Renault Clio 2013

Renault Clio kom fyrst í sölu árið 1990 og hefur ávallt verið vinsæll smábíll síðan þá. Nýja kynslóðin er sú fjórða í röðinni og er betri en nokkru sinni fyrr, en Renault Clio hafnaði í öðru sæti í flokki minni fólksbíla í vali á Bíl ársins á Íslandi 2014.

Nýji Clioinn hefur sérkennilegt útlit og tekur nokkurn tíma að venjast. Þegar útlitið hefur vanist má segja að bíllinn sé talsvert laglegur og með betur útlítandi smábílum á markaðnum í dag. Innra rýmið er minimalískt og nútímalegt, en í stað fjömargra takka er hægt að stjórna mestöllu í afþreyingarkerfi bílsins sem stýrt er af 7“  snertiskjá, sem virkar vel og er auðveldur í notkun. Sem staðalbúnað má nefna cruise control, leiðsögukerfi með fullkomnu Íslandskorti (í milli-útfærslu, Expression), Bluetooth tengingu fyrir síma, start/stop ræsibúnað (aðeins í dísilbílnum) og útvarp með aux og usb tengi – Allt sem hinn nútímaeinstaklingur þarf!

Geymslurými í farþegarýminu er að mestu gott, að undanskyldu agnarsmáu hanskahólfi, en efnisvalið er oft á tíðum nokkuð vafasamt. Óþarflega mikið af hörðum plastefnum hér og þar draga örlítið niður heildarágæti innrarýmisins. -Þó er efnisnotkun mun betri en í síðustu kynslóð bílsins. Farangursrýmið er stærra en áður, en með aftursætin felld niður er rýmið eitt það stærsta í sínum flokki. Þegar, hins vegar, sætin eru upprétt er pláss fyrir aftursætisfarþega viðsættanlegt. Útsýni og höfuðrými fyrir einstaklinga yfir 180 cm er hins vegar nokkuð takmarkað, sökum lægri þaklínu en áður.

Í akstri er Clioinn nær gallalaus. 1.5 lítra dísilvélin í reynsluakstursbílnum var talsvert spræk og vinnslan í henni mjög góð. Fjöðrunin er fáguð og straujar út ójöfnur á götunum, en er þó það ákveðin að bíllinn var bæði fær og talsvert skemmtilegur við krefjandi aðstæður, líkt og háhraða keilusvig á Kvartmílubrautinni. Stýrið er létt, en samt beintengt við hjólin og gefur nokkuð góða tilfinningu fyrir veginum. Gírskiptinar eru stuttar og fótstig vel staðsett fyrir „metnaðarfullan“ akstur.

Svo er bara að bíða og sjá hvernig endingin reynist á þessum bíl, en þrátt fyrir mikla bætingu undanfarin ár hefur alltaf loðað við franska bíla nokkur bilanatíðni.

Helstu upplýsingar:

Verð: Frá 2.390.000 kr –  3.290.000 kr (án aukabúnaðar)

Afl: Frá 75 (bensín) – 90 hestöfl (bensín og dísil)

Hröðun 0-100 km/klst: 11.9 sekúndur (1.5 dísil)

Eldsneytiseyðsla í blönduðum akstri: Frá 3.4 l/100 km

Losun CO2: Frá 99 g/km

 

Kostir

Hönnun

Aksturseiginleikar

Sparneytni

Verð

Gallar

Efnisnotkun

Rými í aftursætum