Jeep Wrangler 4xe 2021
Varla fara fram hjá mörgum hinar stóru breytingar sem nú eiga sér stað á samgöngum og má þar sérstaklega nefna rafbílavæðinguna. Stóru breytingarnar eru augljóslega þær að framleiðendur eru að skipta út sprengihreyfli fyrir rafmagn en stundum gleymist að horfa til hversu ört aðrir þættir bílsins breytast hvað varðar efnisval og hönnun á burðarvirki. Framleiðendur eru þannig sífellt í leit að umhverfisvænni leiða og er þar einn af mikilvægustu þáttunum að draga úr þyngd og loftmótstöðu án þess þó slakað sé á öryggiskröfum. Þannig hefur plast, koltrefjar, ál og önnur efni leyst gamla góða stálið hægt og rólega af hólmi.
Mesta eftirsjáin hjá mörgum verður þó líklega hvarf „alvöru“ jeppanna sem eru grindarbyggðir með hásingar að framan og aftan. Þetta eru bílar sem byggja á gamalli hönnun þar sem styrkur og ending voru hávegum höfð og umhverfissjónarmið fjarri góðu gamni.
Bifreiðin sem var reynsluekin að þessu sinni kemur frá einum þekktari, ef ekki þekktasta jeppaframleiðanda í heimi, Jeep, sem sameinaðist nýverið PSA Group undir nafninu Stellantis. Jeep varð því um leið hluti af fjórða stærsta bílaframleiðanda heims með 14 merki farteskinu. Í stuttu máli náði Jeep miklum vinsældum eftir síðari heimsstyrjöld þar sem hann hafði sýnt fram á mikla seiglu í krefjandi verkefnum á vegum bandaríska hersins. Í dag eru í framleiðslu átta gerðir undir merkjum Jeep, þar á meðal Cherokee, Compass, Renegade og auðvitað Wranglerinn.
Jeep Wrangler kom fyrst fram 1986 og hafa framleiðendurnir síðan þá haldið tryggð við upprunalegt byggingalag og virkni en núverandi kynslóð er sú fjórða í röðinni og kom fram 2017. Þeir hafa greinilega áttað sig á því að til að geta haldið áframhaldandi tryggð neytenda þurfa þeir að draga úr skaðlegum áhrifum á umhverfið. Því hefur hver tegundin af annarri fengiðtengiltvinnuppfærslu og var Wranglerinn þeirra á meðal.
Ísband er umboðsaðili fyrir Jeep á Íslandi og að sögn félagsins hefur Wrangler 4xe fengið mjög góðar móttökur. Boðið er upp á tvær gerðir: Rubicon 4XE fyrir tæpar 9,5 milljónir og síðan Launch Edition. Síðarnefnda útgáfan er milljón krónum dýrari en ríflegur aukabúnaður fylgir með og fær kaupandinn þar mest fyrir féð. Meðal aukabúnaðar er díóðu ljósapakki, uppfærsla á hljómkerfi, innrétting, öryggisbúnaður og fleira.
Útlit
Framleiðendur Jeep hafa, eins og fyrr segir, verið íhaldsamir á útlit bílsins frá upphafi og lítið verið um stórar breytingar. Wrangler er framleiddur í nokkrum stærðarútgáfum en 4xe sú stærsta með fimm hurðir. Hvar sem á bílinn er litið er haldið í arfleiðina sem lýsir styrk og einfaldleika. Hurðalamir eru staðsettar að utan verðu og framendinn jafn straumlínulagaður og pappakassi. Bíllinn er útbúinn fjarlægjanlegum T–topp fyrir ofan framsæti og fylgir einföld en hentug taska með bílnum til að geyma toppinn í. Fyrir þá sem vilja fara alla leið í frelsinu er einnig hægt að fjarlægja hurðir, leggja niður framrúðu og taka þakið af bílnum að aftan sem er umtalsvert meiri vinna en að taka fremri toppinn af. Eitt sem ökumenn þurf að hafa í huga að séu framhurðir fjarlægðar fylgja hliðarspeglarnir með og bíllinn er þá ekki lengur löglegur til aksturs.
Hjólboganir eru stórir og bíllinn virðist í raun framleiddur með það í huga að setja undir hann stærri dekk. Að sögn sölumanna hjá Ísband fer 35“ dekk beint undir og lítið þurfi að gera til að koma honum á 37“ sem gerir bílinn mun reistari og notagildið eykst einnig í takt við það.
Hönnunarteymið hjá Jeep er greinilega stolt af þessu framlagi sínu sem tvinnbíll en ljósblár litur er áberandi á ytra byrði. jafn á merkingum og dráttaraugum að framan og aftan. Hvort menn séu hrifnir af því skal ósagt látið.
Innra rými
Það fyrsta sem kemur á óvart er hversu einangraðar hurðarnar eru. Af fenginni reynslu er ekkert létt verk að láta hurðar af þessari hönnun lokast jafn og þétt. Þegar horft er til innréttingarinnar ræður áframhaldandi einfaldleiki ríkjum en með mátulegri snertingu af nútíma gæðum. Hurðarnar eru fremur litlar og tekur smá tíma að venjast inn og útstigi en stigbretti þóttu heldur framarlega svo að góð not yrðu af þeim. Eins og nýjum bílum sæmir þá er 7“ snertiskjár á miðju mælaborði ásamt einum minni á milli mæla. Vegna hönnunar er mælaborðið flatt og stutt fyrir ökumann að ná til allra stillinga. Stýrið var með helstu stjórnrofum eins og fyrir síma og hraðastilli. Einnig voru þægilegir hnappar beggja vegna á aftanverðu stýrishjólinu sem stjórnuðu hljóðstyrk og skiptu um lög og rásir.
Eins og gefur að skilja var restin af innréttingunni mjög einföld þar sem sást í bert stál hvert sem litið var. Loftin voru klætt með einhverskonar harðplasti sem er talið til aukabúnaður en áhugavert hefði verið að sjá teppi eða annað mjúkt efni í loftum til að auka á einangrun og þéttleika. Sætin voru þægileg og fór vel um ökumann og farþega. Ágætt sætispláss er fyrir farþega í aftursæti. Skottið er uppgefið 548 lítrar sem er ásættanlegt þegar horft er til þess að þetta er tvinnbíll sem var upprunalega hannaður með eldsneytisvél í huga.
Það kom á skemmtilega á óvart að Wranglerinn býður upp á tímastillta rafhitun á farþega rými sem þýðir að mótor þarf ekki að ganga til að ná upp hita og þá er einnig hægt að fara út í heitan bíl sem hefur verið kynntur á landrafmagni.
Akstur
Staldra þarf við áður en ekið er af stað og hugsa um fyrir hvað þessi bíll stendur og hvaða notkun hann er ætlaður. Hljóðeinangrun er ásættanleg, sérstaklega þegar hugsað er til þess að nær allir efri boddyhlutir eru fjarlægjanlegir. Ekkert skrölt var að finna og kom skemmtilega á óvart hversu lítill vindgnauður var í hurðum þrátt fyrir þjóðvega akstur.
Veghjóð er töluvert sem má að einhverju leyti skrifa á dekkin en mjög gróf 32“ BF Goodrich Mudtrack dekk koma undir bílnum en þau eru sett undir af Ísband þar sem bíllinn kemur á enn grófari dekkjum og hafa þau þrengra notkunarsvið og vekja að öllum líkindum upp enn frekari veggný.
Wranglerinn er drifinn áfram af tveimur mótorum. Eldsneytismótorinn er tveggja lítra fjögurra–sílendra og túrbóvæddur sem skilar 270 hestöflum og síðan er rafmótor sambyggður átta þrepa sjálfskiptingunni. Samtals er bíllinn að skila 375 hestöflum þegar öllu er tjaldað til. Einnig er lítill mótor framan á mótornum og er hann beltadrifin og sér um að hjálpa til við að ræsa vélina og einnig að hlaða inn á rafhlöður. Þrátt fyrir að bíllinn sé orðinn þyngri vegna rafhlöðu og mótors sprettur hann vel úr spori og skilar sér í 100 á rúmlega 6 sekúndum.
Það verður alltaf til einhver fórnarkostnaður þegar menn ætla sér að halda í gamla byggingarlagið með grind og hásingum og finnst vel fyrir því í þjóðvegaakstri þar sem bíllinn er ekki sá stöðugasti á vegi og krefst meiri athygli ökumanns en búast má við í einföldum fólksbíl og jepplingum. Þyngdin á rafhlöðunni sem er staðsett undir aftursætum bætir í raun aksturgæði þar sem fjöðrun en fremur mjúk í innanbæjarakstri og þyngdardreifing jafnari. Ekki gafst þó tími í að prófa bílinn fullan af fólki og farangri.
Hleðslubremsa er á bílnum sem hleður inn á bílinn strax og bensíngjöfinni er sleppt og um leið hægir hann bílinn niður og dregur úr notkun á hemlum. Þennan búnað kannast flestir við sem hafa ekið rafmagnsbílum og eru flestir sammála um þægindin af honum þegar hann hefur komist í vana. Eina sem mæti setja út á að ökumaður þarf að virkja hleðslubremsuna í hvert sinn sem bíllinn er ræstur.
Eyðsla
Eins og með alla tengiltvinnbíla er erfitt að áætla rauneyðslu þar sem mun fleiri þættir spila inn í heldur en aksturslag ökumanns. Uppgefin eyðsla á 4xe er 3,5 – 4,1 l/100 km og er það ekki ósennilegt í stuttum ferðum með reglulegri hleðslu þar sem drifrafhlaðan á að geta skilað bílnum allt að 53 km. Hins vegar má búast við því að stór hluti kaupenda horfi á Wranglerinn sem ferðabíl og þá breytist landslagið hvað varðar eyðsluna. Í reynsluakstrinum var ekið 170 km í þjóðvegaakstri með tóma rafhlöðu og voru eyðslutölurnar í kringum 10.5 til 11 lítrar á 100 km og þá miðað við tóman bíl á upprunalegum 32“ dekkjum. Því ættu hærri tölur ekki að koma á óvart þegar bíllinn tilbúinn í ferðalag með ferðahýsi í eftirdragi.
Dráttargeta bílsins er 1508 kg sem þykir kannski ekki svo mikið miðað við afl og stærð en slök dráttargeta virðist haldast í hendur við tengiltvinnútgáfur, óháð framleiðendum.
Alvöru jeppi
Góð ástæða er til að fara yfir þá þætti sem aðgreina Wranglerinn frá öðrum bifreiðum á götunni og gera honum kleift að fara á fjöll beint úr kassanum. Hásingarnar (Dana44) eru útbúnar driflásum jafnt að framan og aftan og eru takkarnir vel auðkenndir með rauðum lita í mælaborði. Þá er hægt að aftengja ballansstöng að framan innan úr bíl til að auka á slaglengd við kerfjandi aðstæður. Það var ánægjulegt að Jeep menn halda sig við einfaldleikan en skiptingin fyrir millikassann er handvirk án hjálpar. Fyrir utan hefðbundna valmöguleika í millikassanum r einnig boðið upp á 4x4 auto sem er að sögn sölumanna ekki í boði í Bandaríkjunum eða Kanada. Í þessari stillingu virkjast fjórhjóladrif eingöngu þegar á þarf að halda. Gírun á lágadrifinu er góð eða 4,10 sem spilar vel með öllu toginu frá rafmagns og eldsneytismótorum.
Niðurstaða
Hér er á ferðinni bíll sem á fáa sína líka en sá sem kæmist næst því væri mögulega Suzuki Jimny ef það er horft fram hjá öllum aukabúnaði, stærð og um 270 hestöflum.
Því verður ekki neitað að Jeep Wrangler er ekki allra enda eru aðrir Jeep bílar hentugri í að keppa á því sviði. Hins vegar er hér kominn bíll sem er útbúinn beint frá framleiðenda öllu því helsta sem á að prýða góðan ferða- og fjallabíl. Með rafmagninu er búið að auka á notagildi við innanbæjarsnatt og því er auðveldara að réttlæta kaup á rúmlega 10 milljón króna vel útbúnum og hráum jeppa.
Þetta er skemmtilegur bíll sem vekur athygli og er hann ekki síður merkilegur fyrir þær sakir að það er ekki öll von úti um að alvöru jeppar haldi lífi við þær öru breytingar sem standa nú yfir í bílahönnun og framleiðslu.
Björn Kristjánsson, ágúst 2021
Kostir: Búnaður, aksturshæfni, karakter Verð: 9.490.000 - 10.490.000 (Launch Edition) |