Dacia Duster Plus 4x4 2012


Eftir efnahagshrunið sem hér varð fyrir rúmum fjórum árum hefur endurnýjun bílaflotans á Íslandi verið óeðlilega hæg. Stórar árgangagloppur eru í flotanum, nýlegir notaðir bílar nánast ekki til en töluvert hins vegar af þetta 7-10 ára gömlum bílum sem flestir eru á óeðlilega háu verði. Í þessu ástandi hefur sárlega skort á framboð á nýjum, einföldum, ódýrum bílum eins og Dacia frá Rúmeníu en nú hefur verið úr því bætt. Dacia er komin til Íslands og FÍB og ADAC hafa í sameiningu reynsluekið jepplingnum Duster.

Dacia er rúmensk bílasmiðja sem nú er alfarið í eigu Renault/Nissan. Bílarnir eru byggðir á tækni frá Renault að flestu leyti, stundum er það tækni sem ekki lengur þykir eiga við í Renaultbílum þótt hún sé í sjálfu sér í fullu gildi og orðin þrautreynd. En líf hennar er framlengt í einföldum, ábyggilegum og hagkvæmum bílum frá Rúmeníu. Fyrsti Dacia bíllinn sem virkilega sló í gegn í V. Evrópu var Dacia Logan fyrir um átta árum. Logan var mjög einfaldur fólksbíll af minni meðalstærð og mjög ódýr samanborið við sambærilega bíla. En Logan sannaði sig vel og hefur reynst áreiðanlegur í notkun og endingargóður. Það hefur Duster líka gert, en hann hefur verið á markaði í Evrópu í rúm þrjú ár Þótt hann sé nýr á Íslandi.

Dacia Duster er jepplingur. Hann ber svolítinn svip elstu gerðum Nissan X-Trail og er svipaður að stærð og t.d. Ford Kuga, Hyundai ix35, Nissan Qashquai, Skoda Yeti o.fl. Í Evrópu kostar bíllinn með fjórhjóladrifi og dísilvél víðast hvar frá 12 þúsund evrum (tæpar tvær milljónir ísl. kr) fyrir utan skatta og gjöld en hér á landi er verðið um fjórar milljónir. Duster þannig umtalsvert ódýrari en keppinautarnir sem fyrr eru taldir. En auðvitað er Dacia Duster einfaldari bíll og innréttingar og allur búnaður eitthvað fábreyttari. Hann er enginn lúxusbíll og ekki fáanlegur sem slíkur frá framleiðanda. Og þetta endurspeglast síðan í lágu verðinu.

En í akstri og notkun saknar maður svo sem ekki neins. Duster keyrir ósköp þokkalega úr einum stað til annars, hann er í meðallagi hljóðlátur, túrbínudísilvélin er frekar grófgeng en eyðir ekki miklu og vinnur ágætlega. Vélin er ágætlega „sveigjanleg“ eftir akstursaðstæðum. Vél, sex gíra gírkassi og drif eru þokkalega vel aðlöguð hvert að öðru og bíllinn fer vel á hverskonar vegum, farangursrými er mikið og aðgengi að því gott. Þá er verðið sérlega hagstætt miðað við bæði bílinn sjálfan og samanburðarbílana.

Helstu aðfinnsluefni eru að miðstöðin er lengi að verma upp farþegarýmið afturí, rofar og stjórntæki fyrir miðstöð og loftræstingu eru ekki vel staðsett, stýrið gefur ekki mikla tilfinningu fyrir veginum og hvað öryggi og öryggisbúnað varðar er Duster ekki nema í meðallagi.

Þótt það komi tæpast að sök hér á landi þar sem hámarkshraðinn er 90 og nánast hvergi til vegir sem bera meiri hraða, þá má segja að gírhlutföll hæstu gíranna séu full lágt valin, sjötti gírinn þó sérstaklega. Á 130 km hraða á þýskri hraðbraut sýnir snúningshraðamælir vélarinnar 2900 sem er full hátt. Eðlilegra væri að hann lægi á 2300-2500 og eyðslan myndi verða minni.

Þess skal getið að stýrið mætti skila betri tilfinningu fyrir veginum upp í hendur ökumanns og það er frekar ónákvæmt. Að þessu leyti sker Duster sig þó ekkert úr hópi jepplinga og er að þessu leyti í meðallagi. Það gerir hann heldur ekki í elgsprófinu, (þegar snöggbeygt er framhjá hindrun á 90 km hraða).  Í akstri er hann ágætlega rásfastur og ekkert gjarn á að rása í hjólförum. Í hörðum beygjum ber á undirstýringu. Hann leggur vel á og er þvermál beygjuhringsins 11.1 m sem er ágætt fyrir bíl af þessari stærð. Hemlarnir eru einnig í meðallagi. Eftir að nauðhemlað er á 100 km hraða stöðvast bíllinn á 38 metrum. 38 metra hemlunarvegalengdin er meðaltal sjö mælinga.

 

Í HNOTSKURN

Dacia Duster 4x4

Lengd/breidd/hæð í mm: 4315/1822/1625

Þyngd/hlassþyngd kg: 1300/455

Vél: 4 str. dísil. Euro5

Afl: 107 hö/4000 sn. mín.

Slagrými: 1461 rúmsm

Vinnsla: 240 Nm/1750 sn. mín.

Gírkassi: 6 gíra handsk.

Hröðun 0-100 km. klst: 11,8 sek.

Eldsn.eyðsla í bl. akstri: 6,2 l pr. 100 km.

CO2 útblástur: 140 g pr. km.

Farangursrými: 445-760 l.

Verð: 3.990 þ. kr.