Porsche Macan 2014

Nýji smájeppinn frá Porsche er hreint út sagt ótrúlegur. Til reynslu var dísilútgáfan, útbúinn 258 hestafla V6 vél og heilu hlassi af togi. Bíllinn er byggður lauslega á sama grunni og VW Tiguan og Audi Q5 (með áherslu á lauslega), en þessir þrír bílar gætu ekki verið ólíkari. Macan brýtur hreinlega öll lögmál eðlisfræðinnar, því svona stór og þungur bíll á ekki mögulega að geta keyrt svona vel. Bíltúr upp í Bláfjöll sýndi og sannaði að þegar Porsche merki er sett á trýnið á bíl, þá er hann gjörsamlega í sérflokki. Í háhraða-keilusvigi á Kvartmílubrautinni var þetta svo sannað þegar Macan hélt langhæstum meðalraða í gegnum keilurnar, án þess þó að hafa mikið fyrir því. Uppgefin hröðun frá kyrrstöðu í 100 km/klst er ekki nema 6,1 sek, en þar er togmikilli vélinni, fjórhjóladrifinu og 7-gíra PDK, eða  Porsche Doppelkupplungsgetriebe, gírkassanum að þakka. Þjálnefndi gírkassinn er tvíkúplingadrifinn (e. Double Clutch) og því eru skiptingar leiftursnöggar og aflmissir þannig milli gíra hverfandi. Þá er hámarkshraðinn uppgefinn 230 km/klst. Stöðugleikastýringin er stillanleg, en sé hún sett í Sport+ stillingu leyfir hún smá skrik, en akkúrat þegar ökumaður er í þann mund að missa stjórn grípur hún inn í, réttir bílinn af og gefur ökumanni fals-sjálfstraust um að vera orðinn drift-kóngur.

Innra rýmið er þakið leðri og tökkum. Sætin eru stillanleg á ótal vegu (rafdrifin, að sjálfsögðu) og magn takka og valmöguleika í afþreyingarkerfinu gera það að verkum að manni leiðist aldrei í bílnum, jafnvel þótt hann sé kyrrstæður. Nægt pláss er fyrir alla 5 farþega og farangursrými bærilegt, en rými er skert nokkuð vegna skáhallandi afturhlera. Ætla mætti að með svona aflmikinn bíl að eldsneytiseyðslan væri grátleg, en þvert á móti er hún til fyrirmyndar. Nái maður að hemja sig á inngjöfinni er leikur einn að halda eyðslu innan við 7 lítrana á hundraðið – og þegar aftur er tekið tillit til þyngdar (heil 1.955 kg) og afls eru þessar tölur til fyrirmyndar.

Vissulega er er þessi pakki ekki fríkeypis, en séu peningarnir til staðar er Porsche Macan hverrar krónu virði.

 

Helstu upplýsingar:

Verð: 11.950.000 kr

Afl: 258 hestöfl

Tog: 580 NM

Eldsneytiseyðsla: 6,1 l/100 km (Uppgefin) / 7 l/100 km (rauneyðsla)

Losun CO2: 159 g/km

Kostir:

Aksturseiginleikar

Fágun í smíði

Eldsneytiseyðsla

Gallar:

Takmarkað pláss í farangursrými