Renault Captur 2014

Renault Captur tilheyrir nýrri bylgju agnarsmárra jepplinga. Bíllinn er byggður á Renault Clio, sem komst t.a.m. í úrslit í fyrra, en er stærri á alla kanta. Veghæðin er talsvert hærri sem hentar minni háttar torfæruakstri, þó afl sé aðeins sent til framhjólanna. Fjórhjóladrif er því miður ekki í boði og því bíllinn flokkaður sem smærri fólksbíll fremur en jeppi/jepplingur. Útlit bílsins er heldur sérstakt og ekki sniðið að smekk allra – líkt og í þessu tilfelli hjá undirrituðum. Að öðru leiti er lítið út á bílinn að setja. Aksturseiginleikar minna um margt á Clio-inn sem þessi bíll er byggður á og er það mikið lof, enda Clio-inn stórskemmtilegur akstursbíll. Hærri veghæð gefur ökumanni betra útsýni yfir veginn og auðvelt er að setjast inn í bílinn. Rými er gott, nægilegt pláss fyrir farþega í fram- og aftursætum, farangursrými er sæmilegt og staðalbúnaður rausnarlegur. Bíllinn var útbúinn stórum snertiskjá þar sem m.a. var að finna leiðsögukerfi með Íslandskorti. Snertiskjárinn er framúrskarandi þegar miðað er við marga aðra bíla, því í staðinn fyrir að eyða tíma og pening í að hanna sitt eigið kerfi leitaði Renault til LG vegna afþreyingarkerfisins. 

1.5 lítra dísilvélin vinnur vel, er hljóðlát, skilar sæmilegu afli og notar við það ansi lítið eldsneyti. Meðan á reynsluakstri stóð hélst meðaleyðslan rétt um 5 lítra á hundraðið og mætti auðveldlega minnka hana með enn gætilegra aksturslagi. Einnig losar vélin sáralítið af koltvísýringi í andrúmsloftið og er því frítt að leggja bílnum í miðborginni í 90 mínútur.

Helstu upplýsingar:

Verð: 3.590.000 kr

Afl: 90 hestöfl

Rauneyðsla eldsneytis: 5 l/100 km

Losun CO2: 95 g/km

 

Kostir:

Hljóðlæti

Vinnsla vélar

Afþreyingarkerfi

Gallar:

Útlit

Skortur á fjórhjóladrifi