Kia EV6 / Hyundai Ioniq 5
Um mitt ár 2017 bárust þær fréttir að bílaframleiðandinn Hyundai hefði hafið þróun á nýjum undirvagni fyrir alrafmagnaðan bíl. Þótt stutt virðist síðan þá höfðu ekki margir framleiðendur farið af stað í þesskonar hönnun þar sem margir rafbílar voru, og eru enn, byggðir á grunni brunahreyfilsbifreiðar.
Úr varð E-GMP (Electric Global Modular Platform) undirvagninn sem er með möguleika á breytilegu hjólhafi og rafhlöðuuppsetningu fyrir mismunandi tegundir og framleiðendur. Þá er einnig gert ráð fyrir drifi á öllum hjólum.
Tæpum fjórum árum síðar fóru fyrstu bílarnir með nýja undirvagninum í framleiðslu. Í raun voru þar á ferð þrír bílar frá þremur framleiðendum, þ.e. Hyundai, Genesis sem er sjálfstætt merki í eigu Hyundai og markaðssett í Bandaríkjunum og síðan Kia sem Hyundai á ráðandi hlut í.
Í Evrópu hefur Hyundai Ioniq5 og Kia EV6 fengið einstaklega góðar móttökur og meðal annars deilt með sér verðlaunum um bíl ársins í fjölmörgum löndum.
Því var ákveðið að taka að taka jafnt til prófunar Kia EV6 og Hyundai Ioniq5 og bera saman hvort og hver sé í raun munur á bílum sem deila sama undirvagni en hannaðir og settir saman af sitthvorum framleiðandanum.
Svart og hvítt
Bílarnir voru í orðsins fyllstu merkingu svart og hvítt þar sem Kian var svört að bæði innan og utan í GT-útfærslu. Hún fólst aðallega í sportlegra ytra byrði og útlitsbreytingum að innan eins og varðandi sætisáklæði. Þá var bíllinn útbúinn 77kwh rafhlöðu og drifi að aftan Á meðan var Ioniq 5 hvítur bæði að utan og innan í Premium-útfærslu sem meðal annars var með glerþaki og uppfærslu á hreyfanleika í fram- og aftursætum.
Útlit
Að utan geta bílarnir nánast ekki verið ólíkari en Hyundai tók þá djörfu ákvörðun að sækja innblástur fyrir hönnun í fyrsta bílinn sem þeir settu á markað árið 1975 undir nafninu Hyundai Pony. Ferhyrnd fram og afturljós samsett úr dílum (e. pixel) sem voru alsráðandi þegar PacMan var upp á sitt besta.
Síðan er það EV6 sem er jafn straumlínulagaður eins og Ioniq 5 er ferhyrndur. Einkennandi afturljósin koma í boga nánast frá hjólaskálum að aftan og yfir afturhlerann og mynda eins konar vindkljúf og heyrði undirritaður orðið Batman-bíll oftar en einu sinni á meðan prófunum stóð og er það ekki fjarri lagi, sérstaklega þar sem bíllinn var kolbikasvartur.
Báðir voru bílarnir á 20“ felgum er koma sem aukabúnaður á dýrari útgáfu bílanna en grunngerðirnar koma á 19“. Athygli vekur að þrátt fyrir að yfirbyggingin á Ioniq 5 virðist teiknuð með réttskeið er viðnámsstuðull (CD) á milli bílana sá sami eða 0,28.
Innra rými
Að innan eru báðir bílarnir mjög rúmir sem kemur sérstaklega til vegna þess hve mikið hjólhafið er á nýja E-GMP undirvagninum eða heilir þrír metrar á Ioniq en EV6 var með aðeins skemmra eða 2,9 metra.
Hvíta innréttingin og stóri þakgluggi í Ioniq jók án efa á rýmdarvitund í farþegarýminu. Gott pláss er fyrir ökumann og farþega í framsæti og sama gildir fyrir farþega í aftursætunum sem eru hallanleg. Einnig eru þau á sleða og því er hægt að renna þeim fram til að auka á skottpláss eða ná auknum halla fyrir sætisbakið. Premium-útgáfan er útbúin þægindaframsætum (e. relextion seats) sem er einnig í boði hjá Kia. Í grunninn er hægt, með einum takka, að breyta báðum framsætum í hægindastól með skemmli. Við fyrstu sýn er erfitt að sjá í hverju notagildið felst að hafa hægindastól í bílnum en raunin er að kröfur til bættrar hvíldaraðstöðu í bílum hefur aukist í takt við lengri stopp þegar bílar eru í hleðslu og er þetta eflaust ágætur aukabúnaður fyrir þá sem aka lengri vegalengdir og þurfa að stöðva ferð til að hlaða bílinn.
Vel loftar um miðjustokkinn í báðum bílunum en skortur var á geymslurými fyrir síma og annað lauslegt öfugt við EV6. Hanskahólfið var skemmtilega útfært sem skúffa fremur hólf og því er notagildið töluvert meira en ella. Afturrúðurnar eru stærri í bílnum heldur en hjá EV6 og veitir það aukna birtu, betra útsýni og auðveldara er fyrir yngstu farþegana að sjá út.
Hjá EV6 breytist andrúmsloftið til muna. Það fyrsta sem undirritaður varð var við þegar sest var undir stýri var hversu lágt var í raun til lofts og þurfti sætið að vera fremur lágstillt. Eitthvað hefur væntanlega tapast af höfuðrými vegna topplúgu sem nær yfir hálft þakið og er opnanleg, öfugt við glerþakið í Ioniq. Augljóst er að innrétting og sæti eru í takt við útlit bílsins en hún er sportlegri með þéttara og vandaðra yfirbragði. Með sportlegri hönnun og lægra, aflíðandi þaki opnast pláss af höfuðrými í aftursætum en gólfpláss er mjög gott fyrir alla. Ólíkt Ioniq 5 eru aftursætin frekar lág og getur það mögulega valdið þreytu á lengri ferðum þar sem lærin hafa ekki nægan stuðning.
Þegar kemur að geymslurými hefur Hyundai vinninginn með 527 lítra skottpláss gegn 490 lítrum í EV6. Báðir bílarnir hafa einnig geymslupláss að framan undir húddinu en það er á bilinu 20 lítrar í fjórhjóladrifnu útgáfunum og upp í 52 lítrar á þeim afturhjóladrifnu.
Stjórntæki
Eins og í flestum nýrri bílum í dag eru komnir stórir upplýsingaskjáir í stað fyrir hefðbundin mælaborð og eru báðir bílarnir útbúnir tveimur 12,3“ skjáum. Annar er fyrir ökumann og síðan er snertiskjár fyrir miðju mælaborðs sem sér um margmiðlun og aðrar stillingar. Óþarflega langt var í snertiskjáinn og þurfti iðulega að teygja sig fram til að framkalla aðgerðir. Stillingar á miðstöð eru í sjálfstæðri einingu en mikill munur var á milli bílana þar sem stýringarnar í EV6 voru í snertum sem undirritaður var almennt ekki hrifinn af þar sem ekki er hægt að breyta stillingum nema að taka augun af veginum og ekki bætti úr skák að velja þarf virkni á takkaborðinu eftir því hvort maður vilji nýta það til að stjórna margmiðlunarkerfinu eða miðstöðinni. Þannig virkaði takkinn fyrir hljóðstyrk einnig sem hitastýring.
Hyundai-menn fóru aðra leið í þessu máli og gerðu miðstöðina sjálfstæða sem er skömminni skárra þótt svo að hún sé enn stillt með snertum en grunnstýringar fyrir margmiðlunarkerfið voru færðar upp og settar í „alvöru“ takka. Kian hefur hins vegar þann kost umfram Hyundai að hafa bætt við tökkum fremst á miðjustokk þar sem meðal annars er hægt með auðveldum hætti að kveikja á hita í stýri og sætum. Á meðan þarf að fara í gegnum upplýsingaskjá til að virkja hitann í Ioniq 5. Báðir bílarnir voru með svipaðar stýringar í stýri fyrir helstu atriði eins og hljóðstyrk og hraðastilli.
Eins minnst var á hér að ofan, EV6 hefur umtalsvert sportlegra yfirbragð og setti undirritaður sig í þær stellingar þegar sest var undir stýri. Sætið var lækkað til að fá lægri aksturstöðu og einnig hversu lágt var til lofts. Þá var stýrið lækkað í góða hæð miðað við sportlegan bíl. Þegar allt var komið á sinn stað kom í ljós að með engu móti var hægt að sjá á allt mælaborðið sem er stór skjár og þarf að rúmast í sjónlínu í gegnum stýrið. Því þurfti að hækka stýrið aftur sem getur leitt til þreytu í lengri akstri þegar ekið er með báðar hendur á stýri í réttri stöðu (10 í 2). Í Ioniq 5 er skjárinn jafn stór og stýrið svipað en uppsetning bílsins hvetur ökumann til að sitja hátt og því er þetta ekki eins mikið vandamál í þeim bíl þótt skjárinn í þessum bílum og öðrum eru komnir að þolmörkum í stærð ætla framleiðendur að halda áfram að varpa upplýsingum í gegnum stýrið.
Akstur
Hér var töluverður munur á bílum og kemur sérstaklega til vegna útfærslum. Ioniq 5 kom í Premium-útfærslu sem er sú dýrasta með fjórhjóladrifi og 306 hestafla mótor. EV6 var hins vegar grunnútgáfa með GT-uppfærslu á útliti og innréttingu en mótor 229 hestöfl á afturhjól. Að því sögðu var Hyundai bíllinn mun sprækari með 5,2 sekúndur í hundraðið eða tæpum tveimur sekúndum skemur en EV6. Þó má samt velta upp þeirri spurningu í ljósi þess að hröðun „venjulegra“ bíla er orðin á við bestu ofursportbíla fyrir nokkrum áratugum, hvort við höfum í raun not fyrir þetta í daglegum akstri. EV6 var ágætlega sprækur og kom sér skammlaust áfram.
Ekki voru aðstæður til að láta reyna á fjórhjóladrifið, sérstaklega á Ioniq. Þó kemur enn á óvart hversu rásfastir afturhjóladrifnir rafmagnsbílar eru í raun vegna jafnrar þyngdardreifingar. Því er mikilvægt að kaupendur prófi afturhjóladrifinn rafmagnsbíl með opnum huga og setji til hliðar fyrri reynslu af framþungu eldsneytisbílunum sem voru léttir að aftan og gátu látið illa af stjórn.
Báðir bílarnir létu vel af stjórn þrátt fyrir stór dekk sem eru ekki alltaf að vinna með bílum sérstaklega á íslenskum vegum með fræg hjólför og holur. Báðir voru bílarnir á grófum vetrardekkjum og skilaði það sér að einhverju leyti í auknum veggný en þó var hljóðvist bílana mjög fín.
Það kemur ekki á óvart að fjöðrunin er ívið stífari í EV6 og veitir það bílnum sportlegri eiginleika við akstur og er hann kvikari í stýri á meðan Hyundai virðist leggja frekari áherslu á mýkt.
Ekki var farið sérstaklega í mælingar á drægni eða eyðslu en EV6 er í boði með tveimur rafhlöðum þ.e. 58 kWh með uppgefna drægni 394 km og síðan 77 kWh með 528 km við bestu aðstæður. Síðan hefur Ioniq 5 einnig tvær stærðir í boði en sú stærri er snöggt um minni en hjá EV6. Þær eru 58kWh með drægni upp að 384 km og síðan 73 kWh með drægni allt að 481 km.
Nýi E-GMP undirvagninn keyrir á 800v kerfi og gerir það bílunum kleift að taka við 250kW hraðhleðslu sem er vel af sér vikið og ætti að geta skilað allt 10–80% hleðslu á um 18 mín. Þá er einnig hægt að hlaða bílinn á allt að 11kw á AC sem gagnast vel á minni hleðslustöðvum eins og heima við.
Niðurstaða
Eftir prófanir kemur ekki óvart að fólk skiptist í fylkingar um hvor bíllinn sé betri, því að þeir hafa upp á fjölmargt að bjóða hver á sinn hátt.
Hyundai Ionic yrði fyrir valinu ef undirritaður ætti að velja bíl fyrir fjölskylduna með yngri börn, þar sem hann er bjartari, mýkri og auðveldari í umgengni. Hins vegar yrði Kia EV6 málið ef óskað væri eftir akstursbíl fyrir lengri ferðir með sportlegra yfirbragði og akstureiginleikum.
Báðir eru bílarnir með sjö ára ábyrgð og á svipuðu verðbili. Ágætt er að minnast á að KIA mun bráðlega kynna eGT útgáfu af EV6 sem verður heil 585 hestöfl, 740Nm í tog og litlar 3,5 sekúndur í hundraðið.
Það eru fjölmörg atriði sem ekki náðist að fara yfir í þessari grein en bílarnir eru ríkulega búnir og þá sérstaklega að því er varðar öryggi og akstursaðstoð sem skilaði bílunum fullu húsi í árekstrarprófunum Euro Ncap. Því er um að gera að kíkja í umboðin og prófa hvor bíllinn henti betur.
Einnig bjóða bílarnir upp á ágæt dráttargetur miðað við rafmagnsbíla en báðir bílarnir geta dregið allt að 1600 kg á hemluðum vagni.
Að öllu sögðu eru þetta tveir góðir valkostir og frábær viðbót við ört stækkandi rafbílaflóru hér á landi. Enn er hægt að framleiða söluvænlega bíla með frumlega hönnun og gott notagildi.
Björn Kristjánsson, maí 2022
Hyundai Ioniq 5 Premium Kostir: Rými, útlit Verð: 5.990.000 kr. - 8.390.000 kr. |
Kia EV6 GT-Line RWD Kostir: Aksturseiginleikar, innrétting Verð: 5.990.777 kr. - 10.290.777 kr. |