Volvo XC90 2015

Volvo XC90 er bíll ársins á Íslandi árið 2016. Segja má að löngu hafi verið kominn tími á nýjan XC90 enda eru heil 13 ár síðan fyrsta kynslóðin steig fram á sjónarsviðið. Hér er um að ræða 7 sæta lúxusjeppa sem skarar fram úr á sviði hönnunar, öryggis og tækninýjunga. Bíllinn er mun laglegri en áður að utan og viðheldur myndarlegum jeppahlutföllum með langri vélarhlíf og nær lóðréttum afturhlera. Aðal breytingarnar eru þó í innra rými bílsins sem einkennist af smekklegri og minimalískri hönnun. Í stað takkahafs kemur 9“ snertiskjár sem stýrir upplýsinga- og afþreyingarkerfi bílsins, en þar fyrir neðan situr skrunhjól sem stýrir útvarpinu. En þótt hönnunin sé stílhrein er ég ekki einn um það að finnast hentugra að hafa, í það minnsta, áþreifanlega takka sem stýra miðstöð bílsins ásamt útvarpi. Einnig verður að segjast að við fyrstu kynni þótti stýrikerfið heldur flókið og ekki allra að notfæra sér alla þá möguleika sem það hefur upp á að bjóða. Á þeim tveimur dögum sem ég hafði bílinn til reynsluaksturs fannst mér því vanta nokkuð upp á til að kerfið gæti talist þægilegt í notkun. Aftur á móti ættu eigendur til fleiri en tveggja daga að geta gefið sér tíma í að ná fullkomnum tökum á kerfinu, líkt og nýjum snjallsíma. Reynsluakstursbíllinn var útbúinn hlýlegri, ljósri leðurinnréttingu og flennistóru glerþaki ásamt því sem dökkur, mattur viður prýddi mælaborð, miðjustokk og hurðir bílsins. Volvo-ar hafa lengi verið þekktir fyrir mjúk sæti, næstum því hægindastóla, sem faðma farþega að sér heiðrar hinn nýji XC90 þá hefð með stakri prýði. Framsætin eru rafstýrð og stillanleg á 10 vegu og sætin í miðjuröðinni eru hvert á sínum sleða sem færa má fram og aftur til að auka fótapláss í öftustu sætaröðinni eða farangursrými. Einnig er hægt að halla sætisbökum fram og aftur til að hámarka þægindi miðjuraðar. Auðvelt er að fella þau fram með einu handtaki til að veita aðgang að tveimur öftustu sætunum sem reyndust merkilega rúmgóð fyrir hinn rúmlega 180 sentímetra mig – Í það minnsta vel ásættanleg fyrir stuttar ferðir. Að auki eru glasahaldarar og geymsluhólf í öllum sætaröðum bílsins og er hann því tilvalinn í ferðalög. Aftari tvær raðirnar leggjast svo flatar í gólfið þegar hámarksfarangursrýmis er óskað. Rýmið er það stórt að jafnvel þótt aftasta sætaröðin sé uppi er svipað pláss fyrir aftan hana og í ýmsum millistærðar hlaðbökum.

Í afþreyingarkerfinu er að finna fullkomið Íslandskort og 360° myndavélakerfi sem gerir það að verkum að einstaklega létt er að leggja þessu ferlíki. Ekki nóg með það, þá er bíllinn með svokallað Park-Assist kerfi, líkt og sífellt fleiri bílar í dag, sem leggur bílnum fyrir þig í stæði.

Kostir og gallar bílsins koma fram í akstri. Aflið úr tveggja lítra D5 dísilvélinni er nokkuð gott; 225 hestöfl og 470 Nm af togi þýðir að hröðun frá kyrrstöðu í 100 km/klst tekur rétt tæpar 8 sekúndur meðan uppgefin eldsneytiseyðsla er aðeins tæpir 6 l/100 km. Þó má gera ráð fyrir að raunhæf eyðsla í blönduðum akstri sé nær 8-9 l/100 km við íslenskar aðstæður. Það sem helst mætti setja út á bílinn er að þótt reynsluakstursbíllinn var útbúinn rándýrri loftpúðafjöðrun hefði hún mátt vera mýkri, þ.e. meira í ætt við aðra Volvo-a frekar en að reyna að líkjast sportlegri jeppum frá Audi og BMW í innanbæjarakstri. Einnig þótti mér vélin ekki vera eins hljóðlát og ég bjóst við áður en ég ók bílnum. Án þess að kalla hana háværa var maður samt alltaf var við vélarhljóðið, ólíkt því sem ég upplifði í keppinautnum Audi Q7 sem hefur tvo auka strokka. Upptakið var, eins og áður segir, ágætt með allt þetta tog en samspil gírkassans og aðeins fjögurra strokka í vélarrúminu þýddi að það var ekki eins línulegt og í samræmi við inngjöf hægri fótarins eins og mætti óska sér. En eins og með allt gírkassa- og forþjöppuhik lærir maður inn á það og ekur eftir því. Rammíslenskur og blautur malarvegaakstur var svo eins bærilegur og best verður á kosið; samspil fínstilltrar fjöðrunar, stýrisbúnaðar og skrik- og skriðvarnar gerðu aksturinn í senn mjúkan og stöðugan á öllum hraða sem maður treysti sér í. Hvað annan öryggisbúnað varðar náði ég (óvart) að prófa City Safety búnaðinn þegar bíll svigaði í veg fyrir mig á Hringbrautinni. Rauð ljós loguðu í mælaborðinu, hávært „píp“ ómaði úr hátölurnum, sætisbeltið strekktist að mér og bíllinn hemlaði fyrir mig – allt á rétt tæpu augnabliki! Nú þegar ég veit að búnaðurinn virkar ætla ég að gera mitt besta að prófa hann ekki aftur.

Í stuttu máli sagt er Volvo XC90 góður í akstri, frábær með tilliti til hönnunar og þæginda og framúrskarandi með tilliti til öryggis.

Helstu upplýsingar:

Verð: Frá 10.590.000

Afköst vélar: 225 hestöfl / 470 Nm

Eldsneytiseyðsla: 5,8 l/100 km (uppgefin) / 8,5 l/100 km (rauneyðsla)

Losun CO2: 152 g/km

 

Kostir:

  • Hönnun ytra og innra byrðis
  • Rými
  • Þægindi
  • Öryggi

Ókostir

  • Hávaði vélar
  • Ekki nógu línulegt upptak