Dacia Logan MCV 2014


Mesta notagildið fyrir peningana

Þótt bílar hafi kannski aldrei verið betri og minna bilanagjarnir en nú, þá eru þeir mun flóknari en fyrr. Í þeim er innbyggð alls kyns tölvutækni til að stýra gangi vélar og skiptingar sem og öryggisbúnaði eins og læsivörðum hemlum, árekstursvara, radarsjón, skrikvörn og loftpúðum. Oftast virkar þessi búnaður allur eins og til er ætlast, en ef hann bilar er fjandinn laus og kostnaður við bilanaleit getur rokið upp úr öllu valdi og orðið illviðráðanlegur.

   Meðal annars af þessum ástæðum virðist eftirspurn fara vaxandi eftir einföldum og ódýrum bílum  - bílum sem eru eins mikið lausir við allan þennan tölvubúnað sem ekki er beinlínis nauðsynlegur til þess að stjórna gangi vélar og eyðslu- og mengunarstjórn. Dacia bílarnir frá Rúmeníu eru slíkir bílar og í Þýskalandi og fleiri ríkjum V. Evrópu hafa neytendur tekið honum opnum örmum. Dacia bílarnir eru mjög einfaldir og í ódýrustu gerðunum eru ekki einusinni rafdrifnar hliðarrúður og sú flökkusaga gengur um þá að sérstaklega hafi orðið að kalla til gamlan verkfræðing á eftirlaunum til að hanna handvirka rúðuupphalara í Dacia bílana þar sem ungu verkfræðingarnir hafi ekki kunnað að hanna slíka forngripi.

   Það er Renault í Frakklandi sem á Dacia og byggir bílana að nokkru á tækni og búnaði úr eldri gerðum Renault bíla sem hætt er að framleiða. Þannig er undirvagninn í Dacia Logan MCV samsettur úr undirvagnseiningum síðustu kynslóðar Renault Clio og sumar vélarnar í boði í hann eru þrautreyndar í eldri gerðum Renault bíla. Sama er að segja um gírkassa, drif og hjólabúnað. Með því að framlengja á þennan hátt líf eldri tækni og búnaðar er hægt að halda verði bílanna mjög lágu og það er gert rækilega. Hér á landi kostar Dacia Logan, þessi rúmgóði langbakur, frá aðeins 2,8 milljónum.  Það er svipað og sett er upp fyrir 4-6 ára gamla notaða sambærilega bíla.

   Þær vélar sem hann er boðinn með í Evrópu eru bæði bensín og dísilvélar og þeirra á meðal er nýjasta þriggja strokka 90 ha. vélin fyrir hinn nýja Renault Clio. En hér á landi er aðaláherslan á hina þrautreyndu, sparneytnu og ágætu 1,5 l, 90 ha. Renault dísilvél. Uppgefin eyðsla hennar í þessum bíl er 3,8 l á hundraðið og CO2 útblásturinn er 99 g á km.

   Þegar sest er inn í bílinn sést strax að ekkert er verið að bruðla neitt í innréttingum. Plastið í mælaborðinu og meðfram hliðunum í skottinu er hart og hreint ekki af dýrustu gerð. Öll hönnun innanstokks er fremur gamaldags eins og búast má við og hljóðeinangrun er greinilega ekki mikil. En allur frágangur og samsetningar virðast vera í góðu lagi og ekkert skrölt heyrðist í innréttingum. Mjög rúmt er um farþega bæði fram í og afturí. Dísilvélin reyndist þýðgeng og hún er fyllilega nógu öflug til daglegs brúks og hæfir auðvitað bílnum sem er mikið til laus við alla sportlega aksturseiginleika og lítt hvetjandi til áhættuaksturs, enda er það notagildi sem hér er í fyrirrúmi. Viðbragðið úr kyrrstöðu í hundraðið tekur 12,1 sek. og hámarkshraðinn er 173 km á klst.

   Í akstri minnir Dacia Logan MCV mjög á bíla eins og þeir voru í akstri fyrir 10 - 20 árum eða jafnvel enn eldri bíla. Hreyfingarnar eru kemlíkar eldri bílunum og svörun stýris og hemla sömuleiðis. Þetta er alls ekki sagt bílnum til hnjóðs, heldur þvert á móti. Það er eins og þessi bíll hafi sinn eigin skemmtilega karakter sem er talsvert ólíkur nýjustu bílum og fyrir gamlan bílaáhugamann er það bara skemmtilegt. Einfaldleikinn og gömlu gildin eru hér í fullu gildi. Það er bara ein gerð yfirbyggingar í boði – langbakur – það er engin sjálfskipting í boði, heldur einvörðungu fimm gíra handskiptur gírkassi. En drifið er ansi hátt í bilnum sem finnst vel úti á þjóðveginum þegar vélin snýst ekki langt yfir lausagangs-snúningshraða á 90. Það á vafalítið sinn þátt í því hversu sparneytinn Daci Logan MCV er.

Kostir:

Gott rými, mjög rúmgott farangursrými og auðvelt aðgengi að því, ofurhagstætt verð, sparneytni.

Gallar:

Talsverður vegdynur í akstri og veikburða miðstöð.

 

Tæknilegt:

Dísilvél: 4 str. 1461 rúmsm.

Afl/tog: 90/220 við 1750 sn./mín.

0-100 km/klst. 12,1 sek

Eyðsla: (samkv framleiðanda) 3,8 l/100

Hámarkshraði: 173 km/klst.

Verð: Frá 2,8 millj. kr.