Opel Astra 2016

 

Opel Astra hefur raðað inn verðlaunum og viðurkenningum síðan hann var frumsýndur á bílasýningunni í Frankfurt í September 2015. Bíll ársins í Evrópu 2016, Gullna Stýrið 2016 á vegum þýsku miðlanna Auto Bild og Bild am Sonntag, fimm stjörnur í árekstrarprófi Euro NCAP og nú síðast, bíll ársins 2017 í flokki smábíla og minni fólksbíla að mati Bandalags íslenskra bílablaðamanna.

Nýja Astran, sem er komin á sína fimmtu kynslóð, er alls ekki ólík fyrirrennaranum í útliti. Þegar hins vegar er litið er til tæknilegra nýjunga er auðséð að bíllinn er gjörbreyttur. Ódýrasta útfærslan, með 1,0 lítra forþjappaðri bensínvél og fimm gíra beinskiptingu kostar frá 2.990.000 kr en prufubíllinn kom í næstdýrustu útfærslunni; Innovation með 1,6 lítra forþjappaðri dísilvél, og sex gíra beinskiptingu og kostar þannig 3.890.000 kr. Það er merkilegt að sjá hvað þessi litli millistærðarfólksbíll fyrir hinn „meðal einstakling“ býður upp á mikinn tæknibúnað, bæði í þágu öryggis og þæginda. IntelliLink margmiðlunarkerfi með 7“ snertiskjá, bakkmyndavél og fjarlægðarskynjara er að finna í betur búnum útfærslum, en þó vantar leiðsögukerfi með Íslandskorti. Í öryggisdeildinni er að finna akreinavara, árekstrarvara og umverðamerkjaaðstoð ásamt bílastæðaaðstoð. Framsætin, sem voru upphituð og rafstýrð, föðmuðu farþega þétt og örugglega að sér og stuðluðu að vellíðan undir stýri. Öll stjórntæki voru innan seilingar og takkarnir veittu akkúrat næga mótstöðu til að undirstrika þýska gæðasmíði sem bíllinn hefur verið svo ítrekað auglýstur fyrir. Yfirbragð innra rýmis einkennist því af gæðum og notagildi. Verst er þó hve margmiðlunarkerfið og aksturstölvan í mælaborðinu eru flókin í notkun við fyrstu (og önnur) kynni. Hér vantar upp á einfaldleikann eins og er að finna í sambærilegu kerfi frá t.d. Volkswagen samsteypunni. Eftir smá stund kemst maður þó upp á lagið með IntelliLink kerfið og fær öllum sínum skipunum framfylgt. Aftursætisfarþegar fá hvor sinn sætahitara og USB-tengi og armpúða í miðjusæti. Fótapláss er gott og höfuðrými nægt fyrir rúmlega meðalháa einstaklinga. Farangursrýmið er djúpt og rúmt, en hár kantur gerir það að verkum að erfitt getur reynst að hlaða þungum hlutum aftur í bílinn. Aftursætin eru niðurfellanleg („40-20-40“), en vænn hryggur myndast þar sem sætin falla niður og verður gólfið því aldrei fyllilega flatt. Með rúmmál upp á 370 lítra með sætin uppi og 1.210 lítra með þau niðri verður þó að segjast að plássið er með ágætum og vel það.

Í akstri koma svo bestu eiginleikar Opel Astra fram. Lifandi og sterk dísilvélin togar 300 Nm og skilar 110 hestöflum. Upptak er snöggt og óvænt, gírskiptingar hæfilega mjúkar og slaglengd gírstangar hæfilega stutt til að vekja gleði og ánægju ökumanns. Stýrið er næmt og svara framhjólin minnstu hreyfingum stýrisins á fyrirsjáanlegan hátt og eflist þ.a.l. sjálfstraustið við harðari akstur. Astran kom virkilega á óvart í krefjandi brautarakstri á akstursbraut Kvartmíluklúbbsins og lét vel af stjórn eftir að hafa verið „refsað“ af öllum meðlimum dómnefndar. Undirstýring var í lágmarki og henti skriðvörnin bílnum frekar í smávægilega yfirstýringu ef eitthvað var þegar mest var lagt á hann í hröðum, kröppum beygjum. Með þennan ofurmetnaðarfulla akstur til hliðsjónar er bílnum því fullkomlega treystandi úti á hlykkjóttum þjóðvegum Íslands og ótakmörkuðum þýskum Autobahn-hraðbrautum.

Með samspil aragrúa tæknilegra nýjunga, hljóðláts og þægilegs innra rýmis og traustvekjandi aksturseiginleika er því Opel Astra vel að öllum sínum titlum kominn.

Helstu upplýsingar – Opel Astra Innovation 1,6 dísil, beinskiptur:

Verð: 3.890.000 kr. (Grunnverð fyrir Essentia: 2.990.000 kr)

Afköst vélar: 110 hestöfl / 300 Nm

Eldsneytisnotkun: 3,7 l/100 km (uppgefin) / 5,9 l/100 km (rauneyðsla)

Losun CO2: 97 g/km

 

Kostir:

  • Aksturseiginileikar við flestar aðstæður
  • Gæðatilfinning
  • Tæknilegur öryggis- og þægindabúnaður

Ókostir:

  • Flókið margmiðlunarkerfi
  • Skortur á leiðsögukerfi
  • Farangursrýmið ekki nógu flatt og aðgengilegt

Róbert Már Runólfsson