Toyota Yaris 2012

Sá best heppnaði til þessa

Þriðja kynslóð hins geysivinsæla Toyota Yaris er komin á markað og stefnir að því að sigra hjörtu Íslendinga líkt og áður. Tveimur útfærslum var reynsluekið, þ.e. bensín og dísil.

   Það fyrsta sem ber að nefna er að höfundi þykir nýjasta kynslóðin lang best heppnuð útlitslega. „Andlit“ bílsins er ákveðnara en þess síðasta. Hvassar áherslulínur gefa bílnum meiri karakter ásamt nýjum, skarpari framljósunum. Hönnunarsvið Toyota fær því mörk prik fyrir sína vinnu í þetta skiptið.

   Bíllinn er allur stærri en fyrri kynslóðin, en það skilar sér helst inni í bílnum.  Nægt pláss er fyrir 5 farþega (þó gæti reynt á þolmörk farþega í miðjusæti á aftari bekk í lengri ferðum) og farangursrýmið er einnig stærra og dýpra. Stjórnklefi ökumanns er nútímalegur og hlaðinn græjum sem eigendur talsvert dýrari bíla hefðu sóst eftir fyrir fáeinum árum.

   Snertiskjár, GPS leiðsögutæki (100.000 kr. aukahlutur), bluetooth, mp3 og USB tengi má þar helst nefna ásamt feiknagóðum hljómtækjum sem gera þrumandi rokktónlist og eftirmiðdagsblaðri spjallþátta jafn góð skil. Það sem ökumaður nýja bílsins mun sakna, sem hefur komist í kynni við fyrri kynslóðir bílsins, eru geymsluhólf í innra rými bílsins. Einungis millistórt hanskahólf, smáir hurðavasar og litlir glasahaldarar eru látnir duga. Áður mátti finna hólf m.a. fyrir aftan stýri ökumanns, þar sem nú er að finna mælaborð með hefðbundna mæla í stað stafrænna eins og áður var.

   Helstu framfarir fram yfir fyrri kynslóðir leynast í aksturshæfni litla Yarisins. Bíllinn situr lágt niðri og grípur vel í veginn. Í fyrstu kynslóð bílsins sat ökumaður hátt uppi og leið eins og í mun stærri bíl. Í þeirri nýjustu, hins vegar, situr maður lágt niðri og fær því meiri tilfinningu fyrir veginum. Þótt skiptar skoðanir séu á sætafyrirkomulagi bílsins, þótti undirrituðum seinni kosturinn vænlegri. Lítil tilfinning er í stýrinu, en þess í stað er það létt sem gerir innanbæjarakstur þægilegri. Fjöðrunin er stíf og allt að því sportleg, en þó aldrei óþægileg. Bíllinn situr flatur í beygjum, en nær samt sem áður að strauja vel út hraðahindranir og ójöfnur í veginu.

Sá sem er ákveðinn í að fjárfesta í nýjum Yaris, getur ekki valið slæman kost. Hvort heldur sem hann velur bensín- eða dísilbíl verður hann ekki fyrir vonbrigðum. Bensínbíllinn var útbúinn 1,33 fjögurra strokka vél sem framleiðir ansi ágæt 100 hestöfl sem send eru í gegnum 6 þrepa CVT sjálfskiptingu. Í stuttu máli leyfir skiptingin vélinni að snúast á sem hagkvæmustum snúningi á mismunandi hraða og stuðlar það m.a. að minnkaðri eldsneytisnotkun. Ennfremur eru gírskiptingaflipar á stýrinu og „Sport“ takki milli framsætanna, sem gerir viðbrögð bílsins sneggri.

   Dísilbíllinn var útbúinn 1,4L D-4D vél sem skilar 90 hestöflum. Vélin í þessari útfærslu er tengd við 6 þrepa rafstýrða MM-beinskiptingu. Fólk á það til að líta á hana sem hefðbundna sjálfskiptingu, því bíllinn skiptir í raun um gír sjálfur. Svo er þó ekki. Líta má á sem svo að ýtt sé á kúplinguna fyrir ökumanninn og skipt svo um gír, sem gerir það að verkum að skiptingar geta verið nokkuð hastar, líkt og í hefðbundnum beinskiptum bílum.

Hægt er að „læra“ á skiptinguna með því að slá af rétt áður en skipt er um gír. Skiptingar verða þó aldrei jafn rennisléttar og á sjálfskiptum bíl, en á móti kemur að bílinn er mun eyðslugrennri fyrir vikið. Báðar útfærslur eru mjög hljóðlátar og einstaklega eyðslulitlar, eins og sást í árlegri sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu nú á dögunum. Niðurstöðurnar þar fyrir þá bíla sem hér er um rætt, sýna hve mikið aksturslagið hefur áhrif á eldsneytiseyðsluna. Eyðslutölurnar sem upgefnar eru í töflunni –Í hnotskurn,eru hins vegar raunverulegar eyðslutölur úr reynsluakstri ADAC í Þýskalandi.

Helsti ókosturinn við nýja Yarisinn er verðið, en verðbilið er frá 2.670.000kr. og upp í 3.490.000 kr. fyrir dísilbílinn sem reynsluekið var (án aukahluta). Það er þó nokkuð dýrara en aðrir bílar af svipaðri stærð og með svipaðan búnað.

-Róbert Már Runólfsson