Lexus RX450+
Fyrsta kynslóðin af RX Lexus kom í sölu í Evrópu 1998 en ári áður hafði bíllinn fengið góðar viðtökur í Asíu undir nafninu Toyota Harrier sem var um leið fyrsti lúxusjepplingurinn (e. crossover) sem kom á markað í heiminum. Bílnum var strax vel tekið og seldist fyrsta kynslóðin í yfir 400.000 eintökum sem skilaði bílnum í fyrsta sæti yfir þá mest seldu af Lexus-tegundinni og heldur þeim titli enn í dag. Nú 24 árum síðar hefur fimmta kynslóðin verið kynnt til sögunnar og hefur bíllinn verið endurhannaður frá grunni með nýja drifrás, útlit og undirvagn.
Útlit
Liturinn á bílnum, sem fenginn var til reynsluaksturs, verður seint talinn hefðbundinn en fór honum þó einstaklega vel enda hefur þessi litur verið ráðandi í fjölmörgum kynningarmyndum frá Lexus. Ekki eru allir sammála um hvernig skuli flokka hann en meðal skilgreininga eru fölbleikur, brons, kopar og þar fram eftir götunum. Samkvæmt framleiðenda er þetta koparbrúnn litur. Eins og fyrr segir er búið að hanna RX-bílinn alveg frá grunni og er hann jafnlangur og forveri sinn en nú með aukið hjólhaf um 60 mm og 25 mm breiðari. Nýi bíllinn er einnig um 90 kg léttari með stífari undirvagn.
Það mætti segja að hönnuðir hafi tekið eitt skref til baka þegar kom að hönnun fimmtu kynslóðarinnar sem er ívið íhaldssamari og klassískari en fjórða kynslóðin. Stórt grill er enn til staðar en virðist þó vera í undanhaldi og smekklegar 21“ felgurnar fylla vel út í hjólaskálarnar. Afturljósin tengjast saman í grannri ljóslínu eins og í flestum nýrri bílum í dag. Merkingar eru lágstemmdar og ekkert Lexus-einkennismerki er sjáanlegt fyrir utan stafina sem raða sér fyrir miðju afturhlerans. Heilt á litið er hönnunin laus við dramatík og mun án efa eldast ágætlega fyrir vikið.
Innra rými
Eins og við má búast af bíl í þessum verðflokki er gott efnisval í innréttingum og hönnun umhverfis ökumann og farþega er vel útfærð. Svartur litur var allsráðandi í hólf og gólf. Leður var á sætum og slitflötum og voru framsætin skilin af með voldugum miðjustokki. Þeir sem þekkja til Toyota eða Lexus eru fljótir að komast upp á lagið með stjórntækin. Auðvelt er að átta sig á flestum aðgerðum og rata í rétta hnappa.
Reynsluakstursbíllinn er í raun búinn þremur upplýsingaskjám, þ.e. 7“ mælaborðsskjá, 14“ margmiðlunarskjá fyrir miðju mælaborðs og síðan sjónlínuskjá í framrúðu (e. HUD). Sá síðastnefndi sýnir helstu upplýsingar eins og hraða en einnig er hann með meira af gagnvirkum aðgerðum en ökumenn hafa vanist til þessa. Í honum er hægt að láta ýmsar upplýsingar birtast sem tengjast stjórntökkum í stýri. Þannig eru takkarnir í stýrinu forritanlegir með ýmsar stillingar og sýnir skjámyndin hvar þumlarnir eru staddir á tökkunum áður en ýtt er á þá. Þetta venst ágætlega og gerir ökumanni kleift að líta aldrei niður. Hins vegar var skjárinn ekki nægjanlega skýr við notkun með Polorized-sólgleraugum.
Eins og með ytra útlit er hönnun á innra rými íhaldssöm. Tveir glasahaldarar í miðjustokki og stórt geymslubox. Gott rými er fyrir farþega í aftursætum sem eru á sleða og hægt að halla fyrir lengri ferðir. Þá er einnig hægt að stjórna hitastigi og hita eða kæla aftursætin. 461 lítra skottið er þokkalegt en heldur smærra en sambærilegir bílar í þessum stærðarflokki. Allar útgáfur hafa dráttargetu upp að tveimur tonnum með hemlaðan eftirvagn.
Akstur
Reynsluakstursbíllinn er tengiltvinnútgáfa (PHEV) sem þýðir að hann er búinn með 185 hestafla, 2,5 lítra bensínmótor og síðan 185 hestafla rafmótor sem fær rafmagnið frá 18 kWh líþínrafhlöðu sem er hlaðanleg í heimahleðslu. Samtals skilar þetta bílnum tæplega 310 hestöflum með hröðun upp á 6,5 sekúndur í 100. Hægt er að velja um nokkrar akstursstillingar hvort sem það er eingöngu á rafmagni, eldsneyti eða blöndu beggja og er uppgefin drægni á fullri hleðslu 69 km WLTP en þar spila aksturslag og ytri aðstæður mikið inn í.
Akstur er þíður og átakalaus þar sem rafmagns- og bensínmótorar vinna sérstaklega vel saman ásamt góðri hljóðeinangrun. Ekki er mikið um karakter í bílnum eins og finna má í evrópskum lúxusjepplingum í sama flokki sem sumir hverjir eru stífari og öflugri. Bíllinn ber 21“ felgurnar vel og bíllinn er stöðugur á vegi og leitar lítið í hjólför. Dekkin sem koma undir bílnum mættu grípa betur í bleytu en skriðvörn þurfti að grípa inn í á stöku stað í krefjandi akstri.
2,5 lítra vélin í bílnum er fjögurra strokka og svo þýðgeng að ökumaður og eða farþegar verða tæpast varir við hvort ekið sé á eldsneyti eða rafmagni. Það hefur því miður verið lenska hjá öðrum framleiðendum að para grófgengari þriggja strokka vélar við rafmótora sem síðan veldur víbring og grófari skiptingum á milli vélar og rafmagns.
Eins og búast má við er bíllinn hlaðinn ýmsum öryggisbúnaði til að gera aksturinn öruggari og skoraði bíllinn til að mynda 5 stjörnur í árekstrarprófunum með um og yfir 90% í öllum öryggisflokkum. Deila má um hvort allur þessi búnaður sé af hinum góða þar sem ýmsar viðvaranir hljóma við minnstu tilefni. Þrátt fyrir að slökkt sé á tilkynningum þarf að endurtaka leikinn í upphafi hvers aksturs. Samkvæmt framleiðenda er útfærsla viðkomandi öryggisbúnaðar í takt við þær kröfur sem eru gerðar til bílaframleiðenda varðandi öryggi og það sem koma skal í öllum nýjum bifreiðum sem seldar verða í Evrópu.
Öflug hleðslubremsa er í bílnum og hægt að stjórna henni á auðveldan hátt með flipum fyrir aftan stýrið. Virkni hennar kemur best fram í akstri innanbæjar þar sem bíllinn nemur aðra bíla fyrir framan og heldur fyrir fram ákveðinni fjarlægð. Því miður er virknin ekki jafn góð þegar slegið er af í akstri og beita þarf bremsunum í auknum mæli.
Við upphaf aksturs var bíllinn fullhlaðinn og fyrri hluti prófunarinnar fór fram eingöngu á rafmagni. Bíllinn á auðvelt með að skila öllum verkefnum frá sér án þess að þurfa að ræsa upp bensínmótorinn enda er rafmótorinn 185 hestöfl og getur fræðilega séð ekið upp í allt að 135 km/h. Það kom skemmtilega á óvart hve lág eyðsla á bílnum var eftir að drifrafhlaðan tæmdist en eftir um 150 km þjóðvegaakstur stóð mælirinn í 6,5 lítrum sem er nokkuð gott með tilliti til stærðar og þyngdar á bílnum.
Þrjár útgáfur eru af RX Lexus sem eru 350h (HEV) sem er eins og 450h+ (PHEV) útgáfan nema hann er ekki með möguleika á að stinga í samband og er 60 hestöflum lakari en 450h+ bíllinn. Lítill verðmunur er á milli þessara tveggja bíla sem er tilkomið vegna skattaívilnana á tengiltvinnbílum. Síðan er það toppútgáfan 500h (Performance Hybrid), hún er útbúin 2,4 lítra túrbómótor sem skilar 268 hestölfum og er paraður við tvo rafmótora. Saman skila þeir 371 hestöflum með hröðun upp á 6,2 sekúndur í hundraðið. Það sem er kannski eftirsóknarverðast í F-Sport bílnum er DIRECT4 drifbúnaður þar sem aflinu er stýrt á milli fram og afturhjóla í takt við breytingar á akstri, ekki gafst tími til að prófa bíl með þessum búnaði en hann hefði án efa bætt veggrip og gefið sportlegri aksturseiginileika en 450+ útgáfan. Hver og einn þarf að meta hvort það sé þess virði að bæta við nokkrum miljónum til að fá DIRECT4, þá sérstaklega með tilliti til þess að tapa hleðslumöguleikanum (PHEV) sem er í 450+ og þá eykst hröðunin í hundrað ekki um nema 0,3 sekúndur.
Niðurstaða
Af þeim útfærslum sem eru í boði er 450+ líklega eftirsóknarverðust þar sem bíllinn sameinar kosti rafbíls og eldsneytisbíls mjög vel. Samkvæmt sölumönnum eru væntanleg smáforrit til að tengjast bílnum þar sem ýmsar upplýsingar um hann koma fram ásamt því að hægt verður að forstilla ákveðinn hita í farþegarými bílsins þegar komið er inn í hann. Í heildina stendur Lexus RX 450+ vel undir nafni og er nýjasta útfærslan vel heppnuð. Hann mun líklega höfða meira til þeirra sem eru að leita að þéttum lúxusbíl sem fer vel með ökumann og farþega bæði innanbæjar og úti á landi. Mikil samkeppni er í þessum flokki, sérstaklega þegar kemur að samanburði á afli og aksturseiginleikum. Í þessari umfjöllun er ekki kafað djúpt í allan þann búnað sem býðst enda er listinn veglegur og hvetur undirritaður áhugasama um að taka sér góðan tíma í að skoða og bera saman útbúnað áður en kaupákvörðun er tekin.
Björn Kristjánsson