli. Isofix–festingar fyrir barnabílstól eru í aftursætum en ekki framsæti.


Niðurstaða

Almennt séð þykir undirrituðum MG EHS einstaklega góður bíll og mjög raunhæfur kostur fyrir þá sem vilja rúman fjölskyldubíl með öllum þeim aukabúnaði sem prýða dýrari bíla hjá samkeppnisaðilunum. Þá kemur sterkt inn að bíllinn sé boðinn með 7 ára ábyrgð og ætti það að tryggja áhyggjulausan rekstur.
Skortur á möguleikum til forhitunar á farþegarými á líklega eftir að fæla einhverja kaupendur frá enda er miður að geta ekki hitað upp bílinn á meðan hann er tengdur í landrafmagn og þannig aukið möguleikann á að aka á rafmagninu einu saman þrátt fyrir kalda daga.
Eins og áður segir þá er MG með sterka framleiðendur á bak við sig sem hafa verið lengi í bílageiranum og sést það vel á MG EHS þar sem gæði, rými og búnaður fást á sanngjörnu verði.

 Björn Kristjánsson - maí 2021

Kostir: Búnaður, fjöðrun, ábyrgð
Ókostir: Forhitun 

Grunnverð: 5.190.000 (Comfort) - 5.490.000 (Luxury)
Hestöfl: 258
Mótor: 1,5 lítra turbó
Dráttargeta: Án hemla 750 kg / með hemla 1500 kg
Tog: 480 NM
0–100 km/klst: 6,9 sekúndur
Rafhlaðan: 16,6 kWst
Drægni WLTP: 52 km
L/B/H: 4.574/1.876/1.664 mm
Hjólhaf: 2.722 mm
Farangursrými: 451 lítrar
Eigin þyngd: 1.737 kg.