Toyota Avensis Wagon 2012

Avensis með nýju og fersklegu útliti

Stórir langbakar hafa kannski ekki verið eftirsóknarverðasta bílgerðin hér á landi en samt er alltaf hópur sem velur þessa gerð umfram stallbaka og þá einkum vegna meira og þægilegra flutningsrýmis. Toyota Avensis er einn þeirra valkosta sem Íslendingum býðst í þessum flokki en hann er nýkominn á markað hérlendis í nýrri gerð. Avensis langbakurinn stendur vel að vígi því að mati undirritaðs er hann enginn eftirbátur stallbaksins í fagurfræðilegu tilliti, nema síður sé.

Straumlínulagaður

Avensis kemur nú með alveg nýjum og beittum framenda sem státar nú í fyrsta sinn af LED-ljósrönd ofanvert við framljósin sem eru með fínlegum halógen linsulugtum. Framstuðarinn er voldugur og myndi jafnvel teljast klossaður ef ekki væri fyrir stærð bílsins. Við prófuðum Avensis langbakinn í Sol-útfærslu sem kemur á 16 tommu álfelgum með tíu rimum, sem er einkar glæsilegur staðalbúnaður, og auk þess stórum þokuljósum í framstuðaranum og krómuðu grilli sem gefa framsvipnum enn sterklegra svipmót.

Þrátt fyrir áberandi yfirbragð að framan hefur hönnuðum Toyota tekist að gefa bílnum straumlínulagað heildaryfirbragð og er það kannski ekki síst að þakka bogadregnu þakinu, hárri hliðarlínu og áberandi lágum hliðargluggum. Fyrir vikið er langbakurinn að allt að því sportlegur í útliti og sé hann tekinn á 17 tommu álfelgunum, sem fást fyrir 80.000 kr. viðbótargjald, er ekki laust við að Avensis Wagon sé farinn að láta kveða allverulega að sér í götumyndinni.

Mikið pláss fyrir farþega

Heildaryfirbragðið að innan gefur tilfinningu fyrir miklum gæðum; vandað efnisval er í fyrirrúmi og frágangur eins og hann gerist bestur en allt er samt mjög klassískt og eiginlega laust við óvænta upplifun. Það er þægilegt að setjast inn í bílinn. Í afturrýminu er feykigott pláss því engin skögun er frá drifstokki og gólfið því flatt. Sömuleiðis er óvenjuhátt til lofts sem gerir það auðveldara fyrir hávaxna að setjast inn í bílinn og yfirgefa hann. Sol-útfærslan er með þriggja arma leðurklæddu fjölaðgerðastýri. Aftan við það eru stórir gírskiptiflipar. Fyrir miðju mælaborði er Toyota Touch snertiskjár með aðgerðum fyrir hljómtæki, farsíma og innbyggðri bakkmyndavél. Búnaðurinn fæst líka með leiðsögukerfi sem var aukabúnaður í bílnum sem var prófaður.

Farangursrýmið er kannski sá partur innanrýmisins sem veldur helst vonbrigðum því hjólaskálarnar skaga inn í rýmið og draga úr flutningsgetunni. Með aftursæti í uppréttri stöðu er það 543 lítrar. Það er hins vegar stækkanlegt upp í 1.609 lítra með því að fella niður aftursætisbökin og það má ýmsu koma fyrir í slíku rými. Undir gólfi farangursrýmisins er að finna hálfvaxið varadekk og verkfærasett í snyrtilegum hirslum.

Bætt hljóðeinangrun

Avensis Wagon er boðinn með fjórum vélargerðum; 1,8 og 2,0 lítra bensínvélum, 147 og 152 hestafla, og 2,0 og 2,2 lítra dísilvélum, 124 og 150 hestafla. Við prófuðum hann með 1,8 lítra vélinni og Multidrive S stiglausu sjálfskiptingunni. Í þessari gerð vegur bíllinn 1.430 kg en afl- og drifrásir eru ágætlega aðlagaðar að bílnum. Vissulega er langur vegur frá því að bíllinn sýni af sér sportlega takta en hann býr yfir þokkalegri hröðun og talsverðu togi sem nýtist ekki síst ef ökumaður notfærir sér handskiptivalið í gírskiptiflipunum í stýrinu. Séu menn handgengnir beinskiptingu geta þeir sparað sér hvorki meira né minna en 320.000 kr. með því að velja sex gíra beinskiptingu í stað stiglausu sjálfskiptingarinnar. Bíllinn er þar fyrir utan talsvert neyslugrennri með beinskiptingunni.

Samkvæmt aksturstölvu bílsins stóð meðaleyðsla hans í 11 lítrum á hundraðið að reynsluakstri loknum, sem gæti bent til þess að hún gæti farið vel niður undir 10 lítra í innanbæjarakstri við eðlilega notkun. Það þætti undirrituðum alveg ásættanlegt miðað við stærð og þyngd bílsins. Uppgefin eyðsla frá framleiðanda er 8,6 lítrar í innanbæjarakstri.

Það sem vekur ekki síst ánægju með nýjan Avensis er endurbætt hljóðeinangrun. Í fyrri gerðum vildi brenna við að veghljóð væri í efri mörkum en þetta hefur verið lagað sem og einangrun frá vél. Þetta er ekki síst að þakka mjúkri fjöðrun sem gleypir í sig ójöfnur þannig að ferðast er í bílnum í þægindum og mýkt. Þetta virðist þó ekki vera á kostnað veggripsins því þrátt mikla lengd eltir bíllinn þær beygjur sem honum er stýrt inn í af mikilli nákvæmni. Stýrið er með léttu átaki sem þyngist með auknum hraða.

Sol-útfærslan er í raun með flestum þeim búnaði sem menn eiga að venjast í dýrari gerðum bíla. Þar má nefna hraðastilli, sjálfvirka loftkælingu, bakkmyndavél, rafdrifnar rúðum að framan og aftan, birtuskynjara, regnskynjara og hann kemur á 16 tommu álfelgum og með þokuljósum að framan, eins og fyrr greinir.

Avensis Wagon Sol kostar 5.350.000 kr. Athygli vekur að langbaksútfærslan kostar þó ekki nema 200.000 kr. meira en stallbakurinn en býr, að mati undirritaðs, yfir meiri þokka og auðvitað meira flutningsrými. Helstu keppinautar Toyota Avensis eru VW Passat, Ford Mondeo, Peugeot 508 og Hyundai i40.

 

Helstu tölur:

Lengd: 4.780 mm.

Breidd (með speglum): 1.819 mm.

Eigin þyngd: 1.430 kg.

Dráttargeta: 1.600 kg.

Vél: 1,8 l Valvematic.

Slagrými: 1.798 rsm.

Afköst: 147 hestöfl.

 

Hámarkshraði: 200 km/klst.

Hröðun: 10,4 sek. úr 0-100.

Eldsneytisnotkun: 8,6 lítrar innanbæjar (tölur framleiðanda).

 

Guðjón Guðmundsson