Hyundai Tucson 2016

233

 

Nýjasta kynslóð Hyundai Tucson kom til landsins á seinni hluta árs 2015 og kom inn í stað IX35, sem framleiddur var frá árunum 2009 – 2015, en hann tók einmitt við af fyrstu kynslóð Tucson sem framleiddur var frá 2004 – 2009. Því má réttilega líta á hinn nýja Tucson sem þriðju kynslóð.

Þessi nýja týpa er mun laglegri en miður fallegi forverinn. Farið er samankreppta, vandræðalega andlistfall IX35 og inn kemur tignarlegra og heilsteyptara útlit. Satt að segja er nýi Tucsoninn einn myndarlegasti smájeppinn á markaðnum í dag að mati greinarhöfundar. Innréttingin er smekklega hönnuð og efnisnotkun er betri en nokkru sinni fyrr. Reynsluakstusbíllinn kom í Style útfærslu, útbúinn ljósri leðurinnréttingu og 8“ snertiskjá sem saman suðu samanfágað útlit innra     byrðis og mælaborðs. Ódýrari útfærslur koma þó með svarta innréttingu með tauáklæði og mun smærri LCD skjá (ekki snertiskjá) og verða fyrir vikið mun bragðdaufari í útliti. Flestur nútímalegur tæknibúnaður er í boði í dýrari útfærslum; upphituð fram- og aftursæti, rafdrifin framsæti, leiðsögukerfi, bakkmyndavél, blindapunktsviðvörun, sjálfvirkur neyðarhemlunarbúnaður og „gagnvirkur akreinavari“. Búnaðurinn er svipaður og reyndur var í hinum nýju Volvo XC90 og Audi Q7, en á þó langt í land samanborið við þá tvo þegar kemur að öryggistilfinningu og fágun búnaðarins. Skynjarar nema veglínur (sem eru því miður á miklu undanhaldi á íslenskum vegum) og stýrir bíllinn sér á milli þeirra. Næmni búnaðarins er þó ekki meiri en svo að þegar tekst að lesa línurnar skoppar bíllinn á milli þeirra líkt og bolti við vegg. En þótt búnaðurinn sé ekki fullkominn er engu að síður gaman að sjá svona framtíðarbúnað í boði í „almenningsbíl“ á þessu verðbili og víst er að hann mun batna með tímanum og nýjum hugbúnaðaruppfærslum. Tekið skal fram að (augljóslega) er minna um tæknilegan búnað í ódýrari útfærslum.

Sæti fyrir alla fimm farþega eru ansi þægileg og veita góðan stuðning sem gera langferðir bærilegar og rúmlega það. Nægt fótapláss er fyrir aftursætisfarþega fyrir aftan rúmlega 180 cm háan ökumann og geta þrír fullorðnir setið þar hlið við hlið án óþæginda. Fjöldinn allur af hentugum geymsluhólfum er dreifður um innra rýmið og er hanskahólfið t.a.m. tengt við loftkælingu bílsins. Til að kóróna gott rými tekur farangursrýmið 513 lítra með aftursætin uppreist og heila 1503 lítra þegar þau hafa verið felld niður.

Í akstri er Tucson þýður og notalegur ferðafélagi og býður svosem ekki upp á neina óvænta aksturseiginleika. Stýri er létt og tilfinningalaust og veggrip í rétt rúmu meðallagi. Um fjöðrunina er fátt annað að segja en að hún gerði ekkert rangt og gerði akstur að mestu mjúkan og stöðugan, enda þessi útfærsla löngu orðin stöðluð í þessum flokki með McPherson-dempara og gorma að framan og fjölarmafjöðrun að aftan. Reynsluakstursbíllinn var útbúinn tveggja lítra dísilvél sem skilar ekki nema 136 hestöflum. Uppgefnar eldsneytisnotkunartölur við blandaðan akstur frá framleiðanda er 6,1 lítri á hundraðið, en rauneyðslan í reynsluakstrinum helgi eina í febrúar var þó rúmlega 8 lítrar á hundraðið.  Ágætis tilfinning var í inngjafar- og bremsufótstigum en heldur afllítil dísilvélin og hefðbundin sex-gíra sjálfskiptingin skiluðu heldur seinu og hægu upptaki. Það er svosem ekkert óvenjulegt við það í þessum bíl í þessum stærðarflokki, en á sama tíma leitt að engin tilraun var gerð til þess að tryggja skemmtilega aksturseiginleika. Að svo sögðu er bíllinn afskaplega hljóðlátur; vélar-, vind- og veghljóð voru í algjöru og hálf ótrúlegu lágmarki úti á þjóðvegum á 90 km/klst í 6. gír. Liðin er sú tíð að þurfa hefja upp raust sína í hæstu hæðir til þess eins að spjalla við sessunaut sinn þegar keyrt er út fyrir bæjarmörkin, enda hljóðlætið á pari við marga mun dýrari lúxusbíla sem ýtir enn frekar undir þægindi langkeyrslu. Þegar malbik þrýtur skilar sjálfvirkt rafstýrt fjórhjóladrifið sínu og veitir stöuðgleika og öryggistilfinningu á flestum malarvegum og léttfenntum vegarslóðum. Þegar þörf krefur sendir rafstýrða, miðlæga mismunadrifið allt að 50% vélarafli til afturhjólanna, en einnig er hægt að læsa drifbúnaðinum þannig að jafnt afl fari til fram- og afturöxla. En þegar snjóinn tekur að dýpka fannst undirrituðum nokkuð vanta upp á veghæðina. Með aðeins 16,3 cm undir lægsta punkt frá jörðu er Tucson tilfinnanlega slegið við af bílum á borð við Nissan Qashqai (18,8 cm), Renault Kadjar (19 cm) og Subaru Outback (22,1 cm), sem eru allir í svipuðum stærðar- og verðflokki.

Að lokum má því segja að Hyundai Tucson framkvæmi þá hluti sem hinn alemenni kaupandi býst við af honum með sóma.  Þrátt fyrir að bæta mætti nokkra þætti aksturseiginleikanna er hiklaust hægt að mæla með Hyundai Tucson.

Helstu upplýsingar:

Verð: Frá 4.790.000 (2WD, bsk.) (Reynsluakstursbíll: 6.790.000, 4WD sjsk)

Afköst vélar: 136 hestöfl / 373 Nm (2,0 CRDI dísilvél í reynsluakstursbíl)

Eldsneytiseyðsla: 6,1 l/100 km (uppgefin) / 8,1 l/100 km (rauneyðsla)

Losun CO2: 156 g/km

 

Kostir:

  • Hönnun ytra og innra byrðis
  • Hljóðlæti í akstri
  • Úrval tæknibúnaðar

Ókostir

  • Líflausir aksturseiginleikar
  • Lág veghæð

Róbert Már Runólfsson