Volkswagen Tiguan 2016

Þegar hinn nýi Volkswagen Tiguan var einungis nýkominn til landsins gerðist ég svo djarfur að spyrja sölustjóra Volkswagen hvort þeir myndu lána hann í minn lengsta reynsluakstur til þessa. Svarið reyndist jákvætt og hófst ferðalagið síðdegis miðvikudaginn 6. júlí. Ferðinni var heitið ásamt æskuvini til Neskaupstaðar á þungarokkshátíðina Eistnaflug. Pakkað var helstu nauðsynjum: Tvær ferðatöskur, svefnpokar, útilegustólar, matur og drykkur. Allur farangur komst í skottið á bílnum og því ekki þörf á að hlaða í aftursætin.

Fyrsta kynslóð Tiguan, sem einmitt var valinn bíll ársins á Íslandi 2009, sló heldur betur í gegn. Á átta ára lífskeiði sínu seldist hann í rúmleg 2,6 milljónum eintaka. Nýi bíllinn er byggður á MQB-undirvagninum sem er að finna undir aragrúa bíla VW-samsteypunnar, t.d. VW Golf og Passat, Skoda Octavia og Superb og Audi A3 og TT. Helstu mælanlegu bætingar umfram gamla bílinn eru þær að bíllinn er 30 mm breiðari, 60 mm lengri og veghæðin er komin upp í  20 cm (hækkar um litla fjóra millimetra). Þá er bíllinn 50 kg léttari en áður að jafnaði (með tilliti til sambærilega útbúinna bíla) og hefur dráttargetu upp á 2500 kg.

Reynsluakstursbíllinn kom í Highline útfærslu með tveggja lítra 150 hestafla dísilvél ásamt 4MOTION fjórhjóladrifi. Fyrst ber þar að nefna 12,3“ stafrænt mælaborð og 8“ snertiskjá milli framsæta útbúið Íslandskorti, bakkmyndavél, bluetooth-tengingu, Mirror Link og Apple CarPlay til að gera bílinn fullkomna framlengingu af snjallsímanum þínum. Á stafræna mælaborðinu er hægt að skipta um útlit og upplýsingar, t.d. eyðsluupplýsingar, drægni, áttavita, leiðsögukort og umferðarskiltaupplýsingar. Til helstu þægindaauka má telja upp opnanlegt glerþak, bílastæðaaðstoð, 360° myndavélakerfi, hita í sætum og stýri, þriggja svæða miðstöð auk fjölda glasahaldara.

Keyrt var til Akureyrar síðla miðvikudags og þaðan til Neskaupstaðar daginn eftir. Fyrstu kynni af bílnum voru allsvipuð og þau í hinum árs gamla VW Passat, sem einmitt var sigurvegari í flokki stærri fólksbíla í vali á bíl ársins í fyrra, og var því umhverfi, stjórntæki og innra útlit áþekkt. Efnisnotkun var að mestu góð; leður- og mjúkir plastfletir hér og þar, en eftir því sem neðar var leitað fór að kræla á hörðum, ódýrum plastflötum. Þegar komið var út fyrir borgarmörkin var skellt í cruise control og þungarokkið sett í gang í öllum átta hátölurum. Eins og farið er að sjást í ívið fleiri nýjum bílum er hraðastillirinn radarstýrður og er með neyðarhemlun og akreinaaðstoð. Það þýðir: Bíllinn heldur settum hraða og hægir á sér í takt við bílinn fyrir framan og heldur sér einnig innan akreinarinnar séu yfirborðslínur skýrar bæði milli akreina og í vegköntum. Sökum þess hve skammarlega litlu opinberu fé er varið í vegaframkvæmdir og yfirborðsmerkingar hér á Íslandi er akreinaaðstoðin aðeins brúkleg á stuttum vegköflum hringvegarins. Bíllinn er vel hljóðeinangraður og lítill vindgnauður kemur frá hliðarspeglum. Þó var veghljóð frá dekkjum heldur hátt, enda á 19“ felgum og því með lægri prófíl en á 17“ og 18“ felgunum sem fást sem staðalbúnaður. Aksturseiginleikar voru algjörlega á pari við væntingar, sem fyrir voru ansi háar, enda hef ég nú reynsluekið fjölda bíla á þessum undirvagni og skrifað um þá allnokkra. Stýri er létt meðhöndlunar og vegtilfinning takmörkuð en bíllinn er þó almennt þéttur og semur almennt vel við beygjur. Aðlögunarhæf fjöðrunin er mjúk í „Normal“ - stillingu og fer því vel yfir ójöfnur, en skapar heldur mikinn velting í hraðari beygjum. Í „Sport“ - stillingu stífnar fjöðrunin og stýrið upp og heldur vélarsnúningi hærra uppi. Fjórhjóladrifinu er stýrt af snúningshjóli á miðstokki bílsins og má þannig aðlaga aksturseiginleika að mismunandi undirlagi sem ekið er yfir. Þar sem munur á milli akstursstillinga er aldrei það mikill að virkilegur og tilfinnanlegur ánægju- eða afkastamunur eigi sér stað, auk þess sem búast má við því að eigendur noti sjaldan aðra en „Normal“ - stillinguna, kysi ég fremur hefðbundna, óstillanlega og ódýrari fjöðrun. „Eco“ - stillingin deyfir svo inngjöf og slær niður afl til að lágmarka eldsneytiseyðslu. Hún virkar fínt á föstum hraða, en þegar kemur að því að taka fram úr eða aka frá aðrein inn á hraðari veg er best að slökkva á þeirri stillingu svo hröðunin sé næg.

Sætin reyndust vel. Þegar fyrst var sest upp í bílinn virtust þau ekki eins mjúk og „kósý“ eins og vonast var eftir, en þegar allt kom til alls þá kvartaði hvorugur okkar undan þreytu eða eymslum í baki eftir margra klukkustunda akstur. Þótt farþegar sitji ögn lægra í nýja bílnum en í þeim gamla var útsýni úr bílnum til fyrirmyndar á alla kanta þökk sé stórum rúðum og tiltölulega þunnum burðarbitum. Togið (340 Nm) var nægilegt til að koma bílnum af stað úr kyrrstöðu, en þegar kom að framúrakstri úti á þjóðvegum þótti aflið (150 hö) heldur lítið til að komast úr 80 km/klst fram úr hægfara vegfarendum á sem sneggstan og öruggastan hátt. En í stað gífurlegs afls komu fram merkilegar eyðslutölur: Á þessu ferðalagi sem átti sér að mestu stað á 90 km/klst á hringveginum reyndist meðaleyðslan ekki nema 6,1 lítrar af dísil á hverja 100 kílómetra. 

Rýmið fyrir aftursætisfarþega er skemmtilega útfært; nægt pláss er fyrir þrjá fullorðna og fætur þeirra, en sé miðjusætið laust má draga þar fram armpúða með tveimur glasahöldurum. Hurðavasar eru stórir og rúma meðalstór drykkjarílát, rétt eins og í framsætunum. Loks eru borð, eins og er að finna í flugvélum, á sætisbökum framsætanna og má draga enn annan glasahaldara úr þeim. Þau eru að vísu ekki mjög sterkbyggð og verður fara með þau af varfærni. Aftursætin eru á sjálfstæðum sleðum og má færa þau fram til að auka farangursrými eða aftur til að auka fótapláss. Einnig er hægt að halla sætisbökum aftur og er því leikur einn að koma sér þægilega fyrir í fyrsta flokks þægindum. Hin fínasta afþreying og upphitun fyrir Eistnaflugið er að koma sér fyrir í aftursætunum, halla sér aftur, skella drykk í glasahaldarann, snakki á borðið, góna til himins gegnum glerþakið og stýra tónlistinni með símanum í gegnum bluetooth. Farangursrýmið rúmar nú alls 520 lítra með aftursætin í öftustu stöðu, 615 lítra í fremstu stöðu og með einu handtaki má fella niður aftursætin og koma þá fyrir 3.310 litlum kókflöskum fyrir (alls 1.655 lítrar).

Á laugardeginum var ekið aðeins um Austrið og komið við á Skriðuklaustri og farið í hádegismat. Leiðin lá þá aftur til baka á Neskaupstað þar sem upphitun fór í gang fyrir aðalnúmerin á hátíðinni: Opeth og Meshuggah frá Svíþjóð. Á sunnudeginum 10. Júlí var keyrt heim nánast í einum rykk til að ná úrslitaleik Evrópumótsins í knattspyrnu í Frakklandi í sjónvarpinu heima og tók sú ferð rétt rúmar 9 klukkustundir. Fyrst fór að kræla á þreytu og vott af bakverkjum þegar komið var í Borgarnes.

Þegar heim var komið höfðu alls 1750 km verið eknir. Fólksvagninn stóð algerlega fyrir sínu og var frábær ferðafélagi. Reynsluaksturinn átti sér stað, eins og kom hér fram, dagana 6. – 11. júlí, en nú í september var bíllinn valinn jepplingur ársins 2017 á Íslandi.

Helstu upplýsingar – VW Tiguan 2.0 TDI 4Motion Highline:

Verð: 6.790.000 kr. (Grunnverð fyrir Trendline: 4.990.000 kr)

Afköst vélar: 150 hestöfl / 340 Nm

Eldsneytisnotkun: 5,7 l/100 km (uppgefin) / 6,2 l/100 km (rauneyðsla)

Losun CO2: 149 g/km

 

Kostir:

  • Hljóðlæti og þægindi í akstri
  • Rými fyrir farþega og farangur
  • Eyðslugrönn vél

Ókostir:

  • Vantar örlítið meira afl á hærri snúningi
  • Efnisnotkun á örfáum stöðum innra rýmis

 

Róbert Már Runólfsson