Ford Kuga 2013


Ford Kuga endaði í þriðja sæti í flokki jeppa og jepplinga í vali á bíl ársins á Íslandi 2014. Þetta er önnur kynslóð Kuga, en hann er byggður á C1 grunni frá Ford sem má einnig finna í Ford Focus og C-Max, Volvo C30, S40 og V50 og Mazda 3. Réttur framburður á Kuga er „Kjúga“ og eru Íslendingar beðnir um að varast annan framburð, hver svo sem hann kann að vera.

Í augum undirritaðs hittir útlit og hönnun Ford Kuga beint í mark – að utan í það minnsta. Andlitsfallið er agressívt og samsvarar sér vel með öðrum hliðum bílsins. Að innan er svipaða sögu að segja; sætin eru lagleg og löguleg, geymsluhólf eru næg og yfirbragðið hið ágætasta að undanskildu takkaborði fyrir afþreyingarkerfi bílsins. Hönnunin er að mestu sú sama og í öðrum Fordum á borð við Focus, Fiesta, B-Max og C-Max og er, þrátt fyrir ungan aldur, farin að missa marks hvað varðar fagurfræði og notagildi. Bláir stafir á dökkum fleti skjásins milli framsætanna eru hreinlega úreltir, en frekar mætti búast við skjá í fullum lit líkt og keppinautar státa sig af. SYNC kerfið frá Ford hefur verið nokkuð gagnrýnt, en með þrautsegju og þolinmæði ætti hver sem er að geta nýtt það til fulls. Bíllinn er stærri en fyrri kynslóðin, 81 mm legngri, sem þýðir að pláss er hið sæmilegasta fyrir farþega, höfuð- og fótarými er gott en þó verður ansi þröngt með þriðja farþega í miðjusæti. Farangursrými er rausnarlegt og útsýni út bílnum almennt gott.

Reynsluakstursbíllinn var útbúinn 1.6 lítra EcoBoost bensínvél sem skilar heilum 182 hestöflum, sem var nóg til að skilja keppinautana hreinlega eftir á Kvartmílubrautinni. Kugan einkenndist af sportlegustu aksturseiginleikum í sínum flokki, en sökum nokkuð stífrar fjöðrunar var malarvegaakstur heldur harðgerari en t.d. hjá Honda CR-V. Að auki var eldsneytiseyðslan ekki ákjósanleg og ekki nógu nálægt uppgefnum tölum frá framleiðanda. Rauneyðsla m.v. blandaðan akstur reyndist um 8.5 lítrar á hundraðið.

Að lokum má nefna að Ford Kuga er mjög öruggur bíll, en hann hlaut t.a.m. 5 stjörnur og hæstu einkunn sem gefin hefur verið fyrir jepplinga af millistærð í árekstrarprófunum EuroNCAP.

Helstu upplýsingar:

Verð: Frá 5.790.000 kr – 6.190.000 kr (án aukabúnaðar)

Afl: 140 hestöfl (2.0 TDCi dísil) / 182 hestöfl (1.6 EcoBoost)

Hröðun 0-100 km/klst: 9.7 sekúndur

Eldsneytiseyðsla í blönduðum akstri: 7.7 l/100 km

Losun CO2: 179 g/km

 

Kostir:

Útlit

Farangursrými

Gallar:

Afþreyingarkerfi

Pláss fyrir þriðja farþega í aftursætum

Eldsneytiseyðsla (bensín)