Lexus IS300h 2013Þriðja kynslóð IS línunnar frá Lexus er stærri og betri á flestan hátt en fyrri kynslóðir, án þess þó að gera lítið úr þeim. T.a.m. var Lexus IS valinn Bíll ársins á Íslandi árið 2007. Í ár var prófaður IS300h, en hann er útbúinn 2.5 lítra bensín vél ásamt rafmótor sem skila samanlagt 220 hestöflum. Dómarar hrifust af yfirveguðum aksturseiginleikum (þökk sé fáguðum undirvagni og afturhjóladrifi), lítilli eldsneytiseyðslu og þægindum í akstri. Bíllinn er ríkulega búinn og á samkeppnishæfu verði samanborið við keppinauta sína frá Mercedes Benz, BMW og Audi.

 Líkt og í GS450h bílnum frá Lexus sem tók þátt í valinu í fyrra voru sætin í algjörum sérflokki. Dúnmjúk og vel styðjandi leðursæti, stillanleg á ótal vegu gerðu bílinn að enn betri stað til að verja tíma sínum en í öðrum bílum. Pláss í aftursætum var rausnarlegt, en miðjusætið var nær gagnslaust fyrir fullvaxna farþega. Skottið er í meðallagi stórt og hefur að geyma alls kyns festingar sem gera það að verkum að auðveldara er að skorða farangur af og koma í veg fyrir að hann velti um farangursrýmið. Hljómtækin hljómuðu yndislega og margmiðlunarkerfið sem stýrir þeim og öðrum aðgerðum var auðvelt í notkun. Efnisnotkun er eins og best verður á kosið – leður, rúskinn og mjúk plastefni umykja þá fleti sem farþegar komast í snertingu við. Hljóðeinangrun er góð og undirstrikar aflsappaða upplifun sem fylgir því að aka bílnum. Aflið er nægjanlegt, en CVT gírkassinn, sem augljóslega er hannaður með eyðslugrennslu í huga fremur en sportleika, er svifaseinn, jafnvel þótt bíllinn sé settur í Sport-stillingu. Skemmtileg nýjung í bílnum er stilling á tónstyrk vélarhljóðsins, en hægt er að hækka í hljóðinu og magnast það þá inni í farþegarýminu í gegnum hljómtækin.

Lexus IS endaði í þriðja sæti í flokki stærri fólksbíla í vali á bíl ársins 2014, alls með 699 stig.

Helstu upplýsingar:

Verð: Frá 6.990.000 kr. (Reynsluakstursbíll kostaði þó rúmar 9 m.kr.)

Afl: 220 hestöfl / 221 Nm

Hröðun 0-100 km/klst: 8.4 sekúndur

Eldsneytiseyðsla í blönduðum akstri: 4.7 l/100 km

Losun CO2: 109 g/km

 

Kostir

Útlit

Þægindi

Aksturseiginleikar

Gallar

Miðjusæti afturí

Gírkassi