Land Rover Discovery 5

Land Rover Discovery 5 HSE TDV6

Fimmta kynslóð hins þaulreynda Land Rover Discovery lenti nýverið á Íslandi. Hornrétt og ferköntuð hönnun fyrri kynslóða víkur fyrir ávalari, flæðandi línum. Þá er andlitsfalli hinna afurða Land Rover framleiðandans splæst saman við nýja bílinn. Í anda Discovery ættarinnar er staðsetning númeraplötunnar að aftan ósamhverf, en ólíkt fyrri bílum er öll afturrúðan samt samhverf. Útkoman er heldur torkennileg í augum einstaklings sem þótti fráfarandi bíllinn einn sá myndarlegasti allra jeppa, en segja þó sumir sem samsinna þeirri skoðun (og ekki einungis starfsmenn BL) að útlit nýja bílsins venjist hratt. Ég bíð þá og vona.

Reynsluakstursbíllinn kom í HSE útfærslu með þriggja lítra forþjappaðri V6 dísilvél sem skilar 258 hestöflum og 600 Nm af til allra fjögurra hjóla í gegnum 8-þrepa ZF gírkassa. Til að tryggja að öll þessi afköst hafa einhverja þýðingu í torfærum kemur bíllinn með millikassa með háu og lágu drifi ásamt rafstýrðu Terrain Response 2 - kerfi. Kerfið býr yfir sér-forrituðum stillingum á mismunadrifunum, skriðvörninni og ABS hemlunum fyrir mismunandi undirlag sem ekið er yfir; malbik, möl, snjó, gras, leðju, sand og grjót. Staðalbúnaður á öllum bílum seldum á Íslandi er rafstýrð loftpúðafjöðrun sem gerir utanvegaeiginleika enn magnaðri. Með venjulegri gormafjöðrun er veghæð undir lægsta punkt 220 mm, en með loftpúðafjöðruninni í hæstu stöðu er hún heilir 284 mm. Það sem ekki síst er vert er að hafa í huga fyrir torfæruakstur er aðkomuhornið (flái að framan)  sem er 34°, brottfararhorn (flái að aftan) er 30° og fríhornið (hornið sem bíllinn “vegur salt yfir”) er 27,5° á loftpúðafjöðrun. Þetta samsvarar sé í fáheyrðu vaðdýpi upp á heila 900 mm. Í ofanálag er nýi Disco 5 um 200 kílóum léttari en sambærileg útfærsla fjórðu kynslóðarinnar, þökk sé m.a. aukinni notkun áls. Heildarþyngd bílsins er því um 2.230 kíló.

Að innan skartaði Discóinn mjúkum, sólbrúnum leðursætum, möttum og áferðarljúfum viðarlistum í mælaborði og hurðum, snyrtilegum áhersluflötum úr burstuðu áli hér og þar og svörtu leðri annars staðar. Gæðatilfinningin var algjör og greinilega engu til sparað.

Öll sjö sæti bílsins eru rafstýrð. Fella má aftari tvær raðirnar niður með tökkum í skotti bílsins, í upplýsingaskjánum milli framsætanna eða, eins fáránlega og það hljómar, með sérstöku Land Rover appi í símanum.  Einstaklega hentugur fítus ef öll sætin eru upprétt þegar staðið er í röðinni við kassann eftir að hafa slysast til að skella hjólbörum og gasgrilli í innkaupakerruna í Costco. Þó hryllir mann við tilhugsunina ef þessir rafmótorar taka upp á því að gefa upp öndina akkúrat þegar kemur að því að skutla börnunum og vinum þeirra í röð fyrir framan nýlentan kleinuhringjastað. Þá eru sætin talsvert svifasein og þrýtur þolinmæði notanda fljótt þegar beðið er eftir vandlega skipulögðu samanbroti sætanna á meðan notendur flestra annarra bíla taka í eina sveif sem fellir niður sætin á augabragði.

Akstursstaða ökumanns er góð og tignarleg, rúður eru stórar og gott útsýni er úr bílnum á alla kanta. Gott pláss er fyrir farþega miðjuraðar og má færa þau sæti fram og aftur, eftir því hvort þörf er á meira farangursrými eða fótarými fyrir farþega öftustu raðar. Glasahaldara og sætishitara er að finna fyrir alla sjö farþega bílsins. Þá tryggja þýð loftpúðafjöðrun og feiknamikill massi bílsins mjúka og þægilega reið yfir hraðahindranir, þvottabretti, ár og grjót. Aflið og togið er fullnægjandi, alls ekki yfirþyrmandi, og skilar þessari rúmlega 2,2 tonna sleggju frá kyrrstöðu í 100 km/klst á 8,1 sekúndu.

Þegar kom að krefjandi torfæruakstri var tæknibúnaður Discovery velkominn og gerði yfirferðina mun þægilegri. Hægt var að kveikja á hinum og þessum myndavélum, en sérstaklega skemmtilegt var að varpa upp á skjáinn mynd úr framstuðaranum þegar ekið var yfir á og myndum úr hliðarmyndavélum þegar ekið var um þröngt bil milli hvassra grjóthnullunga. Einnig var hægt að varpa upp grafík sem sýndi beygju og halla allra hjóla, mismunandi læsingu drifa auk hallamáls á lang- og þverveginn. Fyrir jeppafólk af gamla skólanum kann þetta að hljóma eins og óþarfa frat, en ekki er hægt að neita að búnaðurinn sé áhugaverður og sýnir á skýran hátt hvernig drifbúnaðurinn virkar.

 

Einu athugasemdirnar sem koma upp í hugann eru, sem áður segir, fagurfræðilega krefjandi útlitið og svifaseinu rafmagnssætin. Ennfremur kostar hann vissulega sitt; reynsluakstursbíllinn kom í áðurnefndri HSE útfærslu með ýmsum aukabúnaði sem skilar sér í lokaverði upp á 15.890.000 kr. Grunnverð HSE útfærslunnar með þessari vél er 12.190.000 kr, sem er þó ódýrari en fyrirrennarinn. Grunnverð grunnútfærslu með fjögurra strokka, 180 hestafla dísilvél án lága drifsins er 8.990.000 kr.

En að lokum, í stuttu máli sagt, er Land Rover Discovery 5 færasti jeppi “úr kassanum” sem undirritaður hefur ekið.

 

Helstu upplýsingar:

Gerð: Land Rover Discovery 5 HSE TDV6

Vél: 3,0 lítra V6 dísilvél með forþjöppu

Afköst: 258 hestöfl / 600 Nm

Verð á reynsluakstursbíl: 15.890.000 kr.

Grunnverð: 12.190.000 kr.

Eldsneytisnotkun (skv. framleiðanda): 7,2 l/100 km (blandaður akstur)

Eldsneytisnotkun (raunakstur): 9,1 l/100 km (blandaður akstur)

Losun CO2: 189 g/km

 

Kostir:

  • Drifbúnaður og stillanleiki
  • Torfæruupplýsingar í skjá og myndavélar
  • Torfærugeta
  • Gæðatilfinning innanrýmis
  • Þýð fjöðrun utan sem innan vega

Ókostir:

  • Vafasamt útlit (huglægt mat)
  • Svifasein sæti