Volkswagen Golf 2013

Hvað er það við Volkswagen Golf sem gerir hann að svo góðum bíl? Hvers vegna er hann svona óhemju vinsæll? Hvers vegna er hann mælistika bíla í sínum stærðarflokki (sem nota bene kallast í daglegu tali „Golf-stærð“)?  Í stuttu máli sagt, eftir að hafa ekið öllum keppinautum sem seldir eru á Íslandi, er svarið einfaldlega hversu gegnheill pakki þessi bíll er. Vélarnar tvær sem eru í boði eru einstaklega sparsamar, en þó sprækar. Hvort sem valin er  1.4 TSI bensínvélin eða 1.6 TDI dísilvélin er alltaf nægilegt tog fyrir hendi, hljóðlætið í fyrirrúmi og vinnslan silkimjúk. Eldsneytiseyðslan er til fyrirmyndar; rúmir 5 l/100 km sé 1.4 TSI vélin valin og aðeins tæpir 4 l/100 km verði dísilvélin fyrir valinu. Beinskiptingar frá VW samteypunni eru nær gallalausar hvað varðar slaglengd, léttleika og tilfinningu fyrir vélinni. Ennfremur er nýjasta uppfærslan á 7 þrepa DSG sjálfskiptingunni einhver sú besta sem til er á markaðnum í dag. Bíllinn er vel útbúinn í grunnútfærslu og kemur m.a. með hljómtæki með  5.8“ snertiskjá, bluetooth tengingu fyrir síma og alls kyns aksturstölvur. Innréttingin er snyrtileg, „ergónómísk“ og efnisnotkun er til fyrirmyndar. Bíllinn er einstaklega vel hljóðeinangraður og í ofanálag er fjöðrunin hreinlega dásamleg. Aksturseiginleikar eru meira en hæfilega góðir og ójöfnur í vegi eru snyrtilega straujaðar út þökk sé fyrrnefndri fjöðrun.

Er eitthvað sem er ekki frábært við nýja Golfinn? Jú, til eru bílar með skemmtilegri aksturseiginleika í þessum flokki fyrir þá sem hafa gaman af „metnaðarfullum“ akstri, t.a.m. Ford Focus. Útlit Golfsins, þrátt fyrir að vera mjög auðkennanlegt fyrir Golf, er heldur líflaust og ekki mikið breytt umfram síðustu kynslóðir.  Einnig eru til bílar í svipuðum verðflokki, jafnvel ódýrari, sem hafa talsvert meira farþega- og farangurspláss. Að svo sögðu er ekki hægt að kvarta undan plássleysi í Golfinum. Þrír farþegar geta setið í mestu makindum í aftursætum án mikilla vandræða og skottið rúmar 380 lítra með aftursætin í uppréttri stöðu. Sú tala vex upp í 1.270 lítra séu þau hins vegar felld niður.

VW Golf kostar frá 3.670.000 kr og upp í 4.650.000 kr áður en nokkrum aukahlutum er bætt við. Vert er að benda á að Golfinn er hættulega nálægt Skoda Octavia í verði, en hann er talsvert rúmbetri.

VW golf sigraði flokk smærri fólksbíla í vali á Bíl ársins 2014 og hlaut 701 stig af 1200 mögulegum.

Kostir

Þægindi í akstri

Búnaður

Vélar og gírskiptingar

Gallar

Útlit

Verð